Velferðarnefnd

405. fundur 14. janúar 2016 kl. 16:00 - 18:10 Í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.
Nefndarmenn
  • Helga Björk Jóhannsdóttir varaformaður
  • Hildur Elísabet Pétursdóttir aðalmaður
  • Steinþór Bragason aðalmaður
  • Magnús Þór Bjarnason varamaður
  • Guðjón Már Þorsteinsson aðalmaður
  • Sólveig Guðnadóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Sædís María Jónatansdóttir deildarstjóri félagsþjónustu
  • Margrét Geirsdóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs
  • Anna Valgerður Einarsdóttir deildarstjóri barnaverndar
  • Þóra Marý Arnórsdóttir deildarstjóri fötlunarþjónustu
Fundargerð ritaði: Sædís María Jónatansdóttir 405. fundur félagsmálanefndar Ísafjarðarbæjar
Dagskrá
Gunnhildur Björk Elíasdóttir, formaður boðaði forföll og í hennar stað stýrði Helga Björk Jóhannsdóttir, varaformaður fundi.

1.Trúnaðarmál. - 2011090094

Tvö trúnaðarmál lögð fram til afgreiðslu í félagsmálanefnd.
Trúnaðarmálin afgreidd og færð til bókar í trúnaðarmálabók félagsmálanefndar.
Hildur Elísabet Pétursdóttir og Guðjón Már Þorsteinsson mættu til fundar undir umfjöllun um þennan lið.

2.Samstarfsbeiðni Sólstafa Vestfjarða - 2015040006

Vegna bókunar félagsmálanefndar Ísafjarðarbæjar á fundi sínum þann 29. október 2015 sem olli töluverðri umræðu í fjölmiðlum, bókar nefndin eftirfarandi:
Félagsmálanefnd Ísafjarðarbæjar vill, í ljósi undangenginnar umræðu, taka fram að nefndin var einhuga í ákvörðun sinni um stuðning við starfsemi Sólstafa Vestfjarða og telur engar forsendur fyrir að vísað sé til ófaglegrar afstöðu og kunnáttuleysis í viðkvæmum málaflokki. Vísað er til bókunar nefndarinnar frá 29. október 2015 þar sem félagsmálanefnd áréttar vilja sinn til þess að mæla með styrk til Sólstafa Vestfjarða en hafna föstum árlegum rekstrarstyrk.

Helstu rök félagsmálanefndar fyrir höfnun á föstum rekstrarstyrk voru að upphæðin sem óskað var eftir var of há, sé miðað við umfang rekstrar og framlög félagsmálanefndar til annarra úrræða í félagsþjónustu. Engu að síður er unnið mikilvægt og gott starf hjá Sólstöfum Vestfjarða sem nefndin taldi æskilegt að styrkja, þó samstarfssamningurinn væri ekki talinn fýsilegur.
Rétt er að benda á niðurstöðu bæjarstjórnar í málinu, en bæjarstjórn gerði engar athugasemdir við afgreiðslu nefndarinnar og afgreiddi málið í sömu veru í fjárhagsáætlun 2016, með kr. 336.000,- framlagi til starfseminnar og hafnaði þar með árlegum rekstrarstyrk af því tagi sem sótt var um.

Félagsmálanefnd tók beiðni Sólstafa Vestfjarða um samstarf fyrir á fundi sínum þann 14. apríl 2015. Niðurstaða fundarins var að óskað var eftir að fulltrúar Sólstafa Vestfjarða myndu mæta á næsta fund nefndarinnar til að ræða efni bréfsins. Þann 7. maí 2015 mætti Björg Sveinbjörnsdóttir, fulltrúi Sólstafa Vestfjarða, til fundar við nefndina. Á þeim fundi bókaði nefndin að óskað væri eftir frekari upplýsingum um ýmsa þætti umsóknarinnar. Þær upplýsingar bárust nefndinni þann 4. júní 2015 í greinargerð þar sem spurningum félagsmálanefndar var svarað, farið yfir starfsemi samtakanna og lögð fram fjárhagsáætlun.

Málið var lagt fyrir fund félagsmálanefndar þann 11. júní 2015 og bókaði nefndin þá að starfsmönnum fjölskyldusviðs væri falið að kanna nánar grundvöll fyrir samstarfssamningi við Sólstafi Vestfjarða.

Þann 20. ágúst 2015 var haldinn fundur með Björgu Sveinbjörnsdóttur fulltrúa Sólstafa Vestfjarða, formanni félagsmálanefndar, Gunnhildi Elíasdóttur og þremur starfsmönnum fjölskyldusviðs, Sædísi Maríu Jónatansdóttur, Þóru Marý Arnórsdóttur og Margréti Geirsdóttur. Á þeim fundi var rætt um fjárþörf Sólstafa Vestfjarða, mögulega aðkomu annarra sveitarfélaga og framsetningu ítarlegra erindis sem lagt skyldi fyrir félagsmálanefnd vegna þess að framundan var gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2016, enda var fullur vilji til þess að koma málinu að í þeirri áætlun.

Þann 15. október 2015 sendi sviðsstjóri fjölskyldusviðs tölvupóst til Sólstafa Vestfjarða þar sem minnt var á að erindi þyrfti að berast mjög fljótlega þar sem gerð fjárhagsáætlunar 2016 var komin á skrið.

Þann 28. október 2015 sendi sviðsstjóri aftur póst þar sem tilkynnt var um fund nefndarinnar næsta dag, en ekkert erindi hafði borist frá Sólstöfum Vestfjarða. Við þessum tölvupósti urðu skjót viðbrögð og formlegt erindi barst frá Sólstöfum Vestfjarða að kvöldi 28. október 2015.

Þar sem ekkert erindi hafði borist þegar gögn vegna fundar sem halda átti þann 29. október 2015 voru send út var erindinu bætt við fundardagskrána með samþykki nefndarmanna. Nefndin tók þannig tillit til þeirrar vinnu sem átt hafði sér stað síðustu mánuði. Bókun nefndarinnar á þessum fundi var að félagsmálanefnd teldi sér ekki fært að mæla með því við bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar að samtökunum yrði veittur rekstrarstyrkur að fjárhæð kr. 717.797,- á ári. Félagsmálanefnd áréttaði hins vegar vilja sinn til þess að mæla engu að síður með styrk til Sólstafa Vestfjarða á árinu 2016.

3.Reglur Ísafjarðarbæjar um þjónustuíbúðir á Hlíf og Tjörn. - 2016010028

Lögð fram drög að nýjum reglum Ísafjarðarbæjar um þjónustuíbúðir á Hlíf og Tjörn, ásamt verklagsreglum um afgreiðslu umsókna.
Félagsmálanefnd Ísafjarðarbæjar fagnar því að nýjar reglur séu að líta dagsins ljós og felur þjónustuhópi aldraðra að ljúka við gerð reglnanna í samræmi við umræður á fundinum.

4.Fundargerðir verkefnahóps Bs-Vest. - 2011090092

Lögð fram fundargerð verkefnahóps Bs-Vest frá 52. fundi.
Fundargerð lögð fram til kynningar.

5.Fundargerðir stjórnar Bs-Vest. - 2015030003

Lagðar fram fundargerðir stjórnar Bs-Vest frá fundum 50, 51 og 52, ásamt fundargerð 1. fundar nýrrar stjórnar Bs-Vest.
Fundargerðir lagðar fram til kynningar.

6.Frumvörp og þingsályktunartillögur til umsagnar 2016 - 2016010027

Lagt fram erindi frá nefndarsviði Alþingis dags. 21. desember sl. þar sem félagsmálanefnd er sent til umsagnar frumvarp til laga um húsnæðisbætur (heildarlög), 407. mál.
Félagsmálanefnd Ísafjarðarbæjar gerir ekki efnislegar athugasemdir við frumvarpið. Nefndin gerir það að tillögu sinni að lögin taki ekki gildi fyrr en 1. janúar 2017 enda hafa sveitarfélög ekki gert ráð fyrir þeim kostnaðarauka í fjárhagsáætlunum fyrir árið 2016 sem lögin fela í sér.

Jafnframt má gera ráð fyrir að kostnaðarauki sveitarfélaga, þar sem meðaltekjur eru lágar og eignamyndun minni, verði hlutfallslega meiri en þar sem meðaltekjur eru hærri og eignamyndun meiri.

Fundi slitið - kl. 18:10.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?