Stjórnarfundur 25. janúar 2022

Íbúasamtökin Átak

Fundargerð

Fundur 25. janúar 2022 kl. 19:30

Þingeyri

Mætt: Guðrún, Guðmundur, Lára, Wouter og Helgi fh. Íbúasamtakanna, Agnes sem áheyrnarfulltrúi ÖVD og Birta frá Blábankanum

Dagskrá:

 1. Helstu mál á döfinni vegna fundar með bæjarstjóra og bæjarritara

Áréttað að nauðsynlegt sé að endurskipuleggja snjómokstur ef endurnýja á samning við verktakana en óánægja hefur verið með mokstur undanfarin ár.

Rætt um vorverk og ánægju lýst með hugmyndir um nánari tengsl við sviðið sem ber ábyrgð á þeim hjá Ísafjarðarbæ. Átak hyggst taka saman tillögur fyrir 2022 líkt og gert var 2021. Vonast til að betri eftirfylgni og utanumhald verði um slátt, snyrtingu og viðhald á Þingeyri sumarið 2022. Leitað verði leiða til að bærinn tryggi betur að öll viðeigandi svæði séu snyrt og slegin.

Ákveðið að biðja bæjarritara og bæjarstjóri að láta bæinn, umhverfisnefnd eða álíka hvetja fyrirtæki á svæðinu til að taka til á lóðum sínum fyrir ferðasumarið mikla þar sem Átak hefur hingað til talað fyrir daufum eyrum um þetta.

Deiliskipulagning lóða – mikil ánægja með að deiliskipulag verið brátt tilbúið og áréttað að brýnt sé að ljúka því sem fyrst. Ákveðið að ámálga á fundi með bæjastjóra og bæjarritara.

Heimastjórnarmál – samtökin lýsa ánægju með samráð og starf Ísafjarðarbæjar í þessu máli og hlakka til frekara samstarfs um efnið.

Áréttað enn og aftur að brýnt er að ljúka stígnum í kringum Sandafell til að tengja hann verkefni styrktu af framkvæmdasjóði ferðamannastaða og ÖVD. Annars er ekki unnt að ljúka við kortavinnu sem er hluti af þessum verkefnum.

Brýnt að ítreka mikilvægi söndunar/moksturs á stað þar sem alvarleg bílslys hafa orðið í vetur, ákveðið að senda Ísafjarðarbæ nákvæmt kort af slysstaðnum.

 1. Störf án staðsetningar hjá Ísafjarðarbæ - sameiginlegt erindi með hverfaráði Önundarfjarðar til bæjarstjórnar

Rætt mikilvægi þess að grípa fjarvinnugæsina og hvernig fjarvinna geti skapað fjölbreyttari tækifæri til búsetu á Þingeyri. Samþykkt að vera með Önundarfirði í að hvetja Ísafjarðarbæ til að gera það að reglu að öll störf sem henta til fjarvinnu verði auglýst með starfsstöðvum í þeim samvinnurýmum sem Ísafjarðarbær á aðild að; Skúrinni á Flateyri og Blábankanum á Þingeyri. Sjá bréf að neðan.

Efni: Fjölgun starfsstöðva Ísafjarðarbæjar

Ágæta Bæjarstjórn

Með þessu bréfi óska Hverfaráð Önundarfjarðar og Íbúasamtökin Átak Dýrafirði eftir því að Ísafjarðabær breyti verklagi sínu við auglýsingu starfa sem henta til fjarvinnu. Hverfaráðin leggja til að gert verði að reglu að öll slík störf verði auglýst með starfsstöðvum í þeim samvinnurýmum sem Ísafjarðarbær á aðild að; Skúrinni á Flateyri og Blábankanum á Þingeyri, auk starfstöðva á Ísafirði. Nýr starfsmaður hefði því val hvaða starfsstöð hann myndi setja sig niður á. Það er mat Hverfaráðanna að slík breyting myndi hafa margvísleg jákvæð áhrif á þróun byggðar í Önundar- og Dýrafirði sem og jákvæð áhrif á rekstur bæjarins, hér á eftir fylgja þau helstu:

 • Fjölbreytilegt val nýrra starfsmanna á á starfsstöð sinni mun fjölga hæfum umsækjendum um störf, bæði umsækjenda sem þegar búa á norðanverðum Vestfjörðum og umsækjenda af landinu öllu. Má í því samhengi nefna að margir húseigendur í fyrrnefndum þéttbýlum geta vel hugsað sér að búa og sækja vinnu þar en ekki á Ísafirði
 • Nokkrar ríkisstofnanir (t.d. Umhverfisstofnun) hafa notað þetta verklag um árabil með góðum árangri (t.d. eru öll störf hjá Ust í boði með starfstöð á Ísafirði)
 • Skrifstofuhúsnæði að jafnaði ódýrara eftir því sem farið er fjær þungamiðju atvinnusvæða. Fermetraverð fasteigna á Þingeyri og Flateyri hefur verið töluvert lægra en á Ísafirði.
 • Með fleiri starfstöðvum yrði til aukin sveigjanleiki og starfsmannahaldi og rekstri húsnæðis hjá sveitarfélaginu
 • Nýting Ísafjarðarbæjar á samvinnurýmum sem það á eignarhluta í tryggir fjárfestingu sveitarfélagsins, án þess að til komi annar stuðningur þess
 • Nýting á samvinnurýmunum mun auka meðvitund og tengsl miðlægrar stjórnsýslu Ísafjarðarbæjar við fyrirtæki og fólk, og þar með samfélögin, í Dýra- og Önundarfirði
 • Nýting á samvinnurýmunum myndi styðja rekstur þeirra með beinum hætti og þar með styðja við atvinnulíf og nýsköpun (sem reiða sig á samvinnurýmin) í fyrrnefndum samfélögum með óbeinum hætti
 • Nýting ísafjarðarbæjar á samvinnurýmunum myndi auka á fjölbreytni í samsetningu notenda þeirra og hafa jákvæð áhrif á starfsumhverfi annara notenda

Að lokum má benda á að það hefur verið sameiginlegt verkefni sveitarfélaga á landsbyggðinni að þrýsta á ríkisvaldið að færa þjónustu og stofnanir út á landsbyggðina. Í því samhengi hefur mikið verið rætt um „störf án staðsetningar“ og hafa sveitarfélögin almennt gert þá kröfu að sem flest störf verði auglýst án staðsetningar. Tillaga Hverfaráðanna er í þeim sama anda: Að sveitarfélagið sjálft uppfylli sömu kröfu og það gerir til ríkisvaldsins.

 1. Samstarf við Blábankann og mál á döfinni

Framkvæmdastjóri sagði frá viðburðadagatali og fyrirhugaðri kynningarherferð á Þingeyri og Dýrafirði í tengslum við ferðasumarið mikla.

 1. Aðalfundur

Ákveðið að finna hentugan tíma fyrir aðalfund á vormánuðum.

 1. Samstarf og samskipti innan Átaks

Markmið hverfisráða er meðal annars að:

 • að efla samhug og samkennd íbúa
 • að vera samstarfsvettvangur íbúa, félagasamtaka og hagsmunasamtaka á svæðinu
 • að vinna að framfara- og hagsmunamálum í byggðakjarnanum
 • að standa vörð um sérkenni byggðakjarnans
 • að starfa með stofnunum bæjarins og opinberum aðilum sem fara með málefni byggðakjarnans og íbúa hans
 • að efla samstarf við hverfisráð annarra byggðakjarna

Fundað er að jafnaði einu sinni í mánuði og sumir stjórnarmenn taka að auki að sér önnur tengd verkefni s.s. setu í stjórn eða valnefnd ÖVD og Blábankans. Formaður situr að auki mánaðarlega fundi með ÖVD og Ísafjarðarbæ og einnig þarf að svara tilfallandi erindum og umsagnarbeiðnum. Ekki er um umtalsvert vinnuframlag að ræða en hafa ber hugfast að stjórnarmenn sinna stjórnarstarfinu í sjálboðavinnu samhliða vinnu og jafnvel öðru sjálfboðaliðastarfi í mörgum tilvikum. Því er brýnt að starfið og samskiptin innan stjórnarinnar séu uppbyggileg, fagleg og til þess fallin að efla samhug og samkennd og hvetja til góðra verka. Erfið samskipti og óánægja eins stjórnarmanna hefur um nokkurt skeið staðið í vegi fyrir eðlilegu starfi stjórnarinnar og dregið úr stjórnarmönnum samfélagsvinnuþrótt. Því ákvað stjórnin að setja samskiptamáta og samskipti innan stjórnarinnar á dagskrá. Farið var yfir málið og leitað leiða til að bæta samskiptin en árangurslaust svo að miðjum fundi sagði einn stjórnarmanna sig úr stjórninni, sá gekk síðan aftur til liðs við samtökin, til setu fram að aðalfundi. Annar stjórnarmaður sagði af sér eftir fundinn.

Fundi slitið kl. 22:30

Fundarritari: Guðrún D. Guðmundsdóttir

Er hægt að bæta efnið á síðunni?