Bæjarstjórn - 200. fundur - 27. apríl 2006


HÁTÍÐARFUNDUR.


Fjarverandi aðalfulltrúi.  Lárus G. Valdimarsson í h. st. Sæmundur Kr. Þorvaldsson.



Dagskrá:


I. Tillaga að útnefningu frú Ruthar Tryggvason, sem heiðursborgara Ísafjarðarbæjar.



I. Tillaga að útnefningu heiðursborgara.


   Til máls tók: Birna Lárusdóttir, forseti.


Til máls tók: Birna Lárusdóttir, forseti.


Birna Lárusdóttir mælti fyrir svohljóðandi tillögu, sem flutt er af öllum bæjarfulltrúum Ísafjarðarbæjar.


 ,,Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkir á 200. fundi sínum þann 27. apríl 2006, að útnefna frú Ruth Tryggvason, kaupkonu og fyrrum ræðismann Dana, Aðalstræti 24 á Ísafirði, sem heiðursborgara Ísafjarðarbæjar. 


Samþykktin er gerð í þakklætisskyni og af virðingu við Ruth fyrir margvísleg störf, sem hún hefur unnið í þágu samborgara sinna.?


Tillögunni fylgir svohljóðandi greinargerð.


Greinargerð með tillögu að útnefningu heiðursborgara Ísafjarðarbæjar.


Flutt á 200. fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar haldinn


í íþróttahúsinu Torfnesi, þann 27. apríl 2006.


Í sveitarfélaginu Ísafjarðarbæ lifa og starfa fjölmargir einstaklingar sem hver á sinn hátt hafa jafnan skarað fram úr, ýmist í leik eða starfi. Þetta eru máttarstólpar samfélagsins - fólk sem leggur sitt af mörkum til að tryggja velferð okkar sem hér búum og stuðlar að vellíðan þeirra sem sækja okkur heim.


Einn slíkur máttarstólpi er frú Ruth Tryggvason, kaupkona. Í hartnær sex áratugi hefur Ruth sett mark sitt á mannlífið á Ísafirði og í reynd verið holdgervingur gestrisni og alúðar. Hún hefur átt drjúgan þátt í að skapa fjölbreytta verslunarsögu Ísfirðinga á þessum tíma, og er þekktust af rekstri sínum á Gamla bakaríinu, auk þess sem hún hefur mikið látið til sín taka í margskonar félagsmálum. Þess utan gegndi hún embætti ræðismanns fyrir Danmörku í ríflega tuttugu ár.


Það hlýtur að hafa verið framandleg sjón fyrir unga, danska konu að sigla inn á Skutulsfjörðinn veturinn 1950 og berja framtíðarheimilið augum í fyrsta sinn. Ruth var þá aðeins 29 ára gömul, nýgift ungum Ísfirðingi, Aðalbirni Tryggvasyni. Þau höfðu kynnst í Kaupmannahöfn tæpum fjórum árum áður þar sem Aðalbjörn var við nám í verslunarskóla. Þau ákváðu að flytja til Íslands, gengu í hjónaband áður en Esjan lagði úr höfn í Reykjavík og sigldu áleiðis til Ísafjarðar. Faðir Aðalbjarnar, Tryggvi Jóakimsson, var þá eigandi að Gamla bakaríinu sem strax í þá daga bar nafn rentu enda hafði það verið starfrækt allt frá árinu 1871.


Ruth og Aðalbjörn hófu fljótlega störf í Gamla bakaríinu en stunduð einnig önnur verslunarstörf. Þau ráku um skamma hríð verslun með varahluti fyrir bíla en stofnuðu síðan húsgagnaverslun sem rekin var um áratugaskeið, eða allt til ársins 1988. Þá verslun ráku þau samhliða bakaríinu en þau tóku við rekstri þess árið 1956 þegar Tryggvi bakari lést.  Aðalbjörn féll frá árið 1970 en Ruth hélt rekstri Gamla bakarísins ótrauð áfram ásamt fjölskyldu sinni.


Börn þeirra Ruthar og Aðalbjarnar eru þrjú: Tryggvi sem er kvæntur Svövu Oddnýju Ásgeirsdóttur - þau eiga þrjú börn; Árni, sem er kvæntur Rósu Þorsteinsdóttur og eiga þau tvö börn og loks María Margrét Aðalbjarnardóttir sem er gift Pétri Birgissyni en þau eiga tvo drengi.


Ísafjarðarbær er ungt sveitarfélag og fagnar í sumar tíu ára afmæli sínu. Fyrir vikið hefur einungis einn maður borið nafnbótina heiðursborgari Ísafjarðarbæjar en það var Guðmundur Ingi Kristjánsson, bóndi og skáld, frá Kirkjubóli í Bjarnadal í Önundarfirði, en hann lést árið 2002. Hann var útnefndur heiðursborgari Mosvallahrepps árið 1987 en sveitarfélagið sameinaðist síðar í Ísafjarðarbæ. Bæjarstjórnir í Ísafjarðarkaupstað hinum forna útnefndu heiðursborgara í þrígang. Var Jónas Tómasson þeirra fyrstur árið 1960, Ragnar H. Ragnar árið 1978 og loks Úlfur Gunnarsson árið 1984.


Vert er að geta þess að Ruth Tryggvason og Úlfur læknir áttu það sameiginlegt að vera bæði af dönskum ættum en móðir Úlfs var dönsk. Þeim var vel til vina og er haft eftir Úlfi að ef hann vissi ekki eitthvað um einhvern þá færi hann bara í Gamla bakariið og spyrði Ruth.


Með virðingu og þakklæti samþykkir bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar að frú Ruth Tryggvason verði næsti heiðursborgari sveitarfélagsins. Með því móti viljum við um leið heiðra alla þá samborgara okkar sem leggja sitt af mörkum til samfélagsins til að hér megi dafna gott mannlíf.


Hafðu þökk fyrir Ruth.


Tillagan borin upp til atkvæða af forseta og samþykkt samhljóða með öllum greiddum atkvæðum 9-0.





Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og undirrituð.  Fundi slitið kl. 17:15.


        


Þorleifur Pálsson, ritari.


Birna Lárusdóttir, forseti.


Guðni G. Jóhannesson.      


Svanlaug Guðnadóttir.


Ragnheiður Hákonardóttir.      


Ingi Þór Ágústsson.


Sæmundur Kr. Þorvaldsson.     


Bryndís G. Friðgeirsdóttir.        


Magnús Reynir Guðmundsson.


Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.





Er hægt að bæta efnið á síðunni?