Lífshlaupið 2022: Íbúar Ísafjarðarbæjar hvattir til þátttöku

Íbúar Ísafjarðarbæjar eru hvattir til þátttöku í Lífshlaupinu sem hefst þann 2. febrúar 2022.

Lífshlaupið er heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem höfðar til allra landsmanna. Markmið þess er að hvetja landsmenn til þess að fara eftir ráðleggingum Embættis landlæknis um hreyfingu hvort sem er í frítíma, vinnu, skóla eða við val á ferðamáta. Í ráðleggingunum segir að börn og unglingar ættu að hreyfa sig í minnst 60 mínútur daglega og fullorðnir ættu að stunda miðlungserfiða hreyfingu í minnst 30 mínútur daglega.

Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að huga að heilsunni. Við erum vonandi að nálgast lokasprettinn í baráttu okkar við COVID-19. Það er mikilvægt að láta ekki deigan síga og að halda áfram að huga vel að okkar eigin sóttvörnum, en í öllum þeim höftum og verkefnum sem vírusinn hefur fært okkur má alls ekki gleyma því að huga vel að bæði andlegri og líkamlegri heilsu. Það er meðal annars hægt að gera með því að hreyfa sig reglulega því allt telur. Endilega takið þátt og hvetjið fólkið í kringum ykkur líka til þess að taka þátt í Lífshlaupinu 2022!

Lífshlaupið skiptist í fjóra keppnisflokka:

  • Vinnustaðakeppni frá 2. febrúar – 22. febrúar, fyrir 16 ára og eldri
  • Framhaldsskólakeppni frá 2. febrúar – 15. febrúar, fyrir 16 ára og eldri
  • Grunnskólakeppni frá 2. febrúar– 15. febrúar, fyrir 15 ára og yngri
  • Einstaklingskeppni þar sem hver og einn getur skráð inn sína hreyfingu allt árið

Skráning fer fram á www.lifshlaupid.is/innskraning. Skráningarferlið er einfalt og þægilegt en fínar leiðbeiningar má finna hér og svo hér á ensku.

Við minnum á Lífshlaups-appið þar sem mun einfaldara er að skrá alla hreyfinguna sína þegar maður er komin í lið.