Heiðursborgari fagnar 90 ára afmæli

Heiðursborgari Ísafjarðarbæjar, Vilberg Valdal Vilbergsson, betur þekktur sem Villi Valli, fagnar 90 ára afmæli sínu í dag. Af því tilefni færði Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri, Villa Valla blómvönd og kveðjur frá Ísafjarðarbæ. 

Villi Valli var gerður að heiðursborgara Ísafjarðarbæjar í apríl 2018 en hann hefur einnig verið bæjarlistamaður sveitarfélagsins. Í rökstuðningi Kristjáns Andra Guðjónssonar sem lagði til útnefninguna í bæjarstjórn kemur meðal annars fram að:

„Vilberg Valdal Vilbergsson hefur átt heima í Ísafjarðarbæ nánast allt sitt líf. Hann þjónaði bæjarbúum sem hárskeri í rúmlega 60 ár og auðgaði tónlistarlíf bæjarins með tónlist sinni. Nánast allir bæjarbúar þekkja hann og virða og þakka honum.“