Hátíðarræða á 17. júní 2023

Greipur Gíslason, stjórnandi tónlistarhátíðarinnar Við Djúpið, flutti hátíðarræðu á þjóðhátíðarsamkomu á Eyrartúni þann 17. júní 2023.


Kæru Ísfirðingar, nærsveitafólk og aðrir gestir
Gleðilega hátíð — til hamingju með daginn.

Íbúar í Ísafjarðarðarsýslunum, Ísfirðingar, hljóta að finna aðeins meira til sín, finnast þeir vera örlítið tengdari manni dagsins, Jóni Sigurðssyni, en aðrir íbúar landsins. Hann var jú fæddur í nágrenninu og síðar þingmaður okkar Ísafirðinga um árabil. Í sveitarfélaginu eru bæði hátíðahöld á fæðingarstað hans á Hrafnseyri og hér á Ísafirði. Ég vil nota tækifærið og senda góðar kveðjur suður í Arnarfjörð.

Ég er ekki bara stoltur af því að vera Ísfirðingur heldur finnst mér ég líka vera heppinn. Fyrir því eru margar ástæður. Ljónheppinn að fæðast í þessu fallega húsi hér fyrir aftan mig. En heppnin er kannski helst til komin vegna þess að um langa hríð stóð alls ekki til að foreldrar mínir flyttust hingað vestur á firði — hvað þá settust hér að um áratuga skeið og myndu ala okkur systkinin upp milli háu bláu fjallanna.

Heppinn ég, hepinn við, að svo fór.

Samfélag eins og okkar er gott dæmi um það hversu dýrmætt það er að taka vel á móti fólki sem kemur frá misfjarlægum stöðum og vill setjast hér að. Að gefa einstaklingum tækifæri að koma sér fyrir og blómstra gefur iðugleg margfallt til baka.

Nægir að nefna í þessu samhengi að allir heiðursborgarar Ísafjarðar hafa í raun verið aðfluttir — sá eini er býr að þeim titli í dag fluttist reyndar bara frá Flateyri en hann veit að það var erfitt að komast hér á milli — leiðin kannski ekki löng en oft torfær.

Ísfirskt tónlistarlíf hefur frá upphafi notið góðs af kraftmiklu fólki sem hingað vildi flytja, búa með okkur milli fjallanna háu; þriggja heiðursborgara og fjölmargra kennara sem flust hafa búferlum hingað í samfélagið okkar. Sum innanlands en önnur yfir fjallgarða og höf, mögulega í leit að betra lífi.

Það þarf ekki að fjölyrða um þann arð sem af búsetu og störfum þessa góða hóps hefur hlotist. Hér áðan stýrði Ísfirðingurinn Madis Mäekalle frá Eistlandi lúðrasveit bæjarins og á eftir njótum við krafta nýs Ísafirðings Judy Tobin þegar hún stýrir hátíðarkórnum.

Ég þekki ekki nákvæmar ástæður þess að þau Madis og Judy setjast hér að en ég veit að það er deginum ljósara að ekki eru öll eins heppin og við. Sannarlega hafa áföllin dunið á samfélögum okkar hér í sýslunum. En hingað sækir líka fólk sem fæðist inn í hörmungar nær og fjær eða hreinlega vaknar einn daginn við það að óvinaher nágrannalands hefur ruðst inn í bakgarðinn.

 

Þó að sú hvöt að hjálpa náunganum í neyð eigi auðvitað að vera nóg til þess að taka á móti fólki með opinn arminn getur verið ágætt að hugsa til þess hvað það gæti verið sem þeir nýju Ísfirðingar myndu gefa samfélaginu — hvert þeirra verði heiðursborgari í framtíðinni. Hvað getum við gert til að hlúa að þeim auðlyndum sem fylgir nýjum íbúum?

Ég var svo heppinn að vera í Grunnskólanum á Ísafirði þegar Ísafjarðarbær tók við hópi fólks sem flúði stríð í austur Evrópu. Í bekkinn minn komu tveir nýir Ísfirðingar sem gáfu okkur algjörlega nýtt sjónarhorn á heiminn, juku viðsýni okkar og umburðarlyndi.

Þó svo að fáir í þessum hópi sjáist oft hér vestra nú aldarfjórðungi síðar gaf samfélagið því nýja von og viðspyrnu til að hefja nýtt líf eða skjól meðan líf þeirra heima fyrir þurfti að bíða.

Á sama hátt og samfélög eins og okkar eiga að bjóða nýja félaga velkomna eiga þau að vera óhrædd að sækja sér aðstoð og ráð út fyrir hreppamörkin þegar þess þarf.

Góð blanda af staðbundinni þekkingu og nennu, ásamt hugmyndum og ráðleggingum víðar að getur skapað gull. Þetta á bæði við á smáum og stórum skala.

Nýir íbúar og gestir geta að sjálfsögðu fært hluta heimsins hingað til okkar en ferðalög og þekking sem hlýst af því að heimsækja nýja staði gefa líka ríkulega af sér.

Síðar í mánuðinum verða Vestfjarðahljólreiðarnar ræstar öðru sinni eftir að hafa slegið í gegn á síðastliðnu sumri. Ég leyfi mér að segja að þar fari saman þessi töfrablanda. Eldmóður og áhugi innfæddra og ný tengsl við langt að komna nýja Ísfirðinga með sambönd í hjólreiðabransann úti í hinum stóra heimi. Þetta verkefni sprettur eiginlega úr engu en með grettistaki eru yfir 80 þátttakendur á leið hingað, mörg þeirra yfir langan veg, til þess eins að hjóla á vegum sem við höfum hatað að elska og elskað að hata frá því að ég man eftir mér. Þau borga meira að segja fyrir það fyrir það. Til hamingju aðstandendur hjólreiðanna.

Einhver okkar hér settu væntanlega í brýnnar þegar hinir og þessir lattelepjandi miðbæjarhipsterar fóru að kaupa hús eftir hús á Flateyri við Önundarfjörð og gera þorpið að sumardvalarstað sínum. Flateyringar virðast þó hafa tekið á móti þessu með ró og með gleði. Með nýbúunum, sem kemur svo í ljós að dvelja alls ekki bara á sumrin, hafa sprottið ný verkefni og ný von. Með önfirskri seiglu, reykvískri fífldirfsku og kannski smá klíkuskap starfar nú á Flateyri ný skólastofnun sem virðist dafna. Ég vil nota tækifærið og óska Flateyringum og öllum Ísfirðingum til hamingju með nýja stúdentagarða á Flateyri — af þeim er mikill sómi og greinilega vandað til verka.

Þessi dæmi sýna okkur að við þurfum að vera opin fyrir nýjum hugmyndum og leyfa okkur að hugsa hluti á nýjan hátt. Annars verður lítil framþróun — af því hlýst stöðnun — og það er ekki gott fyrir neinn.

Í dag teljum við á ný í tónlistarhátíðina Við Djúpið. Það er mér sjálfum mikið ánægjuefni. Segja má að við aðstandendur hátíðarinnar höfum, þegar hróður hátíðarinnar reis sem hæst, aðeins gleymt að leita meira í okkar eigin rann hér vestra. Það er því von okkar sem nú stöndum að hátíðinni að ríkari blanda heimamanna og gesta komi fram í dagskránni og nemendur sumarnámskeiðanna okkar séu bæði úr Ísafjarðarsýslum og öðrum sýslum þessa heims.

Í þeim anda er það okkur sérstakt tilhlökkunarefni að í fyrsta sinn í sögu hátíðarinnar leikur ungur heimamaður fulla einleikstónleika í aðaltónleikaröðinni. Bolvíkingurinn Oliver Rähni hleypir í sumar heimdraganum og sækir sér frekari þekkingu í Reykjavík. En fyrst spilar hann fyrir okkur á þriðjudagskvöld.

Ég vona að ég sjái ykkur sem flest á tónleikum hátíðarinnar, til dæmis í Blómagarðinum á eftir kl. fimm.

Það eru bjartir dagar á Íslandi, sumarsólstöður nálgast og sumarið er komið. Veturinn er víðsfjarri í hugum okkar þó að það séu ekki margar vikur síðan að nagladekkin loksins hurfu undan bílaflotanum hér í firðinum. Við erum hætt að hugsa um að skafa að morgni og styðja okkur við grindverkið til að komast yfir skautasvellið hér við Hafnarstrætið.

Á sama tíma er líka auðvelt að gleyma að svo víða er fólk sem gæfi mikið fyrir að fá að skafa af bílnum sínum að morgni í staðinn fyrir ófríð og aðra ógn.

Dagurinn í dag er hátíð okkar allra sem kjósum að lifa undir þeim sáttmála sem þjóðin hefur sett sér um frið og náungakærleik — sama hver uppruni okkar er. Með því að halda daginn í þeim anda höldum við uppi merkjum afmælisbarnsins.

Ágætu Ísfirðingar,
mig langar að vitna í ræðu fjallkonunnar sem stóð hér fyrir nákvæmlega ári; ég geri orð hennar að mínum:

Þetta eru raddirnar sem eiga að óma
Hver rödd er þess virði
Raddirnar um að missa heimili
Raddirnar um að finna heimili
Það er ekki sjálfgefið að eiga heimili.
Hvernig vökvum við blóm í auga stormsins?

Vaida Bražiūnaitė, fjallkona á Ísafirði 2022.

Kæru Ísfirðingar,
Til hamingju með daginn!