Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar 2020 samþykkt

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2020 hefur verið samþykkt af bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar. Samkvæmt áætluninni er lagt upp með að reka samstæðu sveitarfélagsins, það er að segja A og B hluta, með 168 milljóna króna afgangi. Það er 76 m.kr. meiri afgangur en árið á undan og 127 m.kr. meiri afgangur en árið 2018. Áætlunin gerir ráð fyrir að sveitasjóður, eða A hluti, verði rekinn með 29 m.kr. afgangi.

Ekki er gert ráð fyrir að taka nein ný lán á árinu 2020 heldur láta veltufé frá rekstri duga fyrir fjárfestingum. „Að ná rekstrinum á þennan stað og halda honum þar er sérstaklega mikilvægt fyrir fjárhagslegt heilbrigði sveitarfélagsins,“ segir Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar. „Lánasafn ísafjarðarbæjar er þannig samansett að flest lán eru til frekar skamms tíma. Með því að taka engin ný lán lækka skuldir á hverju einasta ári sem þýðir að getan til að bæta þjónustu og fjárfesta í innviðum eykst.“

Tekjuhluti fjárhagsáætlunar 

Fjárhagsáætlun fyrir 2020 gerir ráð fyrir að útsvarsstofn hækki um 6,4% milli áranna 2019 og 2020. Útsvarsgreiðslur fyrir árið  2020 eru þannig áætlaðar 2.340 m.kr.

Áætlun tekna frá jöfnunarsjóði nemur 929 m.kr. og er þannig ein þriggja megin tekjustoða sveitarfélagsins.

Þriðja stoðin eru fasteignaskattar og gjöld. Þar er gert ráð fyrir 440 m.kr. í tekjur en helsti valdur hækkunar á milli ára þar er hækkun á fasteignamati sem er nærri því 10% á milli ára. Sú þróun er ekki á valdi sveitarfélagsins en hefur áhrif á eignastöðu húseigenda og kemur til hækkunar á sköttum og gjöldum tengdum fasteignum. Fyrr á þessu ári ákvað bæjarstjórn að mæta þessari fyrirsjáanlegu hækkun með því að lækka álögur fasteignagjalda á móti. Er það gert með því að lækka álagninu vatnsgjalds og fráveitu. Með þeirri breytingu er nú svo komið að Ísafjarðarbær er í hópi þeirra sveitarfélaga á Íslandi sem innheimta allra lægstu vatnsgjöld og fráveitugjöld eða 0,1% í vatni og 0,2% í fráveitu.

Í fjárhagsáætlun 2019 var gert ráð fyrir að íbúum Ísafjarðarbæjar myndi fjölga um 1%. Þeir eru í þessum orðum töluðum 3831 íbúi. Sú áætlun virðist því ætla að standast nokkurn veginn. Í fjárhagsáætlun 2020 er enn gert ráð fyrir að íbúum muni fjölga um 1%.

Ytri aðstæður og áhrifaþættir

Ný þjóðhagsspá gerir ráð fyrir að verðbólga ársins 2020 verði 2,6% og er það spáin sem notuð er við útreikninga á skuldum. Þetta er jafnframt í samræmi við hækkun á gjaldskrám og rímar við lífskjarasamninga.

Kostnaðarliðir 

Laun og launatengd gjöld vega sem fyrr þyngst af öllum kostnaðarliðum, enda Ísafjarðarbær fjölmennasti vinnustaður Vestfjarða. Gert er ráð fyrir 2.766.387 m.kr. í laun og launatengd gjöld hjá samstæðu Ísafjarðarbæjar 

Gert er ráð fyrir 375 m.kr. í viðhaldskostnað og er þar bætt nokkuð í ef miðað er við fyrri áætlanir. Þar af fara 123 m.kr. í viðhald eignasjóðs þar sem yfirgnæfandi áhersla er lögð á skólabyggingar og íþróttamannvirki á Flateyri, Þingeyri og Suðureyri. 

Fjárfestingar

Ætlaðar fjárfestingar Ísafjarðarbæjar árið 2020 nema tæplega 994,0 m.kr. samkvæmt áætlun. Þar er áætlaður beinn kostnaður sveitarfélagsins 600 m.kr. Fyrirferðamestar eru fjárfestingar við uppbyggingu og landfyllingu á Sundabakka, knattspyrnuhús á Torfnesi og að klára viðbyggingu og lóð við leikskólann Eyrarskjól. Meðal annarra fjárfestinga má nefna framkvæmdir eins og skipulag tjarnar og aðkomu við Suðureyri þar sem áætlaðar eru 65 m.kr. Þá er einnig áætlað að reisa þjónustuhús við Skrúð, skipuleggja útivistarsvæði á Þingeyri, hanna útivistarsvæði við Tunguskóg og skíðasvæði, sem og að fara í heildarhönnun fráveitukerfa Ísafjarðarbæjar og greiningu og hönnun nýrrar slökkvistöðvar.


Eftirfarandi fylgigögn liggja fyrir vegna fyrri umræðu fjárhagsáætlunar Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2019:

Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar 2020

Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar 2021-2023