Stjórn skíðasvæðis - 14. fundur - 29. júní 2007

Á fundinn mættu: Steingrímur Einarsson, formaður, Haraldur Tryggvason og Hermann Hermannsson mætti í stað Þórunnar Pálsdóttur. Auk stjórnar mættu fulltrúar HSV þeir Jón Páll Hreinsson, formaður og Torfi Jóhannsson, framkvæmdastjóri HSV.   Fundargerð ritaði Steingrímur Einarsson.


Þetta var gert:



1.  Væntanlegar framkvæmdir á Skíðasvæði Ísafjarðarbæjar 2007-2008.


Vegna umfangs og mikilvægi framkvæmda leggur Stjórn Skíðasvæðisins til, að myndaður verði starfshópur sem í eiga sæti allir helstu hagsmunaaðilar og hefur sá hópur umsjón með og ber ábyrgð á að verklegar framkvæmdir verði í samræmi við lög og horft verði til þess, að um er að ræða framkvæmdir sem ætlað er að standa og þjóna svæðunum til langs tíma. Starfshópurinn mun í fyrstu einbeita sér að því að útbúa þau gögn, sem til þarf til að hægt sé að senda inn umsóknir um framkvæmdaleyfi til umhverfisnefndar, þannig að hægt sé að byrja framkvæmdir um leið og fjármagn er tryggt.



2. Aðkoma HSV að verkefnum ofl.


Samkvæmt samningi milli HSV og Ísafjarðarbæjar skulu formleg samskipti og samningaumleitanir milli Ísafjarðarbæjar og aðildarfélaga HSV vera í umboði HSV. Þess vegna er þess óskað af stjórn Skíðasvæðisins að HSV skipi fulltrúa í samstarfsnefnd vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á skíðasvæðum Ísafjarðarbæjar.  Fulltrúar HSV samþykkja með fyrirvara um samþykki stjórnar, að leggja til fulltrúa sinn í starfshóp um framkvæmdirnar.  Stjórn skíðasvæðisins samþykkir, að fyrir hennar hönd verði Haraldur Tryggvason í hópnum.  Fyrir hönd Ísafjarðarbæjar er lagt til, að fulltrúi tæknideildar Ísafjarðarbæjar eigi sæti í hópnum auk fulltrúa umhverfisnefndar.  Fyrir hönd HSV verði Torfi Jóhannsson, með fyrirvara um samþykki stjórnar HSV.  Skíðafélag Ísafjarðar mun skipa sína fulltrúa í hópinn.  Starfshópnum falið að kjósa sér formann.



3. Ráðning í stöðu forstöðumanns Skíðasvæðis Ísafjarðarbæjar.


Stjórn Skíðasvæðis óskar eftir að svo fljótt sem auðið er verði farið í að undirbúa ráðningu forstöðumanns Skíðasvæðis Ísafjarðarbæjar og að íþrótta- og tómstundarfulltrúa verði falið að ljúka þeirri vinnu í samráði við viðeigandi aðila innan Ísafjarðarbæjar. Mikilvægt er að hraða þessu ferli eins og kostur er.


Fleira ekki gert, fundargerð upp lesin og fundi slitið kl. 13:00.


Steingrímur Einarsson, formaður.


Haraldur Tryggvason.       


Hermann Hermannsson.


Jón Páll Hreinsson.       


Torfi Jóhannsson.





Er hægt að bæta efnið á síðunni?