Snjóflóðahætta og rýmingaráætlanir

Hér eru samanteknar upplýsingar frá Veðurstofu Íslands og almannavörnum um snjóflóðahættu og rýmingaráætlanir í íbúakjörnum Ísafjarðarbæjar.

Frá almannavörnum:

Viðbrögð við snjóflóðahættu

Viðbúnaður við snjóflóðahættu

Flateyri

Rýmingaráætlun Veðurstofu fyrir Flateyri

Viðbragðsáætlun vegna snjóflóðahættu á Flateyri (2020)

Hnífsdalur

Af vef Veðurstofu:

Hnífsdalur-norður (Búðarfjall-Búðarhyrna)

Mjög mörg snjóflóð eru skráð, bæði minni spýjur og einnig löng aftakaflóð. Nokkur flóðanna hafa náð niður í sjó (úr Búðargili) og eitt flóð náði niður í Hnífsdalsá (úr Traðargili). Snjóflóð úr Hraunsgili árið 2005 eyðilagði gamla íbúðarhúsið að Hrauni og rann meðfram fjölbýlishúsi og raðhúsum við Árvelli. Snjóflóð hafa valdið bæði mann- og eignatjóni.

Farvegir eru að mestu bundnir við þrjú gil, Búðargil, Traðargil og Hraunsgil. Neðan giljanna eru aurkeilur. Snjósöfnun getur átt sér stað bæði ofan frá og frá hlið.

Einungis hesthús eru neðan Búðargils. Þó gætu aftakaflóð úr gilinu náð að Heimabæjunum en þar er ekki búseta fólks að vetrarlagi eftir að húsin voru keypt upp. Neðan Traðargils er íbúðarbyggð sem hefur verið keypt upp. Bærinn Hraun stendur á hryggnum neðan Hraunsgils. Flóð úr Hraunsgili geta náð til íbúðarhúsa í þéttbýlinu sem keypt voru upp eftir snjóflóðið 2005.

Mikil hætta er á snjóflóðum, bæði minni flóðum, sem stöðvast ofan byggðarinnar, og einnig aftakaflóðum, sem geta tekið mörg hús.

Snjósöfnun í gilin ofan frá er í NV-N-átt, úr Seljadal. Snjósöfnun frá hlið er í NA-átt. Lengri flóðin virðast tengjast því að gilin fyllist ofan frá, en NA-áttin er drjúg við að fylla gilin neðan til.

Ekki er gert ráð fyrir rýmingu á stigi I að norðanverðu í Hnífsdal eftir uppkaup húsa á svæðinu. Hins vegar þarf að huga að viðbúnaði í hesthúsum undir Búðargili eins og kemur fram í athugasemd hér að neðan. Rýming á stigi II á reit nr. 8 nær til íbúðarhússins að Hrauni og annarra bygginga sem ekki hafa verið keyptar upp þar sem kann að vera starfsemi þegar snjóflóðahætta kemur upp. Við aftakaaðstæður er gert ráð fyrir rýmingu á stigi III á reit nr. 7.

Hnífsdalur-suður (Bakkahyrna)

Sjaldgæft er að snjóflóð falli úr fjallinu. Skráð er eitt snjóflóð ofan byggðarinnar sem lenti á tveimur húsum.

Farvegir eru opnir, í sléttri fjallshlíðinni.

Samfelld íbúðarbyggð er neðan hlíðarinnar og eitt fiskverkunarhús.

Nokkur snjóflóðahætta er við sérstakar veðuraðstæður.

Hættast er við snjósöfnun í stífri SA-átt. Slíkri átt fylgir sjaldan mikil snjókoma á svæðinu, en vindur getur rifið snjó úr Eyrarhlíðinni og flutt hann yfir öxlina í hlíðina ofan byggðarinnar. Mest ber á þessu neðarlega í hlíðinni, en ofar virðast klettarnir í Eyrarhlíðinni halda snjónum betur og minna skefur yfir öxlina. Snjór virðist ekki safnast í Bakkahyrnuna í SV-átt.

Gert er ráð fyrir rýmingu á stigi II næst fjallinu á reit nr. 4. Við aftakaaðstæður er gert ráð fyrir rýmingu á stigi III á reit nr. 5. Ekki er gert ráð fyrir rýmingu á reit nr. 6.

Rýmingarkort Veðurstofu fyrir Hnífsdal

Kynningarbæklingur um rýmingaráætlun fyrir Ísafjörð og Hnífsdal

Hættumatskort Veðurstofu fyrir Hnífsdal

Ísafjörður

Af vef Veðurstofu:

Neðan Gleiðarhjalla (Eyrarhlíð-Eyrarfjall)

Mjög litlar heimildir eru um snjóflóð á svæðinu, e.t.v. mun eitt þeirra hafa fallið niður í byggð á árunum 1944-1953 en það hefur verið mjög þunnt hafi það á annað borð fallið. Aurflóð féllu úr Krókslæk og Stakkaneshrygg í lok september 1996. Flóðið úr Krókslæk stöðvaðist í skurði neðarlega í hlíðinni og er talið að það hefði náð niður undir efstu hús við Hjallaveg ef skurðarins hefði ekki notið við. Tvö snjóflóð féllu innst úr hlíðinni neðan Gleiðarhjalla í janúar 2007 og stöðvuðust í 50-60 m h.y.s. og minna flóð féll á svipuðum stað í nóvember 2006. Áður höfðu tvö snjóflóð verði skráð á þessum slóðum.

Farvegir eru í grunnum rásum í klettum efst í brekkunni. Neðan þeirra eru skriður.

Íbúðarbyggð er samfelld upp í brekkufótinn.

Fremur lítil hætta er talin á snjóflóðum vegna mjög takmarkaðrar snjósöfnunar. Gleiðarhjallinn virðist safna megninu af þeim snjó sem berst í skafrenningi og hindra að snjór nái að safnast saman í hættulegar dyngjur. Þó sýna mælingar á síðari árum talsverða snjósöfnun í gil og hvilftir ofarlega í hlíðinni neðan hjallans. Talið er að snjóflóð sem falla ofan hjallans nái ekki fram af honum. Hætta er á aurskriðum og grjóthruni.

Snjósöfnun neðan Gleiðarhjalla er lítil.

Gert er ráð fyrir rýmingu á stigi II á reit nr. 10 á þessu svæði og nær hún til nokkurra húsa undir Stórurð og Stakkaneshrygg. Við aftakaaðstæður er gert ráð fyrir rýmingu á stigi III á reitum nr. 11 og 13 og tekur hún í aðalatriðum til þess hluta byggðarinnar sem nær upp í hlíðina. Ekki er gert ráð fyrir rýmingu á reitum nr. 12, 14 og 15. Umfang rýmingar vegna hættu á aurskriðum þarf að ákveða hverju sinni eins og nefnt er hér að framan. Aurskriður hafa fallið úr hlíðinni án þess að áður hafi verið mikil úrkoma eða hláka og þarf að grípa hratt til ráðstafana til þess að forða fólki frá hættu eftir því sem unnt er ef vart verður við slíkar skriður úr hlíðinni.

Innan Gleiðarhjalla (Seljalandshlíð og Seljalandshverfi)

Margar heimildir eru um snjóflóð á svæðinu. Allmörg hafa náð niður í byggð og jafnvel niður í sjó.

Á austanverðu svæðinu eru farvegir í afmörkuðum giljum, með flötum aurkeilum fyrir neðan. Að vestanverðu, ofan Seljalandshverfis, er hlíðin opin og þar hefur Seljalandsmúli og nýreistur varnargarður mikil áhrif á úthlaup snjóflóða.

Í Seljalandshverfi eru nokkur íbúðarhús og tvö fjölbýlishús neðan Seljalandsmúla. Unnið er að uppbyggingu nýrrar byggðar á Tunguskeiði. Seljalandsbærinn er utarlega í Seljalandshverfi og var hann keyptur upp í tengslum við byggingu varnargarðsins. Austan Seljalandshverfis er byggð ekki samfelld, en þar eru nokkur fyrirtæki staðsett og stakar byggingar. Skutulsfjarðarbraut liggur þar með fjöruborðinu.

Mikil hætta er á snjóflóðum, stórum sem litlum.

Snjósöfnun í hlíðina er ofan frá í NV- til NA-átt, ofan af Eyrarfjalli og úr Fremri-Hvilft í Hnífsdal. Á toppi Eyrarfjalls ofan Seljalandshlíðar er nokkurt aðsópssvæði í um 700 metra hæð yfir sjó. Í N-NA-átt skefur snjó fram af Eyrarfjalli og af Gleiðarhjalla inn með Seljalandshlíð og gilin fyllast frá hlið.

Á svæðinu er gert ráð fyrir rýmingu á stigi I á reit nr. 9 sem nær til svæðisins austan varnargarðsins og að Gleiðarhjalla. Ekki er gert ráð fyrir rýmingu á stigi II eftir byggingu varnargarðsins. Við aftakaaðstæður er gert ráð fyrir rýmingu á stigi III á reit nr. 8 sem nær til A-svæðis endurskoðaðs hættumats en það samsvarar C-svæði eldra hættumats fyrir tilkomu varnargarðsins. Þar er um að ræða fjölbýlishúsin og nokkur íbúðarhús í Seljalandshverfi. Ekki er gert ráð fyrir rýmingu á reit nr. 7.

Kubbi

Skráð eru nokkur snjóflóð, þar af eitt sem lenti á íbúðarhúsi.

Farvegir eru í sléttri, örlítið íhvolfri fjallshlíð og eru ekki afmarkaðir.

Holtahverfið er samfelld íbúðarbyggð, rétt neðan við brekkufótinn.

Nokkur snjóflóðahætta er við sérstakar veðuraðstæður.

Snjósöfnun er ofan frá í SV-átt. Þekkt flóð hafa fallið í SA-SSA hvassviðri og mikilli snjókomu. Slík veður eru óvenjuleg á Ísafirði.

Gert er ráð fyrir rýmingu á stigi II á reit nr. 4 á þessu svæði. Við aftakaaðstæður er gert ráð fyrir rýmingu á stigi III á reit nr. 5. Ekki er gert ráð fyrir rýmingu á reit nr. 6.

Hættumatskort

Rýmingaráætlun Veðurstofu fyrir Ísafjörð

Rýmingarkort Veðurstofu fyrir Ísafjörð

Rýmingaráætlun almannavarna fyrir Ísafjörð (útgefið 2007)

Suðureyri

Af vef Veðurstofu:

Mjög fá snjóflóð eru skráð þar sem nú er þéttbýli á Suðureyri. Aurflóð hafa fallið úr hlíðinni ofan byggðarinnar á Suðureyri og þar er einnig grjótflug úr klettum. Snjóflóð eru tíð úr Spillinum utan þorpsins og valda þau hættu fyrir umferð yfir í Staðardal. Snjóflóð í sjó fram á Norðureyri handan fjarðarins og úr Norðureyrarhlíð þar fyrir innan hafa komið af stað flóðbylgjum sem valdið hafa skemmdum á mannvirkjum og bátum sunnan fjarðarins, m.a. oft þar sem heita Malir, rétt utan við Suðureyri. Þetta hefur m.a. gerst 1883, 1946, 1951 og 1995.

Hlíðin ofan byggðarinnar á Suðureyri er opin og farvegir ekki afmarkaðir.

Íbúðarbyggð nær alveg upp undir og upp í hlíðina á allbreiðu svæði.

Lítil hætta er talin á snjóflóðum. Snjósöfnun er lítil í hlíðina ofan byggðarinnar. Í hana safnast ekki snjór í aðalofankomuáttum á svæðinu og í henni ofanverðri er auk þess stallur sem ver neðri hluta hlíðarinnar fyrir snjósöfnun í skafrenningi í suðlægum áttum. Hætta er á aurflóðum, einkum í innri hluta þorpsins, og grjótflug ógnar einnig byggingum í hluta þorpsins. Fyrir alllöngu hefur verið hlaðinn grjótgarður ofan Suðureyrartúnsins til þess að verjast skriðum og grjóthruni.

Snjóflóðahætta er helst talin geta komið upp við mikla ofankomu í lygnu veðri. Erfitt er að meta líkur á flóðum út frá núverandi þekkingu á aðstæðum.

Á svæðinu er gert ráð fyrir rýmingu vegna snjóflóða á stigi II á reit nr. 4 sem nær einungis til húss Orkubús Vestfjarða innan við þéttbýlið. Við aftakaaðstæður er gert ráð fyrir rýmingu vegna snjóflóða á stigi III á reit nr. 5 og tekur hún í aðalatriðum til þess hluta byggðarinnar sem nær upp í hlíðina innan við stall neðarlega í hlíðinni ofan eyrarinnar. Ekki er gert ráð fyrir rýmingu á reit nr. 6.

Grípa þarf til staðbundinna rýminga í innri hluta þorpsins þegar hætta er talin á aur- eða krapaflóðum í tengslum við úrhellisrigningu eða asahláku. Lögreglustjóri og almannavarnanefnd ákveða umfang slíkrar rýmingar hverju sinni (sjá umfjöllun í greinargerð VÍ-07014 um rýmingarsvæði).

Snjóflóð úr norðurhlíðum Súgandafjarðar hafa nokkrum sinnum valdið tjóni á hafnarsvæðinu sunnan fjarðar vegna flóðbylgna sem þau hafa myndað á firðinum eins og nefnt er hér að framan. Reikna má með að nær óhugsandi sé að stöðva eða stýra þessum flóðum þannig að ekki myndist flóðbylgja. Því verður viðbúnaður til að draga úr hættu að felast í aðgerðum við ströndina á Suðureyri. Flóðbylgjur frá Norðureyri hafa eingöngu valdið tjóni við ströndina. Flóðbylgja vegna snjóflóðsins sem féll úr Norðureyrarhlíð innan Norðureyrar árið 1995 náði upp í um 10 m h.y.s. í firðinum innan við Suðureyri. Á Suðureyri náði sjór þá nánast upp að íbúðarhúsum. Vegna undirlendisins á Norðureyri er minni hætta talin á svo stórum flóðbylgjum vegna snjóflóða þar. Þar skella þau undir lægra horni og á minni hraða á haffletinum en flóð innar í firðinum. Ljóst er að einhver hætta stafar af flóðbylgjum af þessum toga á Suðureyri, einkum við ströndina og í höfninni og hugsanlega er ástæða til þess að styrkja hús á hafnarsvæðinu að einhverju marki vegna flóðbylgna. Þótt eignatjón geti orðið vegna slíkra flóðbylgna er manntjón af þeirra völdum hins vegar ekki líklegt ef fólk er inni í húsum. Ekki er tekið tillit til hættu af völdum flóðbylgna í hættumatinu frá 2005. Töluverðar endurbætur hafa verið gerðar á hafnargörðum á Suðureyri eftir 1995. Því er höfnin nú öruggari en hún var þá og jafnframt skýla garðarnir byggðinni að hluta. Þrátt fyrir þetta er nauðsynlegt fyrir lögreglustjóra og almannavarnanefnd að hafa þessa hættu í huga þegar upp kemur snjóflóðahætta í Súgandafirði.

Hættumatskort Veðurstofu Íslands

Rýmingarkort Veðurstofu Íslands

Rýmingaráætlun almannavarna fyrir Súgandafjörð (útgefið 2007)

Þingeyri

Af vef Veðurstofu:

Ekki eru til heimildir um eiginleg snjóflóð úr Sandafelli ofan við Þingeyri. Dæmi eru um aurblönduð krapaflóð eða aurskriður og grjóthrun.

Hlíðin ofan byggðarinnar á Þingeyri er opin og farvegir ekki afmarkaðir.

Íbúðarbyggð nær alveg upp undir og upp í hlíðina á allbreiðu svæði.

Lítil hætta er talin á snjóflóðum. Snjósöfnun er lítil í hlíðina ofan byggðarinnar og í hana safnast ekki snjór í aðalofankomuáttum á svæðinu.

Snjóflóðahætta er helst talin geta komið upp við mikla ofankomu í lygnu veðri eða e.t.v. í suðlægum áttum eftir ofankomu í lygnu veðri þannig að lausasnjór liggi yfir fjalllendi. Erfitt er að meta líkur á flóðum út frá núverandi þekkingu á aðstæðum.

Ekki er gert ráð fyrir rýmingu á stigi I eða II á svæðinu. Við aftakaaðstæður er gert ráð fyrir rýmingu á stigi III vegna krapaflóða á reit nr. 4 og vegna snjóflóða á reit nr. 5. Rýming reits nr. 5 vegna snjóflóðahættu felur einnig í sér rýmingu á reit nr. 4. Rýmingarsvæðið vegna snjóflóðahættu nær nokkuð niður fyrir A-svæði skv. hættumati vegna þess að hættusvæðið miðast við mjög lága tíðni snjóflóða. Ef vísbendingar eru um meiri snjósöfnun en gert er ráð fyrir í hættumati eða ef vart verður við snjóflóð í hlíðinni er talið tryggara að rýma húsnæði á stærra svæði. Þetta er þó talið mjög ólíklegt. Ekki er gert ráð fyrir rýmingu á reit nr. 6.

Grípa þarf til staðbundinna rýminga í innri hluta þorpsins þegar hætta er talin á aur- eða krapaflóðum í tengslum við úrhellisrigningu eða asahláku. Lögreglustjóri og almannavarnanefnd ákveða umfang slíkrar rýmingar hverju sinni (sjá umfjöllun í greinargerð VÍ-07014 um rýmingarsvæði).

Hættumatskort Veðurstofu Íslands

Rýmingaráætlun Veðurstofu Íslands fyrir Þingeyri

Rýmingaráætlun almannavarna fyrir Þingeyri (útgefið 2007) 

Viðvörunarkerfi frá Vegagerðinni

Vegagerðin hefur komið á fót viðvörunarkerfi með SMS skeytum um snjóflóðahættu til vegfarenda. Sendar eru upplýsingar um snjóflóðahættu á vegi 61 um Súðavíkurhlíð og á vegi 64 Flateyrarvegi.

Viðvaranirnar eru m.a. byggðar á snjóflóðaspá sem Veðurstofan gerir fyrir Vegagerðina um þessa vegakafla.

Um er að ræða eftirfarandi stig:

A: varað er við snjóflóðahættu á næstu klukkustundum.

B: lýst yfir óvissustigi, sem þýðir að snjóflóðahætta er viðvarandi og vegfarendur hvattir til að vera ekki á ferðinni að nauðsynjalausu.

C: lýst yfir hættustigi, veginum lokað.

D: hættustigi aflýst og vegurinn opinn.

Hægt er að skrá sig til að fá SMS í símann með því að senda póst á umferd@vegagerdin.is eða með því að hringja í síma 1777.

Dvöl í orlofshúsum á snjóflóðahættusvæðum

Umhverfisstofnun hefur sett á kvaðir um dvöl í orlofshúsum á snjóflóðahættusvæðum. Í töflunni eru þau tímabil listuð sem óheimilt er að dveljast í orlofshúsum á svæðunum.

Gamla byggðin í Súðavík

1. nóvember - 30. apríl

Heimabær, Hnífsdalur

1. nóvember - 30. apríl

Teigahverfi, Hnífsdalur

1. nóvember - 30. apríl

Sólbakki 6, Flateyri

1. nóvember - 30. apríl

Engi og Kúluhúsið, Ísafjörður

1. nóvember - 30. apríl

Grænigarður, Ísafjörður

1. nóvember - 30. apríl

Seljaland, Ísafjörður

15. desember - 15. apríl

Sumarhúsabyggð í Tunguskógi, Ísafjörður

15.desember - 16. apríl