Silfurtorg

 

Myndir: Ljósmyndasafnið Ísafirði
Texti: Jóna Símonía Bjarnadóttir

Silfurgata liggur á mörkum Hæsta- og Miðkaupstaðar. Við Silfurgötu risu mörg glæsileg hús um aldamótin 1900 og allt fram undir miðja 20. öld var þar að finna fjölda verslana. Húsið Silfurgata 8 á sér merka sögu. Þar rak vertinn Jón Vedhólm veitinga- og gististað um áraraðir og fundir bæjarstjórnar hins nýstofnaða Ísafjarðarkaupstaðar voru haldnir þar fyrstu árin.

Fyrstu húsin sem risu utan kaupstaðanna þriggja, Hæsta-, Mið-, og Neðstakaupstaðar, risu í götunum fyrir neðan torgið og óvíða er að finna jafn heillega byggð gamalla húsa og hér.

Silfurtorg varð til þegar tekið var að byggja á reitum Hæstakaupstaðar en á því mætast Silfurgata, Aðalstræti og Hafnarstræti, sem lengst af voru aðal verslunargötur kaupstaðarins.

Torgið tók miklum breytingum á 10. áratug síðustu aldar þegar ráðist var í framkvæmdir eftir tillögum arkitektsins Pálmars Kristmundssonar og var nýtt torg opnað með viðhöfn 8. nóvember 1997. Silfurtorg er gjarnan notað undir samkomur og hátíðahöld, til dæmis í kringum jól, páska og á þjóðhátíðardaginn.