Eyrartún

Annar tveggja landnámsbæja í Skutulsfirði er talinn hafa staðið á Eyrartúni. Á hólnum stóð síðar prestsetrið Eyri. Talið er að prestur hafi verið á Skutulsfjarðareyri frá því skömmu eftir kristnitöku árið 1000 og snemma var þar byggð kirkja sem helguð var Maríu Mey. Þekktasti presturinn sem þar sat er vafalaust Jón Magnússon sem kallaður var Jón þumlungur. Hann ákærði feðga á Kirkjubóli í Skutulsfirði fyrir galdra og voru þeir brenndir á báli sumardaginn fyrsta árið 1656. Bærinn Eyri var rifinn árið 1874.

Í daglegu tali bæjarbúa gekk túnið gjarnan undir nafninu sjúkrahústún sem kemur til af því að nýtt sjúkrahús reis hér árin 1924-1925 og var vígt 17. júní 1925. Fyrsta skipulagið fyrir Ísafjarðarkaupstað var gert af Guðjóni Samúelssyni ári 1924. Þar var gert ráð fyrir ýmsum opinberum byggingum á Eyrartúni. Einungis eitt hús var þó byggt, sjúkrahúsið sem Guðjón teiknaði og var á sínum tíma eitt fullkomnasta sjúkrahús landsins. Það gengdi hlutverki fjórðungssjúkrahúss allt til ársins 1989. Þann 17. júní árið 2003 var húsið vígt aftur og þá sem safnahús.

 

Myndir: Ljósmyndasafnið Ísafirði
Texti: Jóna Símonía Bjarnadóttir