Bæjarstjórn - 353. fundur - 11. desember 2014

 

 

353. fundur bæjarstjórnar

haldinn í fundarsal 2.hæð, 11. desember 2014 og hófst hann kl. 17:00.

  

Edda María Hagalín, fjármálastjóri, var viðstödd fundinn.

 

Dagskrá:

1.

2014110004 - I. tillaga - Skrúður á Núpi í Dýrafirði - breyting á deiliskipulagi

 

Lagt fram bréf frá Framkvæmdasjóði Skrúðs dags. í nóvember 2014 ásamt deiliskipulagsuppdrætti þar sem óskað er eftir að tillaga að breytingu á deiliskipulagi verði tekin til efnislegrar afgreiðslu.
Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan verði auglýst.

 

Til máls tóku: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti, og Sigurður Hreinsson.

Forseti ber tillögu skipulags- og mannvirkjanefndar til atkvæða.

Bæjarstjórn samþykkir tillöguna 9-0.

 

   

2.

2014020125 - II. tillaga - Viðaukar við fjárhagsáætlun 2014

 

Lögð eru fram drög að viðauka við fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar 2014 vegna ágóðahlutar EBÍ og sveitarstjórnarkosninga.
Bæjarráð leggur til að viðauki verði lagður fyrir bæjarstjórn til samþykktar.

 

Til máls tók: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti.

Forseti ber tillögu bæjarráðs til atkvæða.

Bæjarstjórn samþykkir tillöguna 9-0.

 

   

3.

2014080027 - Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar og stofnana hans og fyrirtækja ásamt greinargerð og gjaldskrá fyrir árið 2015

 

Síðari umræða

 

Til máls um fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar 2015 tóku: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti, Gunnhildur Björk Elíasdóttir, Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, Daníel Jakobsson, Jónas Þór Birgisson, Marzellíus Sveinbjörnsson, Arna Lára Jónsdóttir, Kristján Andri Guðjónsson

Forseti leggur fram tillögu að eftirfarandi ályktun:
"Á 352. fundi bæjarstjórnar fór fram fyrri umræða um fjárhagsáætlun 2015. Fyrir fundinum lá fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar 2015, ásamt greinargerð og fjárhagsyfirliti, þriggja ára fjárhagsáætlun 2016-2018, auk gjaldskráa Ísafjarðarbæjar, stofnana hans og fyrirtækja. Bæjarfulltrúar eru sammála um að fyrri umræður þriggja ára fjárhagsáætlunar 2016-2018 hafi fari fram á fundinum, þrátt fyrir að láðst hafi að bóka þar um í fundargerð bæjarstjórnar fyrir árið 2015. Bæjarfulltrúar eru því sammála um að á þessum 353. fundi bæjarstjórnar fari fram síðari umræða þriggja ára fjárhagsáætlunar 2016-2018."

Forseti ber ályktunina til atkvæða.
Ályktunin samþykkt 8-0.
Gunnhildur Elíasdóttir situr hjá við atkvæðagreiðsluna þar sem hún var ekki stödd á 352. fundi bæjarstjórnar.

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, lagði fram frumvarp að fjárhagsáætlun bæjarsjóðs Ísafjarðarbæjar, stofnana hans og fyrirtækja fyrir árið 2015, ásamt greinargerð, þriggja ára fjárhagsáætlun 2016-2018 auk tillagna að gjaldskrám Ísafjarðarbæjar og stofnana hans, til síðari umræðu og gerði grein fyrir frumvarpinu í stefnuræðu sinni.

Daníel Jakobsson leggur, f.h. fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, fram eftirfarandi breytingartillögu við fjárhagsáætlun 2015:
„Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn leggja fram eftirfarandi breytingartillögu við fyrirliggjandi fjárhagsáætlun bæjarins.
Lagt er til að áætlaðar fjárfestingar samstæðu Ísafjarðarbæjar verði lækkaðar um a.m.k. 150 m.kr. og verði þ.a.l. ekki hærri en 500 m.kr."

Daníel Jakobsson leggur fram eftirfarandi greinargerð með breytingartillögu sinni:
„Fjárfestingaráætlun næsta árs gerir ráð fyrir 650 m.kr. fjárfestingu. M.v. núverandi fjárhagsáætlun er afgangur rekstrar til fjárfestinga og afborgana lána 350 m.kr. Áætlað er að nýta 324 m.kr. af þeim til að greiða niður eldri lán. Til ráðstöfunar upp í umræddar fjárfestingar eru þ.a.l. 26 m.kr. Af 650 m.kr. fjárfestingu næsta árs þarf þ.a.l. að taka að láni 626 m.kr. vegna þeirra. Til að viðhalda óbreyttu skuldahlutfalli geta fjárfestingar ekki verið meiri en 350 m.kr. á ári m.v. þá afkomu sem lagt er upp með. Þetta er sérstaklega mikilvægt að hafa í huga nú þegar að Í-listinn leggur upp með mikla aukningu rekstrargjalda og að afkoma rekstrar verði um helmingur af afkomu ársins 2013. Aukin rekstarútgjöld leiða til minni fjárfestingargetu."

Marzellíus Sveinbjörnsson, leggur fram eftirfarandi bókun B-lista Framsóknarmanna í Ísafjarðarbæ:
„Mikið aðhald í rekstri Ísafjarðarbæjar síðustu árin hefur skilað góðum árangri og tekist hefur að ná skuldafjárhlutfallinu niður fyrir viðmið sveitarstjórnarlaga. Eftir mikinn niðurskurð síðustu ára hefur myndast mikil þörf fyrir viðhald og nú er svo komið að við teljum að það sé ekki umflúið að sinna því. Þrátt fyrir þetta verður skuldaviðmiðið vel innan marka sveitarstjórnarlaga.

Í framkvæmdaáætlun fyrir 2015, eru fyrirhugaðar nauðsynlegar gatnaframkvæmdir og þar sem malbikunarstöð verður á staðnum er ekki hjá því komist að nýta okkur hana eins og frekast er unnt. Að öðru leyti getum við líka verið nokkuð sammála Í-listanum um forgangsröðun verka.

Fjárhagsáætlun fyrir 2015 sem lögð er hér fram er í meginatriðum ásættanleg og því samþykkjum við hana með það að leiðarljósi að gætt verði mikils aðhalds fyrir árið 2016."

Forseti ber breytingartillögu Sjálfstæðisflokksins til atkvæða.
Breytingartillagan felld 3-6.

Forseti ber fjárhagsáætlun 2015, ásamt greinargerð, að teknu tilliti til breytinga milli fyrri og síðari umræðu, upp til atkvæðagreiðslu.

Daníel Jakobsson leggur fram, f.h. bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, eftirfarandi bókun í tengslum við atkvæðagreiðsluna:
„Fjárhagsstaða Ísafjarðarbæjar batnaði mikið á s.l. kjörtímabili og skuldaviðmið bæjarins lækkaði úr um 160% árið 2010 og í 128% í lok þessa árs. Lögbundið hámark er 150% og er sveitarfélagið langt undir því hlutfalli. Við erum laus úr snörunni og erum á lygnum sjó og nú er tækifæri til að horfa til framtíðar þegar kemur að fjármálum sveitarfélagins. Finna einhverskonar jafnvægi. Gangi fjárhagsáætlun Í-listans eftir mun skuldaviðmið bæjarins hækka um fjögur prósentustig á næsta ári í 132%.

Ef horft er á fjármál sveitarfélaga má segja að ein stærð í ársreikningi sé mikilvægari en aðrar. Það er veltufé frá rekstri en það er sú tala sem eftir er þegar að öll útgjöld hafa verið greidd. Sú fjárhæð er til ráðstöfunar í fjárfestingar og niðurgreiðslu lána. Ein leið til að ná jafnvægi í rekstri til lengri tíma væri sú að fjárfesta fyrir jafn mikið og lán eru greidd niður um. Þá væru skuldir sveitarfélagsins alltaf jafn miklar og ákveðin endurnýjun eigna árlega sem nemur umræddum fjárfestingum.

Árið 2013 var veltufé frá rekstri Ísafjarðarbæjar 670 m.kr. og stefnir í að vera á fimmta hundrað milljóna á þessu ári. M.v. að auka ekki skuldir hefði árið 2013 hefði verið hægt að fjárfesta fyrir 670 m.kr. án þess að skuldir myndu aukast. Það var ekki gert heldur voru skuldir lækkaðar eins og áður sagði.

Í þeirri fjárhagsáætlun sem að Í-listinn leggur fram er hinsvegar allt önnur leið valin. Þar er gert ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði um helmingur af veltufé ársins 2013 eða 350 m.kr. og að fjárfest verði fyrir 650 m.kr. eða þrisvar sinnum meira en fjárfest var mest fyrir í eigin reikning á árunum 2010-2014. Heildarlántaka verður því yfir 600 m.kr. og allar fjárfestingar verða fyrir lánsfé.

Fulltrúar sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn geta ekki stutt fjárhagsáætlun sem þessa. Vissulega eru flest ef ekki öll þau verkefni sem að ráðast á í mikilvæg þó að forgangsröð okkar hefði sennilega verið á annan veg. Við hefðum viljað sjá meira aðhald í rekstri sem leiðir til þess minna hefði þurft að taka að láni. Við hefðum jafnframt talið skynsamlegt að fara hægar í fjárfestingum á næsta árin eins og breytingartillaga okkar við fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir en hún var því miður felld. Mikið er undir árið 2015 þar sem ljúka á við hjúkrunarheimili en fjárfestingar í hjúkrunarheimilinu á næsta ári falla að öllu leyti á bæinn. Með því að fara hægar í sakirnar hefði verið hægt að ná fram meiri stöðugleika til framtíðar. Ef fer sem horfir gæti þurft að koma til verulegs aðhalds á næstu árum til að mæta þessum útgjöldum."

Kristján Andri Guðjónsson, leggur fram, f.h. bæjarfulltrúa Í-listans, eftirfarandi bókun í tengslum við atkvæðagreiðsluna:
„Í vor var kosið til sveitarstjórna og hlaut Í-listinn hreinan meirihluta í bæjarstjórn Ísafjarðabæjar. Vilji kjósenda var þannig mjög skýr.
Í-listinn varpar ekki rýrð á fyrrverandi meirihluta sjálfstæðis- og framsóknamanna. sem kom að því að laga fjárhagsstöðu Ísafjarðarbæjar eftir efnahagshrunið sem snerti Ísafjarðabæ eins og önnur sveitarfélög hér á landi. Hér urðu allir að taka á vandanum í sameiningu og á síðastliðnum fjórum árum hefur Í-listinn samþykkt fjárhagsáætlun síðasta meirihluta í þrjú skipti af fjórum. Við teljum að það hefði verið farsælli leið fyrir okkar góða samfélag, að bæjarstjórn standi sameinuð að þeim mikilvægu ákvörðunum sem fjárhagsáætlun hvers árs felur í sér og þess vegna þykir okkur miður að sjálfstæðismenn hafi ekki séð sér fært að standa með okkur að áætluninni.

Bæjarfulltrúar Í-listans þakka bæjarstjóra, fjármálastjóra, bæjaritara, sviðstjórum og öðrum sem að þessari fjárhagsáætlun komu. Við teljum þessa fjárhagsáætlun trausta og vandaða þó mannanna verk séu aldrei fullkomin."


Fjárhagsáætlun 2015 þannig breytt samþykkt 6-0.
Daníel Jakobsson, Steinþór Bragason og Jónas Þór Birgisson sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

Til máls um gjaldskrár Ísafjarðarbæjar 2015 tók: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti.

Forseti ber gjaldskrár Ísafjarðarbæjar og stofnana upp til atkvæðagreiðslu.
Gjaldskrárnar samþykktar 9-0.

Til máls um þriggja ára fjárhagsáætlun 2016-2018 tóku: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti, Daníel Jakobsson, Arna Lára Jónsdóttir og Kristján Andri Guðjónsson.

Forseti ber þriggja ára áætlun 2016-2018 til atkvæðagreiðslu.
Þriggja ára áætlun 2016-2018 samþykkt 9-0.

 

   

4.

2014080044 - Fundargerðir bæjarráðs

 

865. fundur haldinn 1. desember 2014, fundargerðin er í 10 liðum.
866. fundur haldinn 8. desember 2014, fundargerðin er í 8 liðum.

 

Til máls tók: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti.

Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar.

 

   

5.

2014080054 - Fundargerðir umhverfis- og framkvæmdanefndar

 

6. fundur haldinn 27. nóvember, fundargerðin er í 6 liðum.

 

Til máls tók: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

   

6.

2014080055 - Fundargerðir skipulags- og mannvirkjanefndar

 

422. fundur haldinn 26. nóvember 2014, fundargerðin er í 13 liðum.

 

Til máls tóku: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti, Kristján Andri Guðjónsson, Daníel Jakobsson, Marzellíus Sveinbjörnsson, Sigurður Hreinsson, Gunnhildur Elíasdóttir, Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, Arna Lára Jónsdóttir, Jónas Þór Birgisson.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

   

 

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18:48

 

Nanný Arna Guðmundsdóttir

 

Kristján Andri Guðjónsson

Jónas Þór Birgisson

 

Arna Lára Jónsdóttir

Daníel Jakobsson

 

Marzellíus Sveinbjörnsson

Sigurður Jón Hreinsson

 

Gunnhildur Björk Elíasdóttir

Steinþór Bragason

 

Gísli Halldór Halldórsson

Þórdís Sif Sigurðardóttir

 

 

Er hægt að bæta efnið á síðunni?