Bæjarstjórn

Fundargerðir hverfisráða Ísafjarðarbæjar, auk fundargerða fastanefnda, starfshópa og annarra nefnda sveitarfélagsins af fundum sem haldnir voru til og með ársins 2017 má finna undir aðrar fundargerðir
522. fundur 02. nóvember 2023 kl. 17:00 - 18:47 í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði
Nefndarmenn
  • Gylfi Ólafsson aðalmaður
  • Jóhann Birkir Helgason aðalmaður
  • Kristján Þór Kristjánsson aðalmaður
  • Nanný Arna Guðmundsdóttir aðalmaður
  • Magnús Einar Magnússon aðalmaður
  • Steinunn Guðný Einarsdóttir aðalmaður
  • Elísabet Samúelsdóttir aðalmaður
  • Sigríður Júlía Brynleifsdóttir aðalmaður
  • Arna Lára Jónsdóttir bæjarstjóri
Starfsmenn
  • Bryndís Ósk Jónsdóttir bæjarritari
Fundargerð ritaði: Bryndís Ósk Jónsdóttir bæjarritari
Dagskrá
Forseti lagði fram tillögu þess efnis að samþykkt verði að taka eitt mál inn á dagskrá bæjarstjórnar með afbrigðum, með heimild í 16. gr. bæjarmálasamþykktar. Um er að ræða mál framkvæmdaleyfis Vegagerðar vegna efnistöku úr Sandá í Dýrafirði. Málið yrði nr. 9 á dagskrá.

Forseti bar tillöguna upp til atkvæða.

Samþykkt 9-0.

1.Nefndarmenn 2022-2026 - íþrótta- og tómstundanefnd - 2022050135

Tillaga Kristjáns Þórs Kristjánssonar, oddvita B-lista Framsóknarflokks, um að Halldór Karl Valsson verði kosinn aðalmaður B-lista í íþrótta- og tómstundanefnd, í stað Þráins Ágústs Arnaldssonar, og að Kristján Þór Kristjánsson verði kosinn varamaður í stað Halldórs Karls í nefndinni.
Til máls tók: Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, forseti.

Forseti bar tillöguna upp til atkvæða.

Tillagan samþykkt 9-0.

2.Gjaldskrár 2024 - 2023040034

Tillaga frá 1261. fundi bæjarráðs, sem haldinn var 30. október 2023, um að bæjarstjórn samþykki nýja gjaldskrá fráveitu fyrir árið 2024, á grundvelli minnisblaðs fjármálastjóra, á þann hátt að breytilegt gjald fráveitu verði 265 kr./m2, en fastagjald óbreytt kr. 8.000.
Til máls tóku: Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, forseti, Gylfi Ólafsson, Jóhann Birkir Helgason, og Nanný Arna Guðmundsson.

Jóhann Birkir Helgason, formaður D-lista Sjálfstæðisflokks lagði fram eftirfarandi bókun:

„Sjálfstæðisflokkurinn þakkar bæjarfulltrúum fyrir að hafa tekið undir tillögu okkar um að breyta gjaldskrá fyrir vatns- og fráveitu þannig að ekki verði lengur greidd gjöld fyrir þjónustuna sem hlutfall af fasteignamati húss og lóðar. Nú er gert ráð fyrir að greiða fastagjald og fermetraverð sem er mun eðlilegri gjaldtaka. Við munum því samþykkja þessa breytingu.“

Forseti bar tillöguna upp til atkvæða.

Tillagan samþykkt 9-0.

3.Álagningarhlutfall fasteignagjalda 2024 - 2023090090

Tillaga frá 1261. fundi bæjarráðs, sem haldinn var 30. október 2023, um að bæjarstjórn samþykki lækkun á álögum fasteignaskatta A-húsnæðis ársins 2024, og verði 0,54% af hús- og lóðamati. Lagt er til við bæjarstjórn að álögur á B- og C- húsnæðis verði áfram 1,65% af hús- og lóðamati, lóðarleiga verði 1,5% af lóðamati vegna íbúðarhúsnæðis, og 3% af lóðamati vegna annarra fasteigna.
Til máls tóku: Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, forseti, Steinunn Guðný Einarsdóttir, Gylfi Ólafsson, Arna Lára Jónsdóttir, Kristján Þór Kristjánsson, Jóhann Birkir Helgason, Arna Lára Jónsdóttir, Steinunn Guðný Einarsdóttir og Kristján Þór Kristjánsson.

Steinunn Guðný Einarsdóttir, bæjarfulltrúi D-lista Sjálfstæðisflokks, lagði fram eftirfarandi breytingatillögu:

„Sjálfstæðisflokkurinn leggur fram breytingartillögu um að lækka álagningarhlutfall fasteignagjalda niður úr 0,56 % í 0,52 % þar sem við teljum tækifæri til vegna tekjuaukningar fyrir árið 2024.“

Forseti bar breytingatillöguna upp til atkvæða.

Breytingatillagan felld með 5 atkvæðum gegn 2, 2 sátu hjá.
Fulltrúar Í-lista greiddu 5 atkvæði gegn breytingatillögunni.
Fulltúar D-lista Sjálfstæðisflokks greiddu 2 atkvæði með breytingatillögunni.
Fulltrúar B-lista Framsóknarflokks sátu hjá.

Forseti gerði fundarhlé kl. 17.30. Fundi fram haldið kl. 17.41

Steinunn Guðný Einarsdóttir, f.h. Sjálfstæðisflokks, lagði fram eftirfarandi bókun:
„Sjálfstæðisflokkurinn fagnar að til standi að lækka álagningarhlutfall fasteignagjalda úr 0,56% í 0,54% en við teljum ráðrúm til að lækka í a.m.k 0,52% enda eru tekjur A hluta að hækka um 525 milljónir milli ára. Ef við berum sama fasteignamat sl. ára í Ísafjarðarbæ þá hefur verið töluverð hækkun. Næsta ár verður fasteignamatið 76.6 mlja. Hækkun fasteignamats frá árinu 2021 er 63%. Ef við berum saman hækkun fasteignagjalda og hækkun launa á þessu tímabili þá hækkuðu laun frá árinu 2021 til 2024 um 22,5%. Hækkun fasteignaskatts er því mun meiri en hækkun launa. Lækkun um 0,02% til viðbótar eða í 0,52% hefur þau áhrif að fasteignaskattar lækka um 12-13 millj. Greiðslur úr Jöfnunarsjóði lækkar þegar álagningarhlutfall lækkar, þegar tekið er tillit til þess lækka tekjur um 18-19 millj. Til að koma til móts við þessa lækkun er lagt til að ekki verði farið í nýráðningar eins og áætlunin gerir ráð fyrir.“

Kristján Þór Kristjánsson, f.h. Framsóknarflokks, lagði fram eftirfarandi bókun:
„Fulltrúar Framsóknar sátu hjá við afgreiðslu tillögu Sjálfstæðisflokks um lækkun fasteignarskatts niður í 0.52%. Ekki er ljóst í tillögunni hvar sækja eigi þær tekjur sem lækka við þessa breytingu. Fjárhagsáætlun er ekki klár og erfitt að gera sér grein fyrir hvaða áhrif þessi lækkun mun hafa á heildarniðurstöðu fjárhagsáætlunar. Bæjarstjórn samþykkti í fyrra fjárhagsleg markmið til framtíðar sveitarfélaginu til heilla. Með lækkun í 0.54% erum við að stíga skref í átt að lægri álögum á íbúa ásamt því að ná tökum á rekstri sveitarfélagsins og ná markmiðum í rekstri. Einnig hafa allar tekjurskerðingar áhrif á fjárfestingagetu sveitarfélagsins. Við sjáum fyrir okkur að endurskoða ákvörðun okkar og styðja tillögu Sjálfstæðisflokksins ef vinna við fjárhagsáætlun og hagræðingaraðgerðir sýna fram á að við gætum náð markmiðum okkar. Framsókn vill stíga styttri og skynsöm skref í átt að fjárhagsmarkmiðum samfélaginu til heilla.“

Forseti bar upphaflega tillögu upp til atkvæða.

Tillagan samþykkt með 7 atkvæðum, og 2 sátu hjá.
Fulltrúar Í-lista og B-lista greiddu atkvæði með tillögunni.
Fulltúar D-lista Sjálfstæðisflokks sátu hjá.

4.Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar 2024 - 2023040037

Bæjarstjóri leggur fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar 2024 fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn.
Til máls tóku: Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, forseti, Arna Lára Jónsdóttir, Gylfi Ólafsson, Nanný Arna Guðmundsdóttir, Jóhann Birkir Helgason, Kristján Þór Kristjánsson, og Jóhann Birkir Helgason.

Nanný Arna Guðmundsdóttir, f.h. Í-lista, lagði fram eftirfarandi bókun:
„Fulltrúar Í-listans í bæjarstjórn fagna fyrstu drögum að fjárhagsáætlun 2024. Áætlun með A-hluta í plús er nýlunda í rekstri Ísafjarðarbæjar og veltufé og framlegð betri en metnaðarfull markmið okkar gerðu ráð fyrir. Tveir óvissuþættir eru í rekstri sveitarfélagsins sem gerir það að verkum að við verðum að vera með augun á rekstrinum og hafa aðhaldssjónarmið að leiðarljósi. Málefni fatlaðra valda talsverðri óvissu á sviði velferðamála þar sem Ísafjarðarbær er nú orðið leiðandi sveitarfélag í málaflokknum. Eitt markmiða er að hafa betri stjórn og yfirsýn yfir málaflokkinn og þar með minnka óvissuna til lengri tíma. Annar óvissuþáttur eru kjarasamningar sem eru lausir í mars 2024. Við gerum ráð fyrir að fjárhagsáætlun taki breytingum á milli umræðna. Allir bæjarfulltrúar tóku þátt í vinnufundi með sviðsstjórum þriðjudaginn 30. október þar sem ýmsar tillögur voru ræddar til að lækka rekstrarkostnað og taka á óskum um aukin stöðugildi. Við gerum ráð fyrir að þess beri merki við aðra umræðu.“

Jóhann Birkir Helgason, f.h. Sjálfstæðisflokks, lagði fram eftirfarandi bókun:
„Sjálfstæðisflokkurinn bendir á að greinargerð hefur enn ekki verið lögð fram og því erfitt að taka fjárhagsáætlun til fyrri umræðu. En miðað við þau gögn sem hafa verið lögð fram þyrfti að hagræða í rekstri sveitarfélagsins svo ekki þurfi að fara í lántökur. Helst þyrfti að lækka rekstrarkostnað og fjárfestingar um 300 millj. Hægt er að ná þessu með því að falla frá nýráðningum og hagræða í rekstri, við teljum mjög raunhæft að ná fram hagræðingu í reksti sem nemur 150 millj. í A og B-hluta. Með þessu verður sveitarfélagið komið á þann stað að hugsanlega þurfi ekki að fara í lántöku árið 2024, sem er öllum íbúum sveitarfélagsins til hagsbóta.“

Forseti bar upp tillögu um að vísa fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar 2024 til síðari umræðu í bæjarstjórn.

Tillagan samþykkt 9-0.

5.Framkvæmdaáætlun 2024 til 2034 - 2023040035

Bæjarstjóri leggur framkvæmdaáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir árin 2024-2034 fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn.
Til máls tóku: Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, forseti, Arna Lára Jónsdóttir, Magnús Einar Magnússon, Steinunn Guðný Einarsdóttir, og Jóhann Birkir Helgason.

Forseti bar upp tillögu um að vísa framkvændaáætlun Ísafjarðarbæjar 2024-2034 til síðari umræðu í bæjarstjórn.

Tillagan samþykkt 9-0.

6.Ósk um skipulagsbreytingar við Mjólká - 2022110031

Tillaga frá 618. fundi skipulags- og mannvirkjanefndar, sem haldinn var 26. október 2023, um að bæjarstjórn heimili kynningu á vinnslutillögu vegna breytingar á aðalskipulagi Ísafjarðabæjar 2008-2020 vegna „Mjólká - Stækkun virkjunar, afhending grænnar orku og ný bryggja“, í samræmi við 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Þá leggur skipulags- og mannvirkjanefnd til við bæjarstjórn að heimila samhliða fyrrgreindu, kynningu á vinnslutillögu vegna breytingar á deiliskipulagi Mjólkárvirkjunar samanber 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Að lokum leggur skipulags- og mannvirkjanefnd til við bæjarstjórn að samþykkja óverulega breytingu á deiliskipulaginu „Dýrafjarðargöng - Rauðsstaðir.“ Deiliskipulagsbreytingin mun taka gildi um leið og nýtt deiliskipulag Mjólkárvirkjunar tekur gildi.
Til máls tók: Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, forseti.

Forseti bar tillöguna upp til atkvæða.

Tillagan samþykkt 9-0.

7.Deiliskipulag við Hlíðargötu á Þingeyri - 2021100054

Tillaga frá 618. fundi skipulags- og mannvirkjanefndar, en fundur var haldinn 26. október 2023, um að bæjarstjórn samþykkja nýtt deiliskipulag vegna Hlíðargötu á Þingeyri.
Til máls tók: Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, forseti.

Forseti bar tillöguna upp til atkvæða.

Tillagan samþykkt 9-0.

8.Dagverðardalur, frístundahúsasvæði. Nýtt deiliskipulag - 2023100068

Tillaga frá 618. fundi skipulags- og mannvirkjanefndar, en fundur var haldinn 26. október 2023, um að bæjarstjórn heimili kynningu á vinnslutillögu vegna nýs deiliskipulags í Dagverðardal samanber 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Til máls tók: Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, forseti.

Forseti bar tillöguna upp til atkvæða.

Tillagan samþykkt 9-0.

9.Sandaá í Dýrafirði, efnistaka. Umsókn um framkvæmdaleyfi - 2023100052

Tillaga frá 618. fundi skipulags- og mannvirkjanefndar, en fundur var haldinn 26. október 2023, um að bæjarstjórn heimili útgáfu framkvæmdaleyfis, vegna efnistöku úr Sandá í Dýrafirði, en gera á útsýnisstað innan við Þingeyri. Skipulagsnefnd heimilar Vegagerðinni efnistöku í landi Ísafjarðarbæjar í Sandá. Framkvæmdaleyfið verður þó ekki gefið út fyrr en jákvæð umsögn Fiskistofu liggur fyrir.
Til máls tók: Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, forseti.

Forseti bar tillöguna upp til atkvæða.

Tillagan samþykkt 9-0.

10.Bæjarráð - 1261 - 2310025F

Lögð fram til kynningar fundargerð 1261. fundar bæjarráðs, en fundur var haldinn 30. október 2023.

Fundargerðin er í átta liðum.
Til máls tók: Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, forseti.

Lagt fram til kynningar.

11.Bæjarráð - 1260 - 2310023F

Lögð fram til kynningar fundargerð 1260. fundar bæjarráðs, en fundur var haldinn 23. október 2023.

Fundargerðin er í átta liðum.
Til máls tóku: Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, forseti, og Gylfi Ólafsson.

Lagt fram til kynningar.

12.Skipulags- og mannvirkjanefnd - 618 - 2310014F

Lögð fram til kynningar fundargerð 618. fundar skipulags- og mannvirkjanefndar, en fundur var haldinn 26. október 2023.

Fundargerðin er í 17 liðum.
Til máls tók: Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, forseti.

Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 18:47.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?