Skipulags- og mannvirkjanefnd

Fundargerðir hverfisráða Ísafjarðarbæjar, auk fundargerða fastanefnda, starfshópa og annarra nefnda sveitarfélagsins af fundum sem haldnir voru til og með ársins 2017 má finna undir aðrar fundargerðir
626. fundur 29. febrúar 2024 kl. 10:30 - 12:30 í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði
Nefndarmenn
  • Sigríður Júlía Brynleifsdóttir formaður
  • Hrafnhildur Hrönn Óðinsdóttir varamaður
  • Valur Richter varamaður
  • Kristján Þór Kristjánsson varamaður
  • Þóra Marý Arnórsdóttir varamaður
Starfsmenn
  • Axel Rodriguez Överby sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs
  • Helga Þuríður Magnúsdóttir verkefnastjóri
Fundargerð ritaði: Helga Þuríður Magnúsdóttir verkefnastjóri
Dagskrá

1.Botnsvirkjun í Dýrafirði. Tilkynning um framkvæmd mál 904 - 2023110128

Lögð fram tilkynning frá Skipulagsstofnun, dags. 26. febrúar 2024, ákvörðun um matsskyldu, vegna áforma landeiganda Botns og Dranga um byggingu og rekstur allt að 5 MW rennslisvirkjunar með mögulegri dægurmiðlun, sem nýtir hluta rennslis Botnsár og Drangár. Framkvæmdin er tilkynningarskyld til ákvörðunar um matsskyldu samkvæmt 19. gr. og lið 3.15 í 1. viðauka í lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Áætlað er að inntaksmannvirki og aðveituskurðir verði staðsett í allt að 450 m h.y.s. í fjarðarbotninum og þaðan liggi niðurgrafin þrýstipípa sunnan árinnar í landi Dranga um 3,5 km leið að stöðvarhúsi sem staðsett verði í um 20 m h.y.s. Stærð stöðvarhúss er áætluð allt að 150 m². Tenging virkjunarinnar yrði með jarðstreng að munna Dýrafjarðarganga.

Á grundvelli fyrirliggjandi gagna er það niðurstaða Skipulagsstofnunar að fyrirhuguð framkvæmd kann að hafa umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind eru í 2. viðauka laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Því skal framkvæmdin háð mati á umhverfisáhrifum.
Lagt fram til kynningar.

2.Tímabundin notkun á eldissvæði í Seyðisfirði í Súðavíkurhreppi - 2024010039

Lögð fram ákvörðun Skipulagsstofnunar dags. 22. febrúar 2024, varðandi tímabundna notkun á tveimur svæðum með mismunandi árgöngum innan sama árgangasvæðis fram til ársins 2026.

Matskyldufyrirspurnin varðar tímabundna notkun á tveimur svæðum með mismunandi árgöngum innan sama árgangasvæðis. Um er að ræða Ytra-Kofradýpi, með laxaseiði sem fóru í sjókvíar árið 2023, og Seyðisfjörð, þar sem fyrirhugað er að setja út seiði árið 2024. Hér er um að ræða frávik frá matsskýrslu Háafells frá árinu 2020 en þar er gert ráð fyrir að eldissvæðin Seyðisfjörður og Ytra-Kofradýpi séu innan sama árgangasvæðis.

Niðurstaða Skipulagsstofnunar er sú að fyrirhuguð framkvæmd sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind eru í 2. viðauka laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Því skal framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Samkvæmt 30. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana má kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kærufrestur er til 28. mars 2024.
Lagt fram.

3.Sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi - Háafell - 2024020088

Lögð fram umsagnarbeiðni úr skipulagsgátt Skipulagsstofnunar, dags. 14. febrúar 2024 (mál nr. 0166/2024) vegna áforma Háafells ehf. um aukinn hámarkslífmassa og breytinga á eldissvæðum Háafells í Ísafjarðardjúpi.

Háafell ehf. hefur lagt fram matsáætlun fyrir 4.500 tonna aukningu hámarkslífmassa af laxi og regnbogasilungi í Ísafjarðardjúpi. Við breytinguna fer hámarkslífmassi fyrirtækisins í Ísafjarðardjúpi úr 6.800 tonnum í 11.300 tonn. Einnig er gert ráð fyrir að fækka og breyta eldissvæðum.

Kynningartími er til 15. mars 2024.
Gögn kynnt nefndinni. Skipulags- og mannvirkjanefnd mun taka afstöðu á næsta fundi.

4.Stækkun Mjólkárvirkjunar - 2024020089

Lögð fram umsagnarbeiðni úr skipulagsgátt Skipulagsstofnunar dags. 14. febrúar 2024 (mál nr. 0165/2024), tilkynning til ákvörðunar um matsskyldu frá Skipulagsstofnun vegna áforma Orkubús Vestfjarða ohf. um stækkun Mjólkárvirkjunar.

Fyrirhuguð stækkun Mjólkárvirkjunar er tilkynningarskyld framkvæmd skv. liðum 3.15 og 13.02 í 1. viðauka laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021 (vatnsorkuver með uppsett rafafl 200 kW eða meira).

Vatnsmiðlun úr Tangavatni hófst árið 1975 þegar byggð var allt að 8,6 m há stífla í afrennsli vatnsins. Fyrirhugað er að hækka núverandi stíflu við vatnið um þrjá metra og auka þannig miðlunargetu þess. Einnig á að virkja afrennsli vatnsins með allt að 0,5 MW virkjun við Hólmavatn sem er nú þegar nýtt sem uppistöðulón. Lögð verður um 700 m löng niðurgrafin þrýstipípa frá Tangavatni og að fyrirhuguðu stöðvarhúsi við Hólmavatn. Virkjað rennsli verður allt að 1,0 m3 /s. Með framkvæmdinni næst betri nýting á vatnasviði Mjólkár án mikilla umhverfisáhrifa. Núverandi stífla við Tangavatn er með 60 m löngu steyptu yfirfalli en lengd stíflu, með lausu efni, er um 100 m. Eftir breytingu verður yfirfallið um 100 m langt og lengd stíflu um 230 m. Notast verður við þann aðkomuveg sem þegar er til staðar og liggur að stíflustæðinu en leggja þarf um 800 m langan veg að fyrirhuguðu stöðvarhúsi við Hólmavatn. Samtals þarf um 11.000 m3 af efni í stífluna sem ráðgert er að taka innan þess svæðis sem markast af hæstu stöðu lónsins (Tangavatns) til að draga úr áhrifum á ásýnd svæðisins.

Kynningartími er til 14. mars 2024.
Skipulags- og mannvirkjanefnd telur umfang framkvæmdanna ekki þess eðlis að þær falli undir mat á umhverfisáhrifum þar sem umhverfið er nú þegar raskað vegna fyrri framkvæmda. Þá telur nefndin að það hefði mátt tilgreina umfang svæðis í fermetrum/hekturum með vísan í tölulið 2.03 skv. viðauka 1, í lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000.

Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur áherslur á vandaðan frágang þar sem svæðið er á hverfisvernduðu svæði og er í grennd við friðlýst náttúruverndarsvæði.

5.Endurmat á virkjunarkostum úr 3. áfanga rammaáætlunar - drög að tillögum verkefnastjórnar - 2023120054

Lögð fram tilkynning úr samráðsgátt stjórnvalda dags. 22. desember 2023, þar sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 254/2023, Endurmat á virkjunarkostum úr 3. áfanga rammaáætlunar - drög að tillögum verkefnastjórnar.

Umsagnarfrestur er til og með 15.mars 2024.
Skipulags- og mannvirkjanefnd tekur ekki afstöðu til erindisins þar sem það varðar ekki hagsmuni sveitarfélagsins.

6.Frumvörp og þingsályktunartillögur til umsagnar 2024 - 2024010062

Lögð fram umsagnarbeiðni úr samráðsgátt stjórnvalda, dags. 19. febrúar 2024, mál nr. 47/2024, „Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 96/2023 um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS2-kerfið).“

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið óskar eftir umsögnum við drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 96/2023 um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS2-kerfið). Við samþykkt frumvarpsins verður tilskipun ESB 2023/959 sem breytir tilskipun 2003/87/EB (ETS-tilskipunin) að fullu innleidd. Í tilskipun 2023/959 sem breytir ETS tilskipuninni, er í IVa kafla fjallað um nýtt hliðstætt viðskiptakerfi svokallað ETS2-kerfi sem mun ná utan um losun frá byggingum (húshitun), vegasamgöngum og viðbótargeirum.

Frestur til umsagna er til og með 4. mars 2024.
Lagt fram til kynningar. Skipulags- og mannvirkjanefnd setur þó spurningarmerki við samfélagslegan kostnað vegna innleiðingar.

7.Ósk um breytingu á Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-20, svæði Í9. Dagverðardalur, orlofshúsabyggð - 2021060044

Lögð fram tillaga að breytingum á Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020, vegna breyttrar landnotkunar á svæði Í9 við Dagverðardal, undir orlofshúsabyggð (F14), uppdráttur og greinargerð unnin af M11 arkitektum dags. 5. febrúar 2024, unnið skv. 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021.

Jafnframt er lögð fram samantekt umsagna og athugasemda sem bárust á kynningartíma, sem var frá 4. október 2023 til 20. nóvember 2023.
Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstjórn að heimila auglýsingu tillögu á breytingum á Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020 undir orlofshúsabyggð f14, skv. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þar sem tillit hefur verið tekið til athugasemda sem bárust á kynningartíma þar sem það á við.

8.Dagverðardalur, frístundahúsasvæði. Nýtt deiliskipulag - 2023100068

Lögð fram vinnslutillaga að nýju deiliskipulagi frístundasvæðis F14 í Dagverðardal, dags. 5. febrúar 2024, uppdráttur sem sýnir 39 ný frístundahús ásamt þjónustuhúsi og greinargerð, unnin af M11 arkitektum fyrir Fjallaból ehf. skv. 2.mgr. 40.gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Jafnframt eru lagðar fram umsagnir og athugasemdir sem bárust við kynningar skipulagslýsingar sem stóð frá 14. nóvember 2023 til 8. desember 2023.
Skipulags- og mannvirkjanefnd felur skipulagsfulltrúa að kynna tillögu að nýju deiliskipulagi undir orlofshúsabyggð og þjónustuhúss á svæði f14, skv. 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Kynningin skal auglýst með áberandi hætti á heimasíðu sveitarfélagsins.

9.Ból Ísafjarðarbæ. Nýtt deiliskipuag - 2022110039

Lögð fram tillaga að nýju deiliskipulagi á jörðinni Selakirkjubóli 1 í Önundarfirði dags. 9. febrúar 2024, unnin af M11 arkitektum fyrir Fjallaból ehf.
Jafnframt er lagt fram staðbundið hættumat Veðurstofu Íslands dags. 2. júní 2023 og fornleifaskráning/mat á hugsanlegum minjum, frá Ragnari Edvardssyni dags. 10. janúar 2023.

Kynningartími vinnslutillögu stóð yfir frá 14. nóvember 2023 til 14. desember 2023. Engar athugasemdir bárust á kynningartímabilinu.
Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstjórn að heimila auglýsingu tillögu á deiliskipulagi Selakirkjubóls 1, skv. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

10.Hafradalsteigur í Önundarfirði. Landamerki - 2024020052

Lagður fram tölvupóstur dags. 9. febrúar 2025 frá Jóni Grétari Magnússyni hjá M11 arkitektum f.h. landeiganda að Vífilsmýrum og Hafradalsteig í Öndundarfirði varðandi breytingar á landamerkjum. Hafradalsteigur L233663 stækkar úr 9,4 ha í 45,2 ha, úr landi Vífilsmýra L141032. Sami eigandi er að hvorri landareign.
Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstjórn að heimila breytingu á landamerkjum jarðanna Vífilsmýra og Hafradalsteigs, í Önundarfirði í samræmi við meðfylgjandi uppdrætti.

11.Vífilsmýrar 2 í Önundarfirði. Landamerki - 2024020051

Lagður fram tölvupóstur dags. 9. febrúar 2024 frá Jóni Grétari Magnússyni hjá M11 arkitektum f.h. landeiganda að Vífilsmýrum og Vífilsmýrum 2 í Önundarfirði varðandi breytinga á landamerkjum Vífilsmýra og Vífilsmýra 2. Vífilsmýrar 2 L233689 stækkar úr 36,7 ha í 65,6 ha, úr landi Vífilsmýra L141032. Sami eigandi er að hvorri landareign.
Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstjórn að heimila breytingu á landamerkjum jarðanna Vífilsmýra og Vífilsmýra 2, í Önundarfirði í samræmi við meðfylgjandi uppdrætti.

12.Höfðastígur Suðureyri - Deiliskipulag - 2022120051

Á 1245. fundi bæjarráðs, þann 19. júní 2023, var lagt fram bréf Elíasar Guðmundssonar f.h. Nostalgíu ehf., dagsett 3. júní 2023, þar sem óskað er eftir breytingu á samningi við Ísafjarðarbæ, dags. 2. september 2022, um lóðir á Höfðastíg á Suðureyri, og jafnframt óskað eftir samstarfi við Ísafjarðarbæ um breytingu á deiliskipulagi svæðisins. Bæjarráð tók jákvætt í erindið og vísaði málinu til afgreiðslu í skipulags- og mannvirkjanefnd.
Skipulags- og mannvirkjanefnd boðar Elías Guðmundsson til næsta fundar.

13.Oddavegur 5, Flateyri. Lóðarleigusamningur vegna sölu - 2023100004

Lögð fram umsókn dags. 2. október 2023 frá Má Erlingssyni f.h. Gallons ehf. eigendum fasteignar við Oddaveg 5 á Flateyri vegna endurnýjunar á lóðarleigusamningi. Jafnframt er lagt fram minnisblað Smára Karlssonar, verkefnastjóra á umhverfis- og eignasviði, dags. 7. febrúar 2024, varðandi Oddaveg 5 á Flateyri. Jafnframt er lagt fram erindi frá Má Erlingssyni f.h. Gallons ehf. dags. 21. febrúar 2024 um skil á lóðinni skv. skilyrðum lóðarleigusamnings dags. 29. júlí 1945.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd lagði til við skipulags- og mannvirkjanefnd þann 13. febrúar 2024 að að lóðarleigusamningur verði ekki endurnýjaður fyrr en niðurstöður úr jarðvegssýnatöku liggja fyrir.
Skipulags- og mannvirkjanefnd frestar endurnýjun lóðarleigusamnings við Oddaveg 5 á Flateyri, þar til niðurstöður jarðvegssýnatöku liggja fyrir.

14.Hlíðarvegur 50, Ísafirði. Umsókn um lóð - 2024010203

Lögð fram umsókn frá Guðmundi M Kristjánssyni og Halldóru G Magnúsdóttur, um lóð við Hlíðarveg 50 á Ísafirði, sem barst með tölvupósti þann dags. 17. febrúar 2024.

Ný lóð við Hlíðarveg 50 á Ísafirði var auglýst á heimasíðu Ísafjarðarbæjar frá 14. febrúar 2024.
Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstjórn að Guðmundur M Kristjánsson og Halldóra G Magnúsdóttir, fái lóðina við Hlíðarveg 50, Ísafirði skv. umsókn, með þeim reglum sem í gildi eru og settar kunna að verða.

15.Tunguskógur 40, Ísafirði. Umsókn um lóð í fóstur - 2024020100

Lagt fram erindi dags. 15. febrúar 2024 frá Elínu Þóru Stefánsdóttur með ósk um lóð í fóstur, við Tunguskóg 40 á Ísafirði, Sólhjalla.
Skipulags- og mannvirkjanefnd synjar erindinu þar sem áformað er að ljúka við vinnu við deiliskipulags svæðisins og umræddur reitur er hugsaður sem byggingarlóð.

Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstjórn að heimila endurupptöku á gerð deiliskipulags sumarhúsasvæðis í Tunguskógi, Skutulsfirði sbr. uppdrátt dags. maí 2011.

16.Sindragata 4a (2), Ísafirði. Grenndarkynning - 2024010233

Lagður fram tölvupóstur dags. 28. febrúar 2024, frá Einari H. Einarssyni hjá Sei arkitektum, f.h. Verstfirskra verktaka ehf., með tilkynningu um að búið er að leggja fyrir uppfærða uppdrætti af fyrirhugaðri nýbyggingu á lóðinni Sindragötu 4A, Ísafirði, sem uppfylla alla skilmála núgildandi deiliskipulags fyrir lóðina. Þar með er óskað eftir því að fyrirhugaðri grenndarkynningu verði aflýst, og málið verði tekið fyrir með það fyrir sjónum að nýjustu uppdrættir endurspegla alla skilmála.

Skipulags- og mannvirkjanefnd samþykkti á fundi nr. 623 þann 11. janúar 2024 að hefja grenndarkynningarferli þar sem byggingaráform á Sindragötu 4a (mhl. 2) samrýmdist ekki skipulagsskilmálum.

Nú hefur lóðarhafi ákveðið að breyta hönnun hússins þannig að það samrýmist skipulagsskilmálum í deiliskipulagi við Sindragötu 4, sem var samþykkt af bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar þann 18. janúar 2018.

Umsókn lóðarhafa um byggingarleyfi hlýtur nú hefðbundna afgreiðslu byggingarfulltrúa.
Lagt fram til kynningar.

Með vísan í erindi frá
Vestfirskum verktökum ehf., er fallið frá grenndarkynningu þar sem lóðarhafi hefur uppfært hönnun á húsi þannig að hún rúmist innan skilmála gildandi deiliskipulags, á lóð við Sindragötu 4a.

Fundi slitið - kl. 12:30.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?