Bæjarráð

Fundargerðir hverfisráða Ísafjarðarbæjar, auk fundargerða fastanefnda, starfshópa og annarra nefnda sveitarfélagsins af fundum sem haldnir voru til og með ársins 2017 má finna undir aðrar fundargerðir
1204. fundur 11. júlí 2022 kl. 08:10 - 09:40 í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði
Nefndarmenn
  • Gylfi Ólafsson formaður
  • Nanný Arna Guðmundsdóttir varaformaður
  • Kristján Þór Kristjánsson aðalmaður
  • Steinunn Guðný Einarsdóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Bryndís Ósk Jónsdóttir bæjarritari
  • Arna Lára Jónsdóttir bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Bryndís Ósk Jónsdóttir bæjarritari
Dagskrá

1.Ofanflóðavarnir við Flateyri - breytingar mannvirkja eftir snjófóð 2020 - 2022070037

Lagt fram minnisblað Örnu Láru Jónsdóttur, bæjarstjóra, dags. 8. júlí 2022, vegna breytinga á ofanflóðamannvirkjum fyrir ofan Flateyri, í kjölfar snjóflóða í janúar 2020, en bæjarstjóri leggur til við bæjaráð að leitast eftir því við Ofanflóðasjóð að hefja framkvæmdir hið fyrsta við ofanflóðavarnir á Flateyri.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að leitast eftir því við Ofanflóðasjóð að hefja framkvæmdir hið fyrsta við ofanflóðavarnir á Flateyri, í samræmi við tillögur Verkís á kynningarfundi þann 6. júlí 2022.

2.Samningur um umsjá knattspyrnuvalla á Torfnesi - 2021040038

Lagður fram til samþykktar samningur Ísafjarðarbæjar við knattspyrnudeild Vestra meistaraflokks um umsjá knattspyrnuvalla á Torfnesi og 1. hæð í Vallarhúsi Torfnesi. Jafnframt lagt fram minnisblað Hafdísar Gunnarsdóttur, sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs, vegna málsins.
Samningur Ísafjarðarbæjar við knattspyrnudeild Vestra meistaraflokks um umsjá knattspyrnuvalla á Torfnesi og 1. hæð í Vallarhúsi Torfnesi vegna 15. apríl til 15. október 2022 er samþykktur.

Meðan á sumarleyfi bæjarstjórnar stendur fer bæjarráð með fullnaðarákvörðun mála, samkvæmt 8. gr. samþykktar um stjórn Ísafjarðarbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar.

3.Íþróttastarfsemi - fjárhagserfiðleikar vegna covid-19 - 2022030095

Lagður fram tölvupóstur Dagnýjar Finnbjörnsdóttur, framkvæmdastjóra Héraðssambands Vestfirðinga, dagsettur 6. júlí 2022, ásamt samantekt um stöðu íþróttafélaga innan HSV sem telja sig hafa orðið fyrir tekjutapi vegna heimsfaraldurs covid-19.
Bæjarráð telur ekki vera svigrúm innan fjárhagsáætlunar sveitarfélagsins 2022 til að veita styrki til íþróttafélaganna. Bæjarráð felur bæjarstjóra að taka upp samtal við HSV um fjárhagsstöðu félaganna eftir heimsfaraldur og leggur til að málið verði skoðað frekar í fjárhagsáætlunargerð ársins 2023.

Bæjarráð hvetur íþróttafélögin til að sækja um mótvægisstyrki vegna heimsfaraldurs Covid-19 til mennta- og barnamálaráðuneytisins, en umsóknarfrestur er til 2. ágúst 2022.

4.Tjöruhúsið leigusamningur 2022-2027 - 2022060056

Á 1185. fundi bæjarráðs, þann 31. janúar 2022, var lagður fram tölvupóstur Hauks Sigurbjörns Magnússonar f.h. Tjöruhússins, dagsettur 26. janúar 2022, þar sem óskað var eftir endurnýjun leigusamnings milli Ísafjarðarbæjar og rekstraraðila Tjöruhússins. Leigusamningur milli Ísafjarðarbæjar og Tjöruhússins ehf., dags. 1. apríl 2018, jafnframt lagður fram til kynningar. Bæjarráð fól bæjarstjóra að vinna að endurskoðun leigusamningsins og leggja aftur fyrir bæjarráð.

Á 1200. fundi bæjarráðs, þann 13. júní 2022, voru lögð fram til samþykktar drög að samningi um leigu á Tjöruhúsinu í Neðstakaupstað á Ísafirði undir veitingarekstur, en gildistími samningsins er 1. apríl 2022 til og með 31. mars 2027. Bæjarráð frestaði afgreiðslu málsins og fól bæjarráð bæjarstjóra að vinna málið áfram.

Er nú lagður fram til samþykktar samningur Ísafjarðarbæjar við Tjöruhúsið ehf. um leigu á Tjöruhúsinu í Neðstakaupstað á Ísafirði undir veitingarekstur, með gildistíma til 31. maí 2027.
Bæjarráð samþykkir leigusamning Ísafjarðarbæjar um leigu á Tjöruhúsinu í Neðstakaupstað á Ísafirði undir veitingarekstur með gildistíma til 31. maí 2027.

Meðan á sumarleyfi bæjarstjórnar stendur fer bæjarráð með fullnaðarákvörðun mála, samkvæmt 8. gr. samþykktar um stjórn Ísafjarðarbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar.

5.Húsnæðismál háskólanemenda - stofnframlag og lóðavilyrði - 2021050072

Lagt fram til kynningar erindi Peter Weiss, forstöðumanns Háskólaseturs Vestfjarða, dags. 7. júlí 2022, þar sem kynnt er niðurstaða HMS, dags. 14. júní 2022, um að veita Háskólasetri Vestfjarða, f.h. óstofnaðrar hses. stofnframlag á grundvelli laga nr. 52/2016, að fjárhæð kr. 261.230.670.
Lagt fram til kynningar.

6.Húsnæðismál háskólanemenda - stofnun hses. - 2022070038

Lagt fram erindi Peter Weiss, forstöðumanns Háskólaseturs Vestfjarða, dags. 7. júlí 2022, þar sem kannaður er vilji Ísafjarðarbæjar til að vera aðili að húsnæðissjálfseignarstofnun vegna uppbyggingar nemendagarða við Háskólasetur Vestfjarða sem mun sinna byggingaframkvæmd og rekstri hússins. Í erindinu er jafnframt áréttað að nauðsynlegt er fyrir framgang málsins að bæjarstjórn staðfesti rafræna húsnæðisáætlun Ísafjarðarbæjar, svo og gangi frá niðurrifi skúrabygginga sem stendur á þeirri lóð sem félagið hefur fengið úthlutað til uppbyggingar nemendagarða.
Bæjarráð fagnar uppbyggingu nemendagarða við Háskólasetur Vestfjarða en telur ekki þörf á að gerast aðili að húsnæðissjálfeignarstofnuninni. Sveitarfélagið styrkir uppbyggingu með úthlutun stofnframlags til byggingarinnar og hvetur forsvarsaðila til að vera í góðu samtali við sveitarfélagið um hin ýmsu mál nemendagarðanna.

Rafræn húsnæðisáætlun Ísafjarðarbæjar er í lokavinnslu, og verðfyrirspurn vegna niðurrifs skúra var send út 4. júlí og er skilafrestur tilboða til 1. ágúst 2022.

Ísafjarðarbær telur því allar forsendur vera fyrir því að uppbygging nemendagarða geti hafist í haust.

7.Krafa í ábyrgðartryggingu Ísafjarðarbæjar - 2017040032

Lagður fram tölvupóstur Jóns Hróa Finnssonar, starfandi framkvæmdastjóra Byggðasamlags Vestfjarða um málefni fatlaðs fólks, dags. 23. júní 2022, þar sem tilkynnt er um bókun stjórnar frá fundi 20. júní 2022, þar sem stjórn tekur til endurskoðunar samþykkt stjórnar frá fundi 15. desember 2021, um samþykkt á hlutdeildargreiðslu annarra sveitarfélaga í bótagreiðslu skv. dómi Landsréttar. Óskað er álits lögmanns á ábyrgð byggðasamlagsins á bótagreiðslu.
Bæjarráð gerir athugasemdir við ákvörðun stjórnar Byggðasamlags Vestfjarða á fundi þann 20. júní 2022 þar sem sex mánaða gamalli ákvörðun stjórnar frá 15. desember 2021 var snúið við. Bæjarráð felur bæjarstjóra að koma þessum athugasemdum á framfæri við nýja stjórn BsVest.

8.Leyfi til sölu áfengis á framleiðslustað - Dokkan brugghús ehf. - 2022070029

Lagt fram bréf Önnu Lilju Ragnarsdóttur f.h. Sýslumannsins á Suðurlandi, dagsett 5. júlí 2022, þar sem óskað er eftir umsögn vegna umsóknar Dokkunnar brugghúss ehf. um leyfi til sölu áfengis á framleiðslustað.

Jafnframt lagðar fram umsagnir byggingafulltrúa, dags. 6. júlí 2022, Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, dags. 8. júlí 2022, og umsögn Slökkviliðs Ísafjarðarbæjar, dags. 9. júlí 2022, en allar umsagnir eru jákvæðar og án athugasemda.
Bæjarráð tekur undir jákvæðar og athugasemdalausar umsagnir byggingafulltrúa, skipulagsfulltrúa, Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða og Slökkviliðs Ísafjarðarbæjar.

Bæjarráð staðfestir að starfsemi Dokkunnar brugghúss sé í samræmi við byggingarleyfi útg. 29. september 2020, og skipulagsskilmála, að lokaúttekt hafi farið fram á húsinu, og að afgreiðslutími og staðsetning staðar sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag Ísafjarðarbæjar segja til um. Þá staðfestir bæjarráð að starfsemin sé í samræmi við ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og laga um matvæli, og að smásala á framleiðsluvörum fyrirtækisins hafi óveruleg grenndaráhrif og óveruleg áhrif á hljóðvist og rúmast innan núverandi starfsleyfis Heilbrigðiseftirlitsins sem gildir til 10. desember 2032. Að lokum telur bæjarráð að kröfum um brunavarnir, miðað við þá starfsemi sem fyrirhuguð er, vera fullnægt með vísan til mats og leyfis slökkviliðs. Bæjarráð telur ekkert því til fyrirstöðu að umbeðið leyfi verði veitt til sölu áfengis á framleiðslustað hjá Dokkunni brugghúsi á Ísafirði.

Meðan á sumarleyfi bæjarstjórnar stendur fer bæjarráð með fullnaðarákvörðun mála, samkvæmt 8. gr. samþykktar um stjórn Ísafjarðarbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar.

9.Kvikmyndahátíðin PIFF - 2022070028

Lagt fram bréf Fjölnis Más Baldurssonar, dags. 1. júlí 2022, þar sem óskað er eftir styrktarsamningi við Ísafjarðarbæ vegna kvikmyndahátíðarinnar The Pigeon International Film Festival (PIFF), sem haldin verður 13. - 17. október, en hátíðin er árlegur viðburður.
Bæjarráð vísar málinu til menningarmálanefndar til afgreiðslu.
Fylgiskjöl:

10.Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga 2022 - 2022020099

Lagt fram til kynningar bréf Vals Rafns Halldórssonar f.h. Sambands íslenskra sveitarfélaga, dagsett 5. júlí 2022, þar sem kynnt er að framboðsfrestur til formanns sambandsins er til og með 15. júlí 2022.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 09:40.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?