Flateyri: Víkkun flóðrásar við varnargarð

Hér eru birtar fréttir af útboðum og framkvæmdum sem í gangi eru hjá Ísafjarðarbæ.

Hægt er að skoða staðsetningu framkvæmda inni á Kortasjá Ísafjarðarbæjar með því að haka í „Framkvæmdir“.

Mynd: Framkvæmdasýsla ríkisins
Mynd: Framkvæmdasýsla ríkisins

Unnið hefur verið að víkkun flóðrásar við snjóflóðavarnargarðinn á Flateyri síðan í haust, auk þess sem núverandi flóðrás hefur verið hreinsuð. Vinna við verkið hófst í október 2021 og fólst meðal annars í að fjarlægja efni úr efri hluta fjallsins, fjarlægja uppsafnað set á svæðinu, drena vinnusvæðið og byggja slóða að námu. Efnið sem var fjarlægt úr rásinni var flutt á sorpsvæði við Klofning. 

Í síðari hluta desember 2021 var verkinu að mestu leyti lokið en jöfnun efnis sem flutt var á sorpsvæði og sáning flóðrásar verður kláruð í vor.

Nánari upplýsingar:

Útboði verksins lauk þann 8. september 2021, þrjú tilboð bárust og var Suðurverk hf. með lægsta boð. Verksamningur var undirritaður í október 2021 og er verkupphæðin 112.547.445 kr. 

Framkvæmdasýsla ríkisins (FSR) fer með yfirstjórn verklegrar framkvæmdar og ber ábyrgð á umsjón og eftirliti með verkinu fyrir hönd verkkaupa og er fulltrúi verkkaupa gagnvart verktaka.