Sumarstörf fyrir námsmenn hjá Ísafjarðarbæ – Átaksverkefni sumarið 2020

Ísafjarðarbær auglýsir eftirfarandi störf laus til umsóknar fyrir námsmenn 18 ára og eldri

Stöfin eru hluti af atvinnuátaki sveitarfélagsins í samvinnu við Vinnumálastofnun og eru eingöngu ætlað námsmönnum 18 ára og eldri sem eru á milli anna í námi. Ráðningartími er almennt að hámarki tveir mánuðir og fellur innan tímabilsins 01.06.20-31.08.20. Um er að ræða 100% störf, utan 50% starfs gæslumanns á safni.

Skrifstofa stjórnsýslu- og fjármálasviðs – starfsmaður í þjónustu, stafrænum og grænum lausnum

Ísafjarðarbær auglýsir eftir sumarstarfsmanni í sérverkefni og þjónustustarf á stjórnsýslu- og fjármálasviði. Helstu verkefni eru að gera úttekt á notendavænleika heimasíðu sveitarfélagsins, greina tækifæri í grænum skrefum á bæjarskrifstofum, vinna að skjölun og úrvinnslu eldri fundargerða, auk annarra sértækra verkefna undir leiðsögn bæjarritara og fjármálastjóra. Einnig mun viðkomandi sjá um móttöku skrifstofunnar, veita viðskiptavinum upplýsingar og aðstoða starfsfólk sviðsins við dagleg störf, svo sem við undirbúning funda, bókhaldsvinnu, skipulagningu ferðalaga og innkaup. Viðkomandi þarf að búa yfir sveigjanleika, skipulagshæfni og nákvæmni, góðri almennri tölvuþekkingu og hæfni til að tjá sig á íslensku bæði í ræðu og riti. Æskilegt er að viðkomandi hafi stúdentspróf eða sambærilega menntun.

Nánari upplýsingar veitir: Bryndís Ósk Jónsdóttir, bryndis@isafjordur.is

Skrifstofustarf á mannauðssviði

Ýmis aðstoð við mannauðstengd verkefni, s.s. ráðningar, starfslýsingar, starfsmat, uppfærslu gátlista, fræðslumál, heilsueflingu o.fl. undir leiðsögn mannauðsstjóra. Æskilegt að viðkomandi sé í mannauðstengdu námi á háskólastigi, s.s. mannauðsstjórnun, vinnusálfræði eða sambærilegu.

Nánari upplýsingar veitir: baldurjo@isafjordur.is

Skrifstofustarf á velferðarsviði

Helstu verkefni eru fólgin í undirbúningi að skilgreiningu, verklagi og ferlum í tengslum við samvinnu við skóla- og heilbrigðiskerfið um börn með skólaforðun. Samvinna velferðarþjónustu, heilbrigðiskerfis, skóla og barnaverndar, eftir því sem við á. Æskilegt að viðkomandi sé í háskólanámi á félagssviði.

Nánari upplýsingar veitir: Margrét Geirsdóttir, margret@isafjordur.is

Umsjónarmaður íþróttavalla, Torfnesi

Umsjónarmaður sér um viðhald og frágang, umhirðu valla og vallarhúss og önnur tilfallandi verkefni sem viðkemur þjónustu við þjálfara og iðkendur. Viðkomandi er í miklum samskiptum við þjálfara og skal hafa það að leiðarljósi að veita fyrirmyndarþjónustu.

Nánari upplýsingar veitir: Stefanía H. Ásmundsdóttir, stefaniaas@isafjordur.is

Sumarstarfsmenn við fegrun og snyrtingu umhverfis, 8 stöðugildi

Fyrirhugað er að koma á fót tveimur teymum sem sinna mismunandi viðfangsefnum er snúa að því að fegra og snyrta eignir Ísafjarðarbæjar í samstarfi við starfsfólk áhaldahúss. Verkefnið miðar við 6-8 vikur.

Teymi 1: 4 ungmenni

Teymi 1 sinnir meðal annars slætti sem nær ekki til útboðs á slætti Ísafjarðarbæjar ásamt garðyrkju margs konar. Garðyrkjufulltrúi Ísafjarðarbæjar yrði með umsjón á teymi 1.

Teymi 2: 4 ungmenni

Teymi 2 sinnir tiltekt, málningarvinnu og viðhaldi á eignum Ísafjarðarbæjar ásamt tilfallandi verkefnum. Mikilvægt er að ungmennin í teyminu séu sjálfstæð og hafi áhuga á margs konar viðfangsefnum er snúa að viðhaldsvinnu. Umsjónarmaður með teymi 2 er forstöðumaður áhaldahúss.

Nánari upplýsingar veitir: Axel R. Överby, axelov@isafjordur.is

Skapandi sumarstörf, 8 stöðugildi

Störfin eru til þess fallin að móta áhugasvið þátttakenda þar sem ungmennum gefst kostur á að koma með hugmyndir að skapandi verkefnum. Sumarstörfin eru hugsuð fyrir einstaklinga og hópa sem hafa áhuga á að efla listsköpun sína og um leið glæða sveitarfélagið með listrænum og skapandi uppákomum. Starfið hentar fólki með fjölbreyttan áhuga, t.d. á tónlist, myndlist, sviðslistum og kvikmyndagerð.

Störfin verða mótuð að áhugasviði þátttakenda með aðstoð verkefnastjóra. Verkefnin þurfa að uppfylla ákveðna skapandi þjónustu við sveitarfélagið, koma fram við ýmis tilefni í byggðarkjörnum Ísafjarðarbæjar eftir því sem tími og aðstæður leyfa. Hugmyndin er að verkefnið taki 8 vikur.

Nánari upplýsingar veitir: Stefanía H. Ásmundsdóttir, stefaniaas@isafjordur.is

Sumarstarfsmenn á leikskóla á Ísafirði, 4 stöðugildi

Starfa með börnum í leik og starfi undir stjórn deildarstjóra og framfylgja faglegri stefnu leikskólans. Ein af aðgerðaráætlunum Ísafjarðarbæjar er að koma til móts við barnafjölskyldur og bjóða upp á leikskólavistun þegar sumarlokun leikskólanna átti að vera, en ekki hefur verið sumaropnun í mörg ár í leikskólum Ísafjarðarbæjar. Næsti yfirmaður er leikskólastjóri. Verkefnið miðar við 6-8 vikur.

Nánari upplýsingar veitir: Stefanía H. Ásmundsdóttir, stefaniaas@isafjordur.is

Gæslumaður á safni

Um er að ræða 50% starf við gæslu á Byggðasafninu í Neðsta, frá 1. júní til 31. ágúst. Í starfinu felst að annast dagleg umsjón með sýningum og sýningarými Byggðasafns Vestfjarða. Það sem fellur undir dagleg störf er að flagga, losa ruslatunnur, þurrka af og pússa gler, sinna umhverfi safnsins og taka á móti gestum. Viðkomandi þarf að vera góður í mannlegum samskiptun, tala og skrifa góða íslensku auk ensku. Æskilegt að viðkomandi hafi áhuga á starfsemi safnsins. Vinnutími er frá 9-13 og viðkomandi þarf að geta unnið um helgar.

Nánari upplýsingar veitir: Jóna Símonía Bjarnadóttir, jona@isafjordur.is

Fyrir störfin eru gerðar eftirfarandi menntunar- og hæfniskröfur:

  • Menntun sem nýtist í starfi eða er æskileg skv. lýsingu
  • Framúrskarandi þjónustulund og hæfni í mannlegum samskiptum
  • Frumkvæði og sjálfstæð vinnubrögð
  • Umsækjendur verða að uppfylla þau skilyrði að hafa stundað nám á vorönn 2020 og vera skráðir í nám á haustönn 2020
  • Námsmenn þurfa að vera 18 ára á árinu.

Laun fara eftir kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og viðeigandi stéttarfélags.

Með umsókn skal fylgja staðfesting á námi á milli anna, starfsferilsskrá og stutt kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir hæfni og ástæðu umsóknar. Haka skal við það starf/störf sem sótt er um í umsóknarformi.

Umsóknarfrestur um störfin er til og með 27. maí 2020. Eingöngu er hægt að sækja um störfin hér: https://isafjardarbaer.umsokn.is/

Áhugasamir einstaklingar óháð kyni eru hvattir til að sækja um. Vakin er athygli á stefnu Ísafjarðarbæjar að jafna hlutfall kynjanna í störfum og að vinnustaðir endurspegli fjölbreytileika samfélagsins. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin.

- Við þjónum með gleði til gagns -

 

 

Var efnið á síðunni hjálplegt?