Skíðasvæði Ísafjarðarbæjar – fjölbreytt störf

 

Skíðasvæði Ísafjarðarbæjar óskar eftir starfsfólki til starfa í tímabundin störf til 15. maí 2020. Almennt fara störfin fram seinnipart dags á 4 tíma vöktum virka daga en 7-8 tíma vöktum um helgar. Um er að ræða ólík störf og vinnutíma.  Æskilegast er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst.  Umsóknarfrestur er til og með 8. nóvember 2019.

 

Eftirlits og viðgerðarmaður

Um er að ræða 100% tímabundið starf á skíðasvæði Ísfirðinga með möguleika á framtíðarráðningu. Eftirlits- og viðgerðarmaður hefur, ásamt forstöðumanni, umsjón með viðhaldi á lyftum, girðingum, merkingum og endasvæðum skíðasvæðis og sér til þess að öll öryggisatriði séu í lagi. Viðkomandi er á stöðugri ferð um svæðið og er því í miklum samskiptum við viðskiptavini, skíðaiðkendur og samstarfsfólk. Einnig setur eftirlits- og viðgerðarmaður inn tilkynningar um opnun á samfélagsmiðla og leiðbeinir lyftuvörðum í starfi.

 

Hæfnikröfur

 •                       Menntun á sviði vélstjórnar, bifvélavirkjunar, stálsmíði eða annað sambærilegt
 •                       Vinnuvélaréttindi
 •                       Reynsla af notkun tækja (s.s. vélsleða)
 •                       Reynsla af viðgerðum tækja og viðhaldi
 •                       Gott frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum
 •                       Haldgóð þekking í skyndihjálp
 •                       Level 1 eða sambærilegt frá björgunarsveitum æskilegt (snjóathugun)
 •                       Góð samskiptafærni og rík þjónustulund
 •                    Viðkomandi þarf að vera orðinn 18 ára

 

Umsjón með sjoppu og skíðaleigu og hlutastörf í afgreiðslu, 50-80% störf

Umsjónarmaður sjoppu sér um innkaup og skipulagningu starfs sjoppu og skíðaleigu. Starfsmaður í afgreiðslu sinnir almennum afgreiðslustörfum í skíðaskálanum, sölu aðgangskorta, afgreiðslu í skíðaleigu og sjoppu. Á helgum sér hann auk þess um að elda hádegismat fyrir starfsmenn skíðasvæðis. Til viðbótar sjá starfsmenn afgreiðslu um ræstingu skíðaskálans í lok dags.

Hæfnikröfur

 •          Hæfni í mannlegum samskiptum
 •          Þjónustulund og frumkvæði
 •          Þekking á skíðabúnaði æskilegur
 •          Reynsla af afgreiðslustörfum æskileg
 •          Þekking í skyndihjálp kostur
 •          Vera orðinn 18 ára 

 

Hlutastörf í lyftuvörslu

Lyftuvörður hefur umsjón með lyftu þegar hún er í notkun. Einnig tekur hann að sér önnur tilfallandi störf. Hann ber ábyrgð á að lyftan og brekkur sem að henni liggja séu í góðu ástandi, sér um rekstrardagbók lyftunnar, fylgist með því fólki er notar lyftuna hverju sinni og gengur frá lyftunni við lokun.

Hæfnikröfur

 •          Starfsreynsla á sviðinu æskileg
 •          Haldgóð þekking í skyndihjálp
 •          Hæfni í mannlegum samskiptum
 •          Þjónustulund og frumkvæði
 • Vera orðinn 18 ára

 

Launakjör eru samkvæmt samningum launanefndar sveitarfélaga við FOSVest/VerkVest.

Allar nánari upplýsingar um störfin veitir Hlynur Kristinsson forstöðumaður í síma 450-8400 eða á netfangið: hlynurk@isafjordur.is.

Umsóknum skal skilað til Hlyns á fyrrgreint netfang, þar sem tilgreint er hvaða starf sótt er um. Með umsókn skal fylgja ferilskrá. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin. Við hvetjum bæði konur og karla til að sækja um störfin.

 

-Við þjónum með gleði til gagns-

 

 

Var efnið á síðunni hjálplegt?