Blábankinn á Þingeyri auglýsir eftir forstöðumanni

 • Sýnir þú frumkvæði, ert sjálfstæð(ur) í vinnubrögðum, skapandi, sveigjanleg(ur) og átt auðvelt með að hugsa út fyrir boxið?
 • Hefur þú áhuga á byggðaþróun og atvinnuuppbyggingu og að leggja þitt af mörkum til samfélagsins?
 • Ertu mjög áhugasöm/áhugasamur um að tengja saman fólk og efla samstarf milli hagaðila?
 • Hefur þú áhuga á að vinna og búa í fallegu þorpi í nálægð við náttúruna?
 • Ert þú að leita að stað sem veitir þér innblástur?

Þá erum við með starf fyrir þig!

Stjórn Blábankans ses á Þingeyri auglýsir stöðu forstöðumanns lausa til umsóknar.

Forstöðumaður

Forstöðumaður er ábyrgðaraðili Blábanka verkefnisins. Viðkomandi vinnur undir stjórn Blábankans ses og býr á Þingeyri. Við leitum að einstaklingi sem er áhugasamur um að þróa verkefnið áfram og vinna með stjórn að því að tryggja framtíðar rekstur Blábankans, koma nýjum hugmyndum af stað innan verkefnisins og efla samstarf milli hagaðila. Viðkomandi þarf að hafa reynslu af stjórnun og búa yfir góðum samskiptahæfileikum. Íslensku- og enskukunnátta er skilyrði sem og vilji til að vinna í samstarfi við og að þjónusta fólk. Rekstrarþekking er æskilegur kostur. Forstöðumaður þarf að vera tilbúinn til að taka að sér mörg mismunandi verkefni og skyldur sem munu þróast og breytast með verkefninu, þess vegna eru frumkvæði og framkvæmdagleði lykilþættir í eiginleikum forstöðumanns.

Ábyrgðarsvið forstöðumanns eru eftirfarandi:

 • Þróun á Blábankanum, verkefnum hans og nýju viðskiptamódeli
 • Almennur daglegur rekstur ásamt áætlanargerð og skipulagning starfsemi til framtíðar
 • Utanumhald utan um vinnurými í Blábanka, reglur, frágangur og annað því tengt
 • Tengiliður við viðskiptavini og aðra hagsmunaaðila
 • Stjórnun og skipulagning markaðsstarfs, leit að nýjum viðskiptavinum
  • Víðtæk markaðssetning fyrir vinnurými (co-working)
  • Markaðssetning í nærumhverfi og umsjón með samfélagsmiðlum

Það sem við erum að bjóða upp á:

Um er að ræða 100% starf í eitt ár til að byrja með, með möguleika á framlengingu eftir því hvernig verkefninu framvindur. Í Blábankanum er góð vinnuaðstaða og tækifæri til að láta til sín taka við uppbyggingu samfélags. Þar er unnið að spennandi verkefnum í frjóu umhverfi og nánum tengslum við atvinnulíf og samfélag. Á Þingeyri er frábær aðstaða til útivistar, stutt í skóla, leikskóla, íþróttamannvirki, félagsheimili, söfn og hina margrómuðu sundlaug á Þingeyri, allt í göngufæri. Þá er stutt í fjöruna, til fjalla, á golfvöllinn og því kjörin staðsetning til útivistar og hreyfingar í náttúrunni.

Um Blábankann

Blábankinn tók til starfa árið 2017 og er samstarfsverkefni í byggðaþróun milli einkaaðila, ríkis og sveitarfélags.

Markmiðið með starfseminni er að finna leiðir til að sem fjölbreyttust þjónusta verði í boði á Þingeyri, gera opinbera þjónustu aðgengilegri, samskiptin milli íbúa og opinberra stofnana skilvirkari, sem og skapa grundvöll að félags- og efnahagslegri nýsköpun. Blábankinn vinnur að því að efla samfélag sköpunar fyrir þorpið og heiminn, með því að hvetja til starfsemi á staðnum, mynda hæfni og þekkingu, auka fjölda notenda og efla ímynd Blábankans og Þingeyrar.

Umsóknarfrestur um starfið er til og með 27. maí 2020. Æskilegast er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst. Umsóknum skal skilað til mannauðsstjóra Ísafjarðarbæjar á netfangið baldurjo@isafjordur.is. Með umsókn skal fylgja ferilskrá og kynningarbréf.

Nánari upplýsingar um starfið veitir Arna Lára Jónsdóttir í gegnum netfangið arnalara@nmi.is

Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin. Við hvetjum áhugasama einstaklinga, óháð kyni til að sækja um starfið.

Var efnið á síðunni hjálplegt?