Vísindaport - Skógar og skógrækt á Vestfjörðum

Gestur okkar í Vísindaporti föstudaginn 8. febrúar er Ísfirðingurinn Kristján Jónsson og mun hann í erindi sínu fjalla um sögu skógræktar á Vestfjörðum, hvað var, er og hugsanlega verður.  Fram til ársins 1997 voru skógræktarfélög stærstu skógræktendur á Vestfjörðum. Með tilkomu Skjólskóga á Vestfjörðum, nú Skógræktin, urðu skógarbændur mikilvirkustu ræktendur nýrra skóga. Litið verður á hvernig sú skógrækt fer fram, hvaða tegundum er plantað og hver tilgangurinn er. Mögulega verður litið í kristalkúlu og reynt að spá um hvað framtíðin ber í skauti sér.

Kristján Jónsson býr á Ísafirði þar sem hann er fæddur og uppalinn. Eftir að námi við MÍ lauk lá leiðin á Hvanneyri og þaðan fór Kristján með BS gráðu af búvísindabraut árið 2001. Nokkrum árum seinna sneri hann aftur á Hvanneyri og lauk nokkrum einingum í skógfræði. Kristján hóf störf hjá Skjólskógum á Vestfjörðum, nú Skógræktin, strax eftir að hann lauk BS-námi sínu og starfar hann þar enn. Um tíma sinnti Kristján einnig haustverkefnum, lambadómum, hjá Ráðgjafamiðstöð Landbúnaðarins.

Vísindaportið fer fram í kaffistofu Háskólaseturs kl. 12:10-13. Allir velkomnir.