Valdís Eva Hjaltadóttir ráðin forstöðumaður Blábankans

Stjórn Blábankans hefur ráðið Valdísi Evu Hjaltadóttur sem næsta forstöðumann Blábankans, samfélagsmiðstöðvar á Þingeyri. Hún kemur til starfa 1. september nk.

Valdís Eva hefur fjölbreytta starfsreynslu og hefur meðal annars stofnað fyrirtækið Vegdísi, sem hannar smáhýsi á hjólum, Saumakonuna Valdísi, sem annast saumaþjónustu. Valdís hefur starfað sem framleiðslustjóri hjá Icewear, við liðsveislu hjá Kópavogsbæ, ráðningarstjóri hjá Símstöðinni, umsjónarmaður framleiðslu hjá Clear Channel í Danmörku. Valdís hefur BSc gráðu í framleiðslustjórnun frá Copenhagen Business School og hönnunartækni frá TEKO og BEC Design í Danmörku.

Blábankinn er sjálfseignarstofnun sem stofnuð var árið 2017 af Vestinvest ehf., Ísafjarðarbæ og Simbahöllinni með stuðningi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, Verkvest og fyrirtækja á svæðinu.

Í Blábankanum er vinnurými fyrir frumkvöðla, samfélagsmiðstöð fyrir íbúa Þingeyrar og þar eru hýst árangursrík verkefni á sviði samfélagslegrar nýsköpunar sem hlotið hafa verðskuldaða athygli víða um heim.