Töfraganga, bátafleyting, matarsmakk og fleira

Tungumálatöfrum, sumarnámskeiði fyrir fjöltyngd börn, lýkur með töfragöngu frá Edinborgarhúsinu að Neðstakaupstað klukkan 12 á laugardag, en námskeiðið hefur staðið yfir alla vikuna. Þegar gangan hefur náð niður í Neðsta bjóða innflytjendur á svæðinu upp á smökkun á matarréttum frá heimalöndum sínum, bátum verður fleytt með söng í fjöruborðinu, farið verður í leiki og boðið upp á sögustund.

Áður en gangan leggur af stað, eða klukkan 10 um morguninn nánar til tekið, verður í Edinborgarhúsinu haldinn fundur um verkefnið þar sem Eliza Reid, forsetafrú og verndari Tungumálatöfra, mun ávarpa gesti.

Allir eru boðnir hjartanlega velkomnir á þessa viðburði og bent er á að spáð er fyrirtaks veðri þegar þeir fara fram.

Verkefnið er framkvæmt með stuðningi frá Ísafjarðarbæ, Uppbyggingarsjóði, fyrirtækjum og sjálfboðaliðum á svæðinu, en verkefnisstjórar eru þær Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir og Alejandra Díaz.