Sorpsamningur við Terra framlengdur

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti á 488. fundi sínum sem fram fór þann 20. janúar sl. að framlengja samning sveitarfélagsins við Terra umhverfisþjónustu um sorphirðu og förgun í Ísafjarðarbæ, til tveggja ára.

Þann 1. janúar 2023 taka gildi breytingar á þremur lögum um meðferð og meðhöndlun sorps; lögum um holllustuhætti og mengunarvarnir, lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um úrvinnslugjald. Í breytingunum felst meðal annars að sérstök söfnun á pappír, pappa, plasti og lífúrgangi skuli fara fram á sem aðgengilegastan hátt við íbúðarhús í þéttbýli og að sérstök söfnun á málmum, gleri og textíl skuli fara fram í grenndargámum. Fyrir fundinum lá minnisblað frá Tækniþjónustu Vestfjarða, dags. 16. nóvember 2021, þar sem áhrif lagabreytinganna á verksamning Terra um sorphirðu og förgun í Ísafjarðarbæ eru tekin saman. Þar kemur fram að fyrirkomulagið hjá Ísafjarðarbæ er nú þegar að miklu leyti í samræmi við þessar breytingar á lögunum og því ættu þær ekki að hafa veruleg áhrif til hækkunar á þjónustu sem keypt er af Terra.

Á fundi bæjarstjórnar var spurningum formanns bæjarráðs, frá 16. janúar sl., um hversu mikið var greitt til Terra vegna samningsins árin 2020 og 2021 svarað. Í svarinu kemur fram að samkvæmt ársreikningi 2020 voru samtals innkaup við Terra kr. 113.945.059 með vsk. Samkvæmt drögum að ársreikningi fyrir árið 2021 voru samtals innkaup við Terra 102.298.685 m. vsk.