Skólastarf að hefjast

Nú ættu foreldrar allra grunnskólabarna í Ísafjarðarbæ að hafa fengið boð um foreldraviðtal, nema reyndar á Suðureyri þar sem ríkir sú skemmtilega hefð að kennarar ganga í hús og boða til viðtals. Kennsla hefst svo í öllum skólum á föstudagsmorgun og viljum við biðja ökumenn um að hafa það í huga að margir gangandi vegfarendur verða þá að stíga sín fyrstu skref í umferðinni. Við viljum líka biðja fólk að sýna tillitsemi og umburðarlyndi í skólaskutlinu, því alltaf má búast við ákveðnu kraðaki meðan fólk er finna rétta taktinn, sérstaklega í nánasta nágrenni við Grunnskólann á Ísafirði.

Nemendafjöldi í grunnskólunum á Suðureyri, Flateyri og Þingeyri er svipaður og í fyrra, en á Ísafirði hefur verið áberandi fjölgun síðustu þrjú ár eftir nokkuð samfellda fækkun ár og áratugi þar á undan. Þá bendir nemendafjöldi í leikskólum sveitarfélagsins til þess að botninum sé náð og barnalán sé framundan í Ísafjarðarbæ.

Á meðfylgjandi mynd má sjá þróun nemendafjölda í Grunnskólanum á Ísafirði frá 2011.