Samþykkt að greiða laun áheyrnarfulltrúa í bæjarráði

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar samþykkti á 1201. fundi sínum tillögu B-lista Framsóknarflokks um áheyrnarfulltrúi í bæjarráði fái greidd laun til jafns við aðalmann í ráðinu.

Framboðum sem eiga fulltrúa í bæjarstjórn en hafa ekki fengið kjörinn bæjarráðsmann er heimilt að tilnefna áheyrnarfulltrúa til setu í bæjarráði með málfrelsi og tillögurétt. Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, sem eru í minnihluta í bæjarstjórn, hafa ákveðið að skipta sæti í bæjarráði á milli sín á yfirstandandi kjörtímabili. Framsóknarflokkurinn á fulltrúa í ráðinu fyrstu tvö árin og Sjálfstæðiflokkurinn seinni tvö árin og er þá sá flokkur sem ekki á sæti í bæjarráði með áheyrnarfulltrúa á fundum.

Fundir bæjarráðs eru um 45 á ári og líkt og kemur fram í tillögu Framsóknarflokks eru fordæmi fyrir því í öðrum sveitarfélögum að greiða áheyrnarfulltrúa laun fyrir setna fundi. Fordæmi má einnig finna hjá Ísafjarðarbæ en síðast var greitt fyrir störf áheyrnarfulltrúa í bæjarráði kjörtímabilið 2014-2018.

Auk þess að samþykkja tillöguna fól bæjarráð einnig bæjarstjóra að leggja fram viðauka vegna málsins.