Nordplus Junior-heimsókn í Grunnskólann á Þingeyri

Hópurinn við Dynjanda, séð út Arnarfjörðinn.
Mynd: Grunnskólinn á Þingeyri.
Hópurinn við Dynjanda, séð út Arnarfjörðinn.
Mynd: Grunnskólinn á Þingeyri.

Nemendur í 6.-8. bekk við Grunnskólann á Þingeyri hafa tekið þátt í Nordplus Junior-verkefni undanfarin tvö ár, samvinnuverkefni Norðurlanda og Eystrasaltsríkja, og í lok apríl komu 38 gestir frá Danmörku og Eistlandi til Þingeyrar en við það tvöfaldaðist nemenda- og kennarafjöldi GÞ.

Þema verkefnisins er víkingar og markmiðin eru m.a. að uppgötva ný tækifæri og hæfni í samskiptum, kynnast margbreytileikanum, umgangast allskonar manneskjur og læra að skilja hvert annað. Markmiðið er líka að kennarar tengist og læri hver af öðrum. 

Í frétt á vef Grunnskólans á Þingeyri kemur fram að nemendur unnu að ýmsum verkefnum og sóttu viðburði á meðan á heimsókninni stóð, meðal annars var víkingasmiðja í Stefánsbúð, farið í heimsókn í gömlu smiðjuna og á leiksýningu um Gísla Súrson í Haukadal. Einnig var farið í fjallgöngu, á hestbak, í íþróttahúsið og sund og að lokum í hópferð að Dynjanda með heitt kakó, kleinur og harðfisk.