Meðferð á jólasorpi

Óhófleg neysla hátíðanna gefur af sér mikið magn af sorpi, en merkilega mikið af því er endurvinnanlegt. Allur jólapappír á að fara laus í stóra hólfið í endurvinnslutunnunni með öðrum pappa og fernum. Allt plast, þ.e.a.s. hreinar plastumbúðir, plastfilmur, -brúsar, -pokar, -glös o.fl. fer í litla hólfið. Mandarínukassar fara í almennt sorp.

Málmar, t.d. lok af krukkum, niðursuðudósir, tóm sprittkerti og ál, fara í litla hólfið.  Rafhlöður má setja í litla hólfið, en hafa verður þær í pokum. Ljósaseríur og sparperur teljast til raftækja og má skila endurgjaldslaust með öðrum slíkum á næstu móttökustöð.

Vinsamlegast athugið að endurvinnsluefni má ekki vera matarsmitað. Svo nefnt sé dæmi þá er smá olía í pizzukassa í lagi, en ekki bitar af áleggi eða kleprar af osti.

Bein jarðgerast ekki og því má ekki setja þau með lífrænum úrgangi. Af ólíkri en ekki síður mikilvægri ástæðu gildir það sama um hundaskít og kattasand.

Á nýrri heimasíðu Gámaþjónustu Vestfjarða, www.gamarvest.is, má skoða myndbönd þar sem flokkun endurvinnsluefna er útskýrð nánar.