Lausaganga hunda

Enn og aftur þykir ástæða til að minna á að lausaganga hunda er almennt óheimil í Ísafjarðarbæ. Ábendingar hafa borist frá íbúum bæði á eyrinni og í efri bænum á Ísafirði um að eigendur sleppi hundum sínum lausum m.a. við varnargarðana en það er með öllu óheimilt.

Í samþykkt um hundahald í Ísafjarðarbæ segir meðal annars:
„Óheimilt er að láta hunda vera lausa, nema nytjahunda [...] þegar þeir eru að störfum í gæslu eiganda eða umráðamanns. Hundar skulu annars ávallt vera í taumi utan húss [...] og í umsjá manns sem hefur fullt vald yfir þeim.“

Þar segir einnig: 
„Eigendum og umráðamönnum hunda er ávallt skylt að fjarlægja saur eftir hunda sína.“

Því miður kemur sinnuleysi hundaeigenda hvað þetta varðar einna skýrast í ljós þegar snjóa leysir og því vert að ítreka skyldur þeirra til að hirða skít eftir hunda sína nú þegar ljóst er að muni rigna og snjóa til skiptis næstu daga.

Ábendingum um lausa hunda má koma til umhverfisfulltrúa, umhverfisfulltrui@isafjordur.is, eða á forstöðumann þjónustumiðstöðvar (áhaldahúss), ahaldahus@isafjordur.is.