Íslandssaga og Klofningur fá hvatningarverðlaun fyrir framúrskarandi skólaumhverfi 2024

Einar Ómarsson, Óðinn Gestsson, Nanný Arna Guðmundsdóttir, Hafdís Gunnarsdóttir og Guðrún Birgisdótt…
Einar Ómarsson, Óðinn Gestsson, Nanný Arna Guðmundsdóttir, Hafdís Gunnarsdóttir og Guðrún Birgisdóttir.

Fiskvinnslan Íslandssaga og hausaþurrkunarfyrirtækið Klofningur á Suðureyri hlutu hvatningarverðlaun skóla-, íþrótta- og tómstundanefndar Ísafjarðarbæjar fyrir framúrskarandi skólaumhverfi 2024.

Fyrirtækin hafa boðið grunnskólanemendum í heimsókn í yfir 20 ár, til að kynna þá fyrir fiskvinnslu og sjávarútvegi. Á hverju vori bjóða fyrirtækin nemendum í 1. bekk í Grunnskólanum á Ísafirði í sérstaka heimsókn auk þess að bjóða nemendum í Grunnskólanum á Suðureyri reglulega í heimsókn. Í heimsóknunum er fiskvinnslan skoðuð og nemendur sjá hvernig fisknum er breytt í verðmæta útflutningsvöru. Allir nemendur eru svo sendir heim með fisk í soðið sem þeir borða með bestu lyst. Oft tala nemendur um að þetta sé besti fiskur í heimi. Mikil tilhlökkun er meðal nemenda, kennara og jafnvel foreldra fyrir þessari heimsókn og í Íslandssögu og Klofningi kallast hún vorboðinn ljúfi.

Óðinn Gestsson, framkvæmdastjóri Íslandssögu, og Einar Ómarsson hjá Klofningi tóku við verðlaununum þann 14. janúar, frá Nanný Örnu Guðmundsdóttur, formanni skóla-, íþrótta- og tómstundanefndar. Einnig voru viðstaddar þær Hafdís Gunnarsdóttir, sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs, og Guðrún Birgisdóttir, skóla- og sérkennslufulltrúi.

Alls bárust sex tilnefningar til verðlaunanna en þetta er í fjórða sinn sem þau eru veitt. Árið 2023 féllu verðlaunin í skaut Guðlaugar Jónsdóttur, Diddu, fyrir heimilisfræðival við Grunnskólann á Ísafirði. Árið 2022 hlaut Grunnskóli Önundarfjarðar verðlaunin fyrir verkefnið Samstarf leik og grunnskóla – brú milli skólastiga og Grunnskólinn á Ísafirði fyrir verkefnið Útistærðfræði á unglingastigi. Árið 2021 féllu verðlaunin í skaut Tanga vegna öflugs útináms sem þar er boðið upp á.

Tengdar fréttir: