Glatt á hjalla þegar fyrsta skóflustungan var tekin

Fyrsta skóflustunga að nýrri viðbyggingu leikskólans Eyrarskjóls á Ísafirði var tekin með viðhöfn klukkan 10 í dag. Eftir kynningu Daníels Jakobssonar, formanns bæjarráðs Ísafjarðarbæjar, tóku stunguna hinn tæplega 101 árs gamli Karl Sigurðsson frá Hnífsdal og fulltrúar fyrstu árganga Eyrarskjóls; Sigríður Gísladóttir, Þorkell Þórðarson, Friðrik Hagalín Smárason og Elísa Stefánsdóttir. Viðstaddir voru starfsmenn og nemendur af Eyrarskjóli sem hafa verið að fylgjast með framkvæmdum af skólalóðinni sinni og hætta því varla núna.