Frumathugun fyrir fyrirhugaða viðbyggingu við Eyri

Á 1121. fundi bæjarráðs var lagður fram til kynningar samningur Ísafjarðarbæjar og heilbrigðisráðuneytisins annars vegar og Framkvæmdasýslu ríkisins hins vegar, um frumathugun fyrir fyrirhugaða viðbyggingu 10 hjúkrunarrýma við hjúkrunarheimilið Eyri á Ísafirði. Það var í september á síðasta ári sem heilbrigðisráðherra setti framkvæmdir við uppbyggingu nýrrar álmu við hjúkrunarheimilið á áætlun. Greiðsluhlutfall heilbrigðisráðuneytisins er 85% og Ísafjarðarbæjar er 15%.

Í bókun við málið fagnar bæjarráð áformum um fyrirhugaða stækkun Eyrar en ítrekar jafnframt ósk sína um að ríkissjóður kaupi fasteignina sem hýsir hjúkrunarheimilið. Í bókuninni segir einnig: „Ljóst má þykja að þegar ríkið ætlar sér að byggja við Eyri, sem er í eigu Ísafjarðarbæjar í dag, þá er einfaldast og hagkvæmast að ríkið eigi jafnframt Eyri, enda er fasteignin viðbygging við HVEST, sem er í eigu ríkissjóðs, og rekstur Eyrar á höndum ríkissjóðs.“