Framkvæmdaáætlun 2020-2025 og sameiginleg stefna um sjálfbæra þróun undirritaðar

Uppfærð framkvæmdaáætlun sveitarfélaganna á Vestfjörðum 2020-2025 vegna umhverfisvottunar samkvæmt staðli EarthCheck fyrir sveitarfélög hefur verið undirrituð af sveitar- og bæjarstjórum í Árneshreppi, Bolungarvíkurkaupstað, Ísafjarðarbæ, Kaldrananeshreppi, Reykhólasveit, Strandabyggð, Súðavíkurhreppi, Tálknafjarðarhreppi og Vesturbyggð. 

Þá hefur uppfærð útgáfa af sameiginlegri stefnu sveitarfélaganna um sjálfbæra þróun í umhverfislegu og félagslegu tilliti einnig verið undirrituð. Í samræmi við staðla EarthCheck hafa sveitarfélögin á Vestfjörðum komið sér saman um stefnu um sjálfbæra þróun á svæðinu. Stefnan er endurskoðuð árlega samkvæmt reglum EarthCheck.

Stefnan er birt hér í heild sinni en hún er grunnurinn að framkvæmdaáætlun.

Sameiginleg stefna sveitarfélaga á Vestfjörðum
um sjálfbæra þróun í umhverfislegu og félagslegu tilliti

Sveitarfélögin á Vestfjörðum, Árneshreppur, Bolungarvík, Ísafjarðarbær, Kaldrananeshreppur, Reykhólasveit, Strandabyggð, Súðavíkurhreppur, Tálknafjarðarhreppur og Vesturbyggð samþykkja sameiginlega stefnu um að Vestfirðir verði umhverfisvænt og sjálfbært samfélag þar sem áhersla er lögð á að vernda umhverfi, sögu, minjar og landslag fyrir komandi framtíð. Sveitarfélögin einsetja sér að vinna stöðugt í átt að sjálfbærni í starfsemi sinni og horfa til náttúru- og landverndar. Þar með setja þau fordæmi fyrir fyrirtæki, íbúa og stofnanir á svæðinu til að feta sömu braut. Sveitarfélögin munu kynna stefnuna og árangurinn og skapa þannig jákvæðari ímynd af afurðum og þjónustu á svæðinu. Þau leggja áherslu á gott starfsumhverfi á Vestfjörðum fyrir ferðaþjónustu og sýna öðrum atvinnuvegum gott fordæmi. Sveitarfélögin stefna að því að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda.

Sveitarfélögin á Vestfjörðum leitast við að fylgja ákvæðum alþjóðlegra samþykkta og innlendra áætlana um umhverfisvernd, auk þess sem fylgt er íslenskum lögum, reglugerðum, samningum og samþykktum sem falla undir málefni umhverfisstefnunnar. Einnig er fylgt siðareglum ferðamálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNWTO). Þetta nær einnig til þess ramma sem EarthCheck vottunin setur um úttekt og vottun og byggir á siðareglum APTA og APEC. 

Sveitarfélögin á Vestfjörðum beita fyrirbyggjandi aðgerðum til að koma í veg fyrir rýrnun náttúrulegra og félagslegra gæða og hvetja alla Vestfirðinga og gesti til að fylgja fordæminu og efla sjálfbæra þróun í samfélaginu.

Sveitarfélögin á Vestfjörðum hafa einsett sér að:

  1. Starfsemi sveitarfélaganna miði að stöðugum framförum í umhverfislegu, hagrænu og félagslegu tilliti í anda sjálfbærrar þróunar með hliðsjón af ársskýrslum EarthCheck fyrir svæðið.
  2. Nýta vinnuafl, vörur og þjónustu af svæðinu að því marki sem mögulegt er og efla þannig hagkerfi í heimabyggð.
  3. Starfa í anda samfélagslegrar ábyrgðar og hvetja fyrirtæki til þess sama. Leiðarljós er að efla samhug, samheldni og samskipti fólks, samþætta menningu, atvinnu og umhverfismál.

Sveitarfélögin á Vestfjörðum vilja efla samskipti við alla hagsmunaaðila og tryggja samræmdar aðferðir við að ná framúrskarandi árangri í umhverfis- og félagsmálum. Skilvirk miðlun upplýsinga á vefsvæðum og í ársskýrslum er liður í því, svo og gott samráð um starf sveitarfélaganna að sjálfbærri þróun í anda Staðardagskrár 21 og loftslagsráðstefnunnar í París 2015. Sveitarfélögin á Vestfjörðum vinna sameiginlega og hvert í sínu lagi að eftirfylgni framkvæmdaáætlunar. Kaupi inn aðföng og sinni úrgangsmálum í samræmi við þessa stefnu.

Þessi stefna var fyrst samþykkt af öllum hlutaðeigandi sveitarstjórnum og kynnt íbúum í maí 2016. Síðasta endurskoðun maí 2020.