Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 4

Dagbók bæjarstjóra dagana 20. janúar – 2. febrúar 2025, í fjórðu viku í starfi.

Þessi vika þaut hjá, í nægu að snúast, plönuðu og óplönuðu, fjölbreytt verkefni eins og gengur.

Ég fékk bréf frá ungum íbúa í Holtahverfi með þeirri ábendingu að á milli neðra og efra Holtahverfis væri dimmt og þar vantaði ljósastaura. Það er gaman að heyra í krökkum með skoðanir og frábært þegar þau láta verða af því að senda bréf með svona ábendingu. Ég ráðfærði mig við samstarfsfólk mitt og við sjáum hvað við getum gert í þessu.

Ég sit í verkefnaráði Landsnets vegna tengingar Hvalárvirkjunar við meginflutningskerfi raforku, þar er ég fulltrúi Fjórðungssambandsins. Meginmarkmið þessa verkefnis er að auka afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum. Í vikunni var efnt til vinnustofu valkostagreiningar vegna tengingarinnar.

Verkefnaráð spáir í spilin á Laugarhóli.
Verkefnaráð spáir í spilin á Laugarhóli.

Vinnustofan fór fram á Laugarhóli í Bjarnarfirði og snerist hún um að þátttakendur skoðuðu kosti og galla valkostanna auk þess að færi gafst á að koma fram með hugmyndir að breytingum á þeim línuleiðum sem og staðsetningu tengivirkis í Ísafjarðardjúpi. Næsta skref í ferlinu er að unnin er matsáætlun sem segir frá hvernig verður staðið að umhverfismatinu, valkostum sem verða til skoðunar, rannsóknum sem nauðsynlegt er að vinna og samráði á vinnslutíma umhverfismats.

Jakob og Högni frá Vélsmiðjunni Þrym, Axel sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs og Hilmar hafnarstjóri fundi á skrifstofu bæjarstjóra.
Jakob og Högni frá Vélsmiðjunni Þrym, Axel sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs og Hilmar hafnarstjóri á fundi á skrifstofu bæjarstjóra.

Höfnin á Ísafirði og lóðamál voru einnig í brennidepli hjá mér í vikunni. Ég, Hilmar hafnarstjóri og Axel sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs áttum góðan fund með forsvarsmönnum Vélsmiðjunnar Þryms en þeir áforma að færa starfsemi sína í áföngum niður á hafnarsvæðið, þar sem þeir hafa fengið vilyrði fyrir lóð en viljayfirlýsing þess efnis var undirrituð 9. febrúar 2024. Á fundinum voru rædd ýmis tæknileg atriði sem snúa að lóðinni og götunni. Auk þess greindu Þrymsmenn frá framkvæmdaáætlun uppbyggingar og flutning frá núverandi staðsetningu á nýja lóð við Sundabakka. Fyrsti áfangi í þeirri vegferð er að þeir munu panta skipalyftu en afgreiðslutíminn á henni er tæpt ár en það er fyrirsjáanlegt að verkefnið í heild mun taka nokkur ár.

Forstöðumannafundur í fundarsal á fjórðu hæð Stjórnsýsluhússins.
Forstöðumannafundur janúarmánaðar.

Einu sinni í mánuði koma forstöðumenn stofnana Ísafjarðarbæjar saman á fund, í vikunni var einn slíkur. Þessi vettvangur er nýttur til að fara yfir ýmis mál sem tengjast öllum stofnunum en áherslur hvers fundar bera keim af árstíma, til dæmis þegar vinna við rekstraráætlanir eru í gangi er áherslan á leiðbeiningar varðandi það, og svo framvegis. Á fundi vikunnar var farið yfir ýmis praktísk mál eins og breytingar á Vinnustund (tímaskráningakerfi), rammasamninga vegna innkaupa, áhættumat og fleira.

Sigga, Guðrún og Hafdís fyrir utan leikskólann Eyrarskjól.
Sigga, Guðrún og Hafdís fyrir utan leikskólann Eyrarskjól.

Ingibjörg leikskólastjóri á Eyrarskjóli, Sigga og Marta skólafreyja.
Ingibjörg leikskólastjóri á Eyrarskjóli, Sigga og Marta skólafreyja.

Ég hélt áfram að heimsækja stofnanir bæjarins og í þessari viku fór ég með Hafdísi og Guðrúnu á leikskólann Eyrarskjól sem er Hjallastefnuleikskóli. Ingibjörg og Marta sýndu okkur leikskólann og sögðu frá starfinu en ólíkt öðrum Hjallastefnuleikskólum er ekki kynjaskipting á Eyrarskjóli. Það var gaman að rekast á barnabarnið á leikskólanum, sá var heldur hissa og pínu feiminn á að sjá ömmu Siggu í leikskólanum.

Ása og Bryndís í Grunnskólanum á Suðureyri með hjartað góða.
Ása og Bryndís í Grunnskólanum á Suðureyri með hjartað góða.

Þá áttum við góða heimsókn í Grunnskólann á Suðureyri en þar voru kennslustundir í fullum gangi. Samkennt er á hverju stigi fyrir sig og alls eru 31 nemendur í skólanum. Við áttum gott spjall við Ásu skólastjóra og starfsfólkið en það var auðheyrt að það er þungt í kennurum vegna kjaraviðræðna. Þá sýndu þær okkur skemmtilegt verk sem verið er að vinna en það er hjartalaga léreft sem allir nemendur og kennarar hafa stimplað lófaför sín á og skrifað nöfn sín við.

Svava Rán, leikskólastjóri á Tjarnarbæ, og Sigga Júlla.
Svava Rán, leikskólastjóri á Tjarnarbæ, og Sigga Júlla.

Leikskólinn Tjarnarbær var einnig heimsóttur en þar byrjuðum við í eldhúsinu hjá Emelíu en hún eldar fyrir leikskólann og grunnskólann í þorpinu, Svava Rán leikskólastjóri tók á móti okkur og sýndi og sagði frá leikskólanum. Það er skemmtilegt að segja frá því að leikskólinn var vígður árið 1983 en það var Vigdís Finnbogadóttir sem vígði hann með pomp og prakt á sínum tíma.

Rannveig Jónsdóttir, hjá Listasafni Ísafjarðar, og Guðfinna Hreiðarsdóttir, forstöðumaður skjala- og ljósmyndasafns.
Rannveig Jónsdóttir, hjá Listasafni Ísafjarðar, og Guðfinna Hreiðarsdóttir, forstöðumaður skjala- og ljósmyndasafns.

Ég fór á opnun listasýningar í Safnahúsinu á Ísafirði (gamla sjúkrahúsið). Sýningin ber yfirskriftina „Ísfirska huldukonan“ en þarna eru verk eftir Kristínu Þorvaldsdóttur (1870-1944) sem og ljósmyndir af henni og fjölskyldu hennar. Kristín var fædd og uppalin á Ísafirði en fór snemma til náms í Kaupmannahöfn og varð vel menntaður listamaður þó hún hafi ekki starfað lengi að listinni. Ég hvet fólk til að kíkja á sýninguna en hún verður uppi fram að páskum.

Beðið inní göngum á meðan vegurinn var ruddur eftir að lítið snjóflóð féll yfir veginn í Súganda.Beðið inni í göngum á meðan vegurinn var ruddur eftir að lítið snjóflóð féll yfir veginn í Súganda.

Bakland Í-listans fundaði í vikunni, í þetta sinn hittumst við á Þingeyri, í Blábankanum. Fínasti fundur en á heimleiðinni varð smá töf þar sem það hafði fallið smá snjóflóð yfir veginn um 200 metrum fyrir neðan gangnamunnann í Súganda. Það voru nokkrir bílar á ferðinni en á meðan beðið var eftir moksturstæki sátum við bara í bílunum inni í göngum, þannig að þetta fór allt vel.

Guðrún og Matilda á nemendatónleikum Beu í Hömrum.
Guðrún og Matilda á nemendatónleikum Beu í Hömrum.

Í dag, sunnudag, á meðan margir voru uppteknir yfir úrslitaleik í handbolta eða mikilvægum leik í enska, fór ég á tónleika í Hömrum, sal Tónlistarskóla Ísafjarðar. Þar fluttu nemendur Beötu Joó íslensk lög á píanó, fjórhent og sexhent. Mjög hressandi og skemmtilegt, gaman að sjá og heyra í hópnum hennar Beu.

Auðar götur á Suðureyri laugardaginn 1. febrúar.
Auðar götur á Suðureyri laugardaginn 1. febrúar.

Hvilftarströnd í Önundarfirði snævi þakin.
Í Önundarfirði 2. febrúar, jamm það stóð ekki lengi snjóleysið.

Það var ekki síður hressandi að ég náði að bæta upp fyrir hreyfingarleysi vikunnar núna á helginni, hlaup í gær á Suðureyri og í dag í Önundarfirði. Fór einnig í sund en annars bara rólegheit og kröftum safnað fyrir vikuna fram undan, sem býður upp á allskonar.