COVID-19: Sérstökum hömlum aflétt á Hlíf á Ísafirði

Sóttvarnayfirvöld hafa aflétt hömlum sem voru settar á Hlíf um liðna helgi vegna Covid-19.

Öllum hömlum sem settar voru á íbúa á Hlíf á Ísafirði laugardagskvöldið var hefur nú verið aflétt og tekur afléttingin gildi strax. Þetta var ákveðið á fundi umdæmislæknis sóttvarna á Vestfjörðum sem haldinn var undir hádegi í dag, fimmtudaginn 27. ágúst.

Þrátt fyrir þetta er fólki enn ráðlagt að forðast mannamót og huga sérstaklega vel að sóttvörnum. Eins og áður verður skipt í tvo hópa á matmálstímum frá og með morgundeginum, föstudaginn 29. ágúst. Íbúar á Hlíf II mæta 11:30, íbúar á Hlíf I mæta kl. 12:00. Dagdeildin tekur einnig til starfa á morgun.

Laugardaginn 22. ágúst kom niðurstaða úr sýnatöku úr einstaklingi sem sýndi einkenni sem rímuðu við einkenni smits af völdum kórónaveirunnar. Niðurstaðan sýndi Covid-19 smit.

Í kjölfarið voru 19 settir í sóttkví, aðrir íbúar á Hlíf voru hvattir eindregið til að halda sig heima, þjónusta Ísafjarðarbæjar og heimahjúkrunar var takmörkuð og heimsóknir voru bannaðar. Á sunnudag fóru rúmlega 30 í skimun og á miðvikudagsmorgun ríflega 100, meðal annars starfsfólk verslana í bænum. Öll sýni, fyrir utan það fyrsta, reyndust neikvæð. Endurtekin sýni úr einstaklingnum hafa einnig verið neikvæð. Mótefnamælingar og raðgreining styðja þessa niðurstöðu.

Starfsfólk velferðarsviðs Ísafjarðarbæjar þakkar íbúum, aðstandendum, starfsfólki á Hlíf og öðru samstarfsfólki fyrir samvinnu og skilning.