Flřtilei­ir

Menntun og frŠ­sla

Menntun og fræðsla

Á þessari síðu eru upplýsingar um aðila í Ísafjarðarbæ sem bjóða upp á námsleiðir og fræðslu af ýmsu tagi; Fræðslumiðstöð Vestfjarða, Háskólasetur Vestfjarðar, Menntaskólann á Ísafirði, Tónlistarskóla Ísafjarðar, Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar og Félagsbæ á Flateyri.

 

Fræðslumiðstöð Vestfjarða

Suðurgötu 12, Ísafirði (Vestrahúsinu)
Sími:456 5025 - Fax: 456 5066
Skrifstofa Fræðslumiðstöðvarinnar er opin alla virka daga frá kl. 8-16.
Póstfang: frmst@frmst.is
Vefur Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða

Fræðslumiðstöð Vestfjarða sinnir hvers kyns fullorðinsfræðslu og símenntun, svo sem námskeiðahaldi fyrir einstaklinga og atvinnulífið, fjarnámi og upplýsingagjöf.
Forstöðumaður er Smári Haraldsson.

 

Háskólasetur Vestfjarða

Suðurgötu 12, Ísafirði (Vestrahúsinu)
Sími: 450 3040
Póstfang: info@uwestfjords.is
Vefsíða: www.uwestfjords.is

Háskólasetur Vestfjarða er lítil stofnun sem starfar á háskólastigi. Við Háskólasetrið sjálft starfa um 10 manns auk lausráðinna kennara. Í Vestrahúsinu vinna í heild yfir 50 manns við rannsóknir, kennslu og þjónustu hjá ýmsum stofnunum og fyrirtækjum.
Háskólasetrið er fjarnámssetur sem þjónustar um 100 fjarnema, það starfrækir meistaranám í haf- og strandsvæðastjórnun og meistaranám í sjávartengdri nýsköpun fyrir um 40 meistaranema auk þess að bjóða upp á margs konar sumarnámskeið sem og þjónustu fyrir rannsóknarmenn. 

 

Menntaskólinn á Ísafirði

Torfnesi, Ísafirði
Sími: 450 4400 - Fax: 450 4419
Póstfang: mi@fvi.is

Vefsíða: www.misa.is
Vefsíða Nemendafélags MÍ: www.nmisa.is
Skrifstofa opin virka daga frá kl. 08:00 – 16:00.

Menntaskólinn er framsækinn skóli sem býður upp á fjölbreytt nám, bæði bók- og verknám í dagskóla og öldungadeild. Nemendur eru um 400 talsins á ýmsum brautum í áfangakerfi. Meistaraskóli fyrir iðnaðarmenn er rekinn með hléum ásamt útibúum á Patreksfirði, Hólmavík og Reykhólum. Húsakynni Menntaskólans eru rúmgóð, öll á einni lóð og bókasafnsaðstaða er til fyrirmyndar. Heimavist og mötuneyti eru sambyggð bóknámshúsinu. Í stóru íþróttahúsi er aðstaða til almennrar íþróttaiðkunar.

 

Tónlistarskóli Ísafjarðar

Austurvegi 11, Ísafirði
Sími: 456 3925
Póstfang: tonlist@snerpa.is
Vefsíða: www.tonis.is
Skrifstofan er opin kl. 10-15 alla virka daga.

Á Ísafirði starfar einn elsti tónlistarskóli landsins, Tónlistarskóli Ísafjarðar, stofnaður árið 1948. Er hann til húsa í hinu sögufræga Húsmæðraskólahúsi við Austurveg og hefur tónleikasalurinn Harmrar verið byggður við. Skólinn er með útibú á Suðureyri, Flateyri, Þingeyri og í Súðavík. Nemendur eru á fjórða hundrað. Kennarar eru 25 talsins og af ýmsum þjóðernum. Kennt er á ýmis hljóðfæri og kenndar eru ýmsar tónfræðigreinar, s.s. tónfræði, hljómfræði, tónheyrn og tónlistarsaga. Samleikur og samsöngur setja mikinn svip á skólastarfið, en fjórir kórar starfa í skólanum, harmóníkkusveit, strengjasveit, léttsveit, lúðrasveit og ýmsir minni hópar.

 

Eitt aðaleinkenni skólans er hin mikla virkni hans í samfélaginu. Margar fjölskyldur í bænum hafa átt börn sem numið hafa við skólann og tónlistarnám er talinn eðlilegur þáttur uppeldis. Fjölbreytt og viðamikið tónleikahald er sterkur þáttur og lögð er rík áhersla á að allir fái að spila á tónleikum. Þá koma nemendur og kennarar oft fram við ýmis önnur tækifæri, í kirkjunni, hjá öldruðum og ýmsum félagasamtökum, fyrirtækjum og stofnunum sem þess óska. Algengt er að kennarar eða nemendur leiki fyrir ráðstefnugesti eða aðra ferðamenn og er ávallt reynt að verða við slíkum óskum.

 

Listaskóli Rögnvaldar Ólafssonar

Edinborgarhúsinu, Aðalstræti 7, Ísafirði
Sími: 456 5444
Póstfang: listaskoli@edinborg.is
Vefur LRÓ

Föst kennsla er í tónlist og listdansi, en auk þess eru haldin námskeið í ýmsum greinum, t.d. myndlist, leiklist og hönnun. Listaskólinn ber nafn Rögnvaldar Ólafssonar arkitekts sem teiknaði Edinborgarhúsið, sem er eitt af menningarhúsum bæjarins.

Vefumsjˇn