Íþrótta- og tómstundanefndar

49. fundur.

Fimmtudaginn 25. ágúst 2005 kl. 16:00 kom íþrótta- og tómstundanefnd saman í húsnæði Gamla apóteksins. Á fundinum voru: Torfi Jóhannsson, Guðríður Sigurðardóttir, Bryndís Birgisdóttir formaður, Jóna Benediktsdóttir, Sigmundur Þórðarson, Gunnar Þórðarson framkvæmdarstjóri HSV, Skúli S. Ólafsson forstöðumaður Skóla- og fjölskylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar og Jón Björnsson forstöðumaður Félagsmiðstöðvar. Skúli S. Ólafsson ritaði fundargerð.

Þetta var rætt á fundinum:

  1. Hestamannafélagið Stormur: Reiðhöll í Dýrafirði
  2. Gunnar Þórðarson gerði grein fyrir umsókn Hestamannafélagsins Storms um sex milljóna króna framlag sveitarfélagsins til reiðhallar í Dýrafirði. Þar af eru kr. 1.082.062,- niðurfelling gatnagerðargjalda en kr. 4.917.938,- beinn fjárstuðningur. Landbúnaðarráðuneytið, einkaaðilar og Hestamannafélagið myndu greiða stærstan hluta framkvæmdarinnar sem kostar að mati Tækniþjónustu Vestfjarða kr. 34.716.307,-. Sjá meðfylgjandi gögn.

    Nefndarmenn fagna þessu framtaki og leggja til að gatnagerðargjöld verði felld niður sbr. ofangreint en vísa umsókninni að öðru leyti til fjárhagsáætlunar.

  3. Tilnefning í stjórn Afreksmannasjóðs
  4. Rúnar Guðmundsson hefur sagt sig úr stjórn Afreksmannasjóðs. HSV tilnefnir Jóhann Króknes Torfason í stjórn sjóðsins.

    Nefndarmenn taka undir þá tilnefningu.

  5. Aðstaða íþrótta- og tómstundafulltrúa
  6. Jón Björnsson kynnti þau áform að hafa bækistöðvar sínar í Gamla apótekinu ásamt umsjónarmanni hússins og umsjónarmanni félagsmiðstöðvar. Líkur eru á því að skrifstofa svæðisfulltrúa UMFÍ verði einnig í húsinu. Aðstaðan er til bráðabirgða og hefur verið gætt ýtrasta hófs við endurbætur á henni. Hversu langan tíma skrifstofur verða í Gamla apótekinu er háð því hvar og hvenær frístundamiðstöð verður sett á laggirnar. Með þessu má þó líta svo á að kominn sé fyrsti vísirinn að frístundamiðstöð. Starfsemi félagsmiðstöðvarinnar á Ísafirði verður til að byrja með í húsnæði GÍ. Félagsstarf unglinga verður þó tengd útiveru þetta haustið. Jón benti á að nauðsynlegt væri að móta stefnu um framtíðarhúsnæði félagsmiðstöðvarinnar.

    Nefndarmenn fela Jóni Björnssyni að hefja þá vinnu hið fyrsta.

  7. Kynning á Gamla apótekinu, Evróvísi og Félagsmiðstöðinni
  8. Alberína Friðbjörg Elíasdóttir annaðist þá kynningu. Stefnt er að því að opna 8. september með pompi og prakt ásamt svæðisskrifstofu UMFÍ ef svo fer að hún verði til húsa í Gamla apótekinu. Mikið starf hefur verið unnið með ungmennum og samstarf með nemendafélagi og stjórnendum MÍ lofar góðu. Ungmennaráð er í mótun í samræmi við íþrótta- og tómstundastefnu Ísafjarðarbæjar. Af öðrum fyrirhuguðum verkefnum má nefna útvarpsrekstur, móttöku sjálfboðaliða og endurbætur á heimasíðu. Starfsemi Evróvísis er komin á fullt skrið og fór Albertína á námskeið í Brussel og París í sumar. Samstarf við Fjölmenningarsetur er á döfinni og er stefnt að því að ná til ungra nýbúa með starfinu.

    Nefndarmenn lýsa mikilli ánægju með starfsemina og þau verkefni sem Albertína lýsti í ræðu og riti. Sjá meðfylgjandi gögn.

  9. Framhald stefnumótunarvinnu
  10. Bryndís gerði grein fyrir því sem fram kemur í Íþrótta- og tómstundastefnu Ísafjarðarbæjar þar sem segir í inngangi: "Í framhaldi af þeirri vinnu sem hér um ræðir yrði einstökum deildum íþrótta- og æskulýðsgeirans gert að móta eigin stefnu í samræmi við þau meginmarkmið sem hér fylgja"

    Nefndarmenn fela verðandi íþrótta- og tómstundafulltrúa að leiða vinnuna með forstöðumönnum einstakra íþrótta- og tómstundamannvirkja sveitarfélagsins. Á næsta fundi nefndarinnar verður íþrótta- og tómstundastefnan lesin í gegn.

  11. Endurskoðun fjárhagsáætlunar
  12. Bryndís gerði grein fyrir því að endurskoða þarf forsendur fjárhagsáætlunar vegna stöðugilda.

    Verðandi íþrótta- og tómstundafulltrúa var falið að taka áætlunina fyrir á næsta fund nefndarinnar.

  13. Opnunartími sundlauga
  14. Bryndís kynnti fyrir nefndarmönnum að um mánaðarmótin tekur vetrartími sundlauganna gildi.

    Verðandi íþrótta- og tómstundafulltrúa var falið að samræma hann að núverandi fráteknum tímum og kynna hann.

  15. Önnur mál

Bryndís kynnti tvær fyrirspurnir frá HSV: a) Staða mála varðandi framkvæmdir á púttvellinum og b) vegaframkvæmdir á skotæfingasvæðinu. Báðum fyrirspurnum verður svarað eftir næsta fund nefndarinnar.

Fundurinn er sá síðasti sem forstöðumaður í afleysingum, Skúli S. Ólafsson, situr. Þakkaði hann kærlega fyrir góð samskipti við nefndarmenn og árangursríka stefnumótunarvinnu. Nefndarmenn endurguldu þakkirnar.

Fleira var ekki rætt, fundi var slitið kl. 17:55.

Bryndís Birgisdóttir, formaður

Torfi Jóhannsson Guðríður Sigurðardóttir

Gunnar Þórðarson Sigmundur Þórðarson

Skúli S. Ólafsson Jóna Benediktsdóttir

Jón Björnsson