Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

453. fundur

Árið 2005, mánudaginn 24. október kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerð nefndar.

Lárus G. Valdimarsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, lagði fram svohljóðandi tillögu við 1. lið 453. fundar bæjarráðs:
,,Undirritaður bæjarfulltrúi Samfylkingar gerir það að tillögu sinni, að gerð verði úttekt á kynjabundnum launamun hjá launþegum Ísafjarðarbæjar. Í framhaldi af þeirri úttekt verði gerð aðgerðaráætlun um með hvaða hætti vinna skuli að úrbótum á því misrétti."
Greinargerð: Í dag eru liðin 30 ár frá því að haldið var upp á Kvennafrídaginn svo eftir var tekið. Þrátt fyrir að nokkuð hafi miðað áleiðis í réttindabaráttu kvenna á þeim árum, sem liðin eru þá hefur launamunur kynjanna haldist óásættanlega mikill. Með því að Ísafjarðarbær sýni frumkvæði í þessu brýna réttindamáli, þá getur hann skapað gott fordæmi fyrir aðra atvinnurekendur.

Félagsmálanefnd 18/10. 260. fundur.
Fundargerðin er í fimm liðum.
2. liður. Bæjarráð vísar tillögu félagsmálanefndar til fjárhagsáætlunar 2006.
3. liður. Bæjarráð vísar tillögu félagsmálanefndar til fjárhagsáætlunar 2006.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Hafnarstjórn 18/10. 107. fundur.
Fundargerðin er í sjö liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Bréf starfshóps um tölvumál Ísafjarðarbæjar. 2005-02-0004.

Lagt fram bréf starfshóps um tölvumál Ísafjarðarbæjar dagsett 19. október s.l. og er í því bréfi greint frá starfi og tillögum hópsins. Jafnframt er lögð fram skýrsla frá EJS undir heitinu ,,Ráðgjöf fyrir Ísafjarðarbæ, framtíðar nethögun".
Til fundar við bæjarráð undir þessum lið eru mættir þeir Ingi Þór Ágústsson, bæjarfulltrúi og Þórir Sveinsson, fjármálastjóri, sem sæti eiga í starfshópnum.

Bæjarráð samþykkir að heimila starfshópi um tölvumál Ísafjarðarbæjar að vinna áfram að endurskipulagningu á tölvumálum sveitarfélagsins, með tilvísun til tillagna starfshópsins og skýrslu EJS.

3. Bréf Skipulagsstofnunar. - Skipulagsdagurinn 2005. 2005-10-0050.

Lagt fram bréf frá Skipulagsstofnun dagsett 18. október s.l., þar sem Skipulagsstofnun minnir á samráðsfund stofnunarinnar og sveitarfélaga um skipulagsmál, sem haldinn verður þann 31. október n.k. á Hótel Sögu. Æskilegt er að auk skipulags- fulltrúa sveitarfélags mæti og pólitískur fulltrúi(ar) sveitarstjórnar í skipulagsmálum.

Bæjarráð vísar erindinu til tæknideildar Ísafjarðarbæjar.

4. Bréf eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga. 2005-05-0079.

Lagt fram bréf eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga dagsett 11. október s.l., þar sem fram kemur að nefndin hafi athugað ársreikning sveitarfélagsins fyrir árið 2004 með hliðsjón að fjárhagsáætlun ársins og fjárhagsáætlun fyrir árið 2005.
Nefndinni hefur ekki borist greinargerð sveitarstjórnar í samræmi við 2. mgr. 5. gr. reglugerðar um eftirlitsnefnd með fjármálum svitarfélaga nr. 374/2001 og er hér með kallað eftir henni. Ísafjarðarbær er eitt ellefu sveitarfélag er fékk samhljóða bréf.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að svara erindi bréfsins.

5. Bréf Samb. ísl. sveitarf. - Aðgerðaáætlun gegn ofbeldi gegn konum. 2005-10-0065.

Lagt fram bréf Samb. ísl. sveitarf. dagsett 20. október s.l., er varðar ,,Aðgerðaáætlun til að vinna á kynbundnu ofbeldi". Bréfinu fylgir bréf aðgerðarhóps ásamt greinargerð er höfð verður til hliðsjónar við gerð aðgerðaáætlunar gegn kynbundnu ofbeldi.

Bæjarráð vísar erindinu til félagsmálanefndar.

6. Samb. ísl. sveitarf. - Fundargerð 728. stjórnarfundar.

Lögð fram 728. fundargerð stjórnar Samb. ísl. sveitarf., frá fundi er haldinn var þann 23. september s.l., að Borgartúni 30, Reykjavík.

Lagt fram til kynningar.

7. Bréf Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða. - Fundargerð heilbrigðisnefndar. 2005-05-0064.

Lagt fram bréf frá Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða dagsett 16. október s.l., ásamt fundargerð 51. fundar heilbrigðisnefndar Vestfjarðasvæðis er haldinn var þann 14. október s.l. Meðfylgjandi er fjárhagsáætlun Heilbrigðiseftirlitsins fyrir árið 2006.

Bæjarráð vísar fjárhagsáætlun Heilbrigðiseftirlitsins til gerðar fjárhagsáætlunar Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2006. Annað lagt fram til kynningar.

8. Fjárhagsáætlun ársins 2006. 2005-04-0035.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri og Þórir Sveinsson, fjármálastjóri, sem sat fund bæjarráðs undir þessum lið, gerður grein fyrir stöðu varðandi undirbúningsvinnu, að gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2006.

Bæjarráð samþykkir grunnforsendur fjárhagsáætlunar 2006 þannig, að þjónustugjaldskrár hækki almennt um 5% og gjöld utan bundinna liða verði óbreytt frá fjárhagsáætlun 2005.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:50.

Þorleifur Pálsson, ritari.

 

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Birna Lárusdóttir. Lárus G. Valdimarsson.

Magnús Reynir Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.