Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

445. fundur

Árið 2005, mánudaginn 22. ágúst kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Atvinnumálanefnd 1/6. 55. fundur.
Fundargerðin er í tveimur liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Fræðslunefnd 16/8. 222. fundur.
Fundargerðin er í ellefu liðum.
1. tölul. Lagður fram til kynningar. Til afgreiðslu síðar í bæjarstjórn.
Aðrir liðir lagðir fram til kynningar.

2. Fjármálastjóri - mánaðarskýrsla um rekstur og fjárfestingar janúar – júní 2005. 2004-08-0046.

Lagt fram bréf Þóris Sveinssonar, fjármálastjóra, dagsett 19. ágúst s.l., mánaðarskýrsla um rekstur og fjárfestingar fyrir tímabilið janúar - júní 2005.
Lagt fram til kynningar.

3. Sameigendur að Félagsheimili Súgfirðinga – 2005-07-0033.

Lagt fram svarbréf sameigenda að Félagsheimili Súgfirðinga dags. 11. ágúst sl. Bréfritarar telja að ekki sé tímabært að selja félagsheimilið og óska eftir fundi með forsvarsmönnum Ísafjarðarbæjar til að ræða framtíðarmöguleika fyrir starfsemi í húsinu.
Bæjarstjóri upplýsti að tveir fundir hafi verið haldnir á árinu 2003 og 2004 með hagsmunaaðilum þar sem samþykkt hafi verið að auglýsa húseignina til sölu enda í undirbúningi bygging nýs íþróttahúss á Suðureyri sem nýta á til starfsemi sem fór fram í félagsheimilinu. Ennfremur kom fram að fundur hafi verið haldinn í dag með sameigendum og gerði bæjarstjóri grein fyrir umræðum á þeim fundi þar sem og sátu Birna Lárusdóttir, forseti bæjarstjórnar, og Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Bæjarráð tekur fram að afstaða Ísafjarðarbæjar sé áfram sú að hætta rekstri félagsheimilisins á Suðureyri í núverandi mynd enda var ákvörðun tekin um að byggja fjölnota íþróttahús á Suðureyri í stað þess að endurbyggja félagsheimilið.
Þar sem meðeigendur Ísafjarðarbæjar telja ekki tímabært að selja húseignina óskar bæjarráð eftir því að þeir leysi til sín eignarhlut Ísafjarðarbæjar.

4. Bæjarstjóri – varnir gegn landbroti í Leirufirði og gerð vegslóða í heimildarleysi.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, gerði grein fyrir stöðu málsins.

Magnús Reynir Guðmundsson lagði fram svohljóðandi tillögu:
"Legg til að Ísafjarðarbær falli frá því að óska eftir lögreglurannsókn vegna umhverfisskemmda á Öldugilsheiði og í Leirufirði. Fulltrúar Ísafjarðarbæjar, í samráði við umhverfisnefnd og bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar setji fram eðlilegar kröfur um lagfæringar á þeim skaða sem orðið hefur, enda eru ákvæði um slíkar úrbætur í leyfi til handa jarðeiganda, vegna fyrrnefndra framkvæmda."

Tillagan var felld með atkvæðum meirihluta. Lárus G. Valdimarsson gerði grein fyrir hjásetu sinni og lét bóka: "Tek efnislega undir tillögu Magnúsar R. Guðmundssonar um að betur hefði verið gætt meðalhófs í málsmeðferð."

5. Bæjarstjóri – sjúkraflug í Ísafjarðarbæ.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, gerði grein fyrir stöðu málsins.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:25.

Þórir Sveinsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Birna Lárusdóttir. Lárus G. Valdimarsson

Magnús Reynir Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.