Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

439. fundur

Árið 2005, mánudaginn 4. júlí kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

Á fund bæjarráðs er mættur Björn Davíðsson, sem fulltrúi S-lista. Ekki er gerð athugasemd við setu hans í bæjarráði.

1. Trúnaðarmál.

Til fundar við bæjarráð er mættur Tryggvi Guðmundsson, lögfræðingur, til viðræða um trúnaðarmál. Jafnframt er á fund bæjarráðs mættur Þórir Sveinsson, fjármálastjóri.

Trúnaðarmál rætt og fært til bókar í trúnaðarmálabók bæjarráðs.

2. Fundargerðir nefnda.

Menningarmálanefnd 29/6. 114. fundur.
Fundargerðin er í þremur liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

3. Bréf bæjarritara. - Skólaakstur í Dýrafirði og Önundarfirði. 2005-07-0012.

Lagt fram bréf frá bæjarritara dagsett 30. júní s.l., vegna samninga um skólaakstur í Dýrafirði og Önundarfirði. Í bréfinu er, að höfðu samráði við Skóla- og fjölskylduskrifstofu og skólastjóra viðkomandi skóla, lagt til að samið verði við Björgvin Sveinsson, um akstur í Önundarfirði og F & S hópferðabíla ehf., um akstur í Dýrafirði.

Bæjarráð samþykkir að gengið verði frá samningum við ofangreinda aðila á grundvelli framlagðra gagna.

4. Kauptilboð í íbúð á Hlíf I, Ísafirði. 2005-07-0013.

Lagt fram kauptilboð dagsett 29. júní s.l., í íbúð á 3. hæð á Hlíf I á Ísafirði, upp á kr. 5.800.000.-, sem undirritað hefur verið f.h. Ísafjarðarbæjar, með fyrirvara um samþykki bæjarráðs.

Bæjarráð samþykkir ofangreint kauptilboð að upphæð kr. 5.800.000.-

5. Minnisblað bæjarritara. - Viðræður um uppkaup húseigna. 2005-07-0014.

Lagt fram minnisblað bæjarritara dagsett 28. júní s.l., um viðræður við eigendur Silfurgötu 5 á Ísafirði, um hugsanleg kaup Ísafjarðarbæjar á húsinu ásamt eignarlóð.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að halda áfram viðræðum við eigendur Silfurgötu 5, Ísafirði.

6. Bréf Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða. - 50. fundargerð heilbrigðisnefndar. 2005-05-0064.

Lagt fram bréf frá Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða dagsett 27. júní s.l., ásamt 50. fundargerð heilbrigðisnefndar frá 24. júní 2005.

Lagt fram til kynningar.

7. Bréf bæjarritara. - Breytt samþykkt um hundahald í Ísafjarðarbæ. 2005-06-0049.

Lagt fram bréf bæjarritara dagsett 1. júlí s.l., er varðar breytingar á samþykkt um hundahald í Ísafjarðarbæ. Á 436. fundi bæjarráðs þar sem tillögur að breytingum voru lagðar fram, var óskað umsagnar umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar, sem og Heilbrigðis- eftirlits Vestfjarða. Þessar umsagnir liggja nú fyrir og gerðar hafa verið breytingar á áður framlögðum tillögum, til samræmis við þær ábendingar er fram hafa komið.

Björn Davíðsson óskaði svohljóðandi bókunar við 7. lið 439. fundar bæjarráðs.
,,Tillaga um breytingu á samþykkt um hundahald í Ísafjarðarbæ. Auk tillagðra breytinga á samþykktinni, sem fyri eru teknar, verði gerðar eftirfarandi breytingar: Neðst í 8. tölulið 2. grein. bætist við. Hafi eigandi hunds eða eftirlitsaðili ástæðu til að ætla að hundurinn sé grimmur eða varasamur, skal eigandi sjá til þess að hundurinn sé ávallt mýldur utan heimilis síns.
Í 6. grein aftan við ....og starf sitt vegna þess... bætist: Hundaeftirlitsmaður skal sjá um að ávallt séu tiltækar upplýsingar um útgefin hundaleyfi og láta birta á vef Ísafjarðarbæjar. Þar skulu koma fram sömu upplýsingar og eru í hundaleyfinu. Þar á eftir kemur síðari hluti af 6. grein óbreytt."

Magnús Reynir Guðmundson óskaði svohljóðandi bókunar við 7. lið 439. fundar bæjarráðs.
,,Undirritaður telur nánast óframkvæmanlegt að banna hundaeigendum að fara með hunda sína um miðbæ Ísafjarðar. Núgildandi samþykkt gerir ráð fyrir því að hundar gangi ekki lausir, sbr. 8. lið 2. gr. svohljóðandi: Hundur skal aldrei ganga laus á almannafæri, heldur vera í taumi í fylgd með aðila, sem hefur fullt vald yfir honum. Í 9. lið 2. gr. segir svo: Einnig er hundaeiganda skylt að fjarlægja saur eftir hunda sína.
Ef núgildandi samþykkt um hundahald í Ísafjarðarbæ er framfylgt, er ónauðsynlegt að gera breytingar á henni."

Bæjarráð samþykkir að skipa starfshóp, sem hafi það verkefni að endurskoða í heild sinni núgildandi samþykkt um hundahald í Ísafjarðarbæ, í starfshópnum eigi sæti fulltrúi hundaeigenda, fulltrúi sýslumanns og fulltrúi Ísafjarðarbæjar.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að kalla eftir tilnefningum í starfshópinn.

8. Bréf Íþróttasambands Fatlaðra. - Styrkbeiðni. 2005-06-0080.

Lagt fram bréf frá Íþróttasambandi Fatlaðra dagsett 9. júní s.l., en móttekið 28. júní s.l., þar sem óskað er eftir styrk frá Ísafjarðarbæ vegna Norræns barna- og unglingamóts fatlaðra, sem haldið verður í Noregi. Sótt er um styrk til Ísafjarðarbæjar, að upphæð kr. 30.000.-, vegna þátttöku Elmu Guðmundsdóttur og Ragneyjar L. Stefánsdóttur, félaga í Íþróttafélaginu Ívari, Ísafirði.

Bæjarráð samþykkir styrkveitingu að upphæð kr. 30.000.- er færist á bókhalds- lykil nr. 21-81-995-1.

9. Alta ehf., Reykjavík. - Greinargerð og minnisblað vegna íbúaþings í Ísafjarðarbæ. 2004-05-0075.

Lögð fram greinargerð og minnisblað frá Alta ehf., Reykjavík, dagsett 27. júní 2005, vegna íbúaþings í Ísafjarðarbæ, er haldið var í Íþróttahúsinu á Torfnesi 21. maí 2005.

Bæjarráð samþykkir að stýrihópur starfi áfram, til að fylgja eftir niðurstöðum íbúaþings.

10. Minnisblað bæjarritara. - Málefni Neðri Tungu í Skutulsfirði. 2003-01-0079.

Lagt fram minnisblað bæjarritara dagsett 1. júlí s.l., er varðar athugasemdir og ábendingar væntanlegra kaupenda að Neðri Tungu í Skutulsfirði við kaupsamning með afsali og grunnleigusamning, er samþykkt var á 183. fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar þann 2. júní 2005.

Bæjarráð fellst ekki á breytingar á ofangreindum gögnum, sem samþykkt voru á 183. fundi bæjarstjórnar 2. júní 2005. Bæjarráð lítur svo á að verði samningar ekki undirritaðir og gengið frá greiðslu í síðasta lagi þann 15. júlí n.k., verði eignin auglýst til sölu að nýju.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:14

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Birna Lárusdóttir. Björn Davíðsson.

Magnús Reynir Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.