Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

426. fundur

Árið 2005, mánudaginn 21. mars kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Barnaverndarnefnd 17/3. 49. fundur.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Umhverfisnefnd 14/3. 204. fundur.
Fundargerðin er í níu liðum.
Jóhann Birkir Helgason, bæjartæknifræðingur, sat fund bæjarráðs undir umfjöllun fundargerðar umhverfisnefndar.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Bréf bæjarstjóra. - Starfshópur um stefnumótun í tölvumálum Ísafjarðarbæjar. 2005-02-0001.

Lagt fram bréf Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 18. mars s.l., er varðar starfshóp um stefnumótun í tölvumálum Ísafjarðarbæjar og meðfylgjandi bréf Inga Þórs Ágústssonar, formanns starfshópsins, um heimasíðu sveitarfélaga, vinnulag og kostnað. Í lok bréfs síns leggur bæjarstjóri til að farið verði eftir tillögu starfshópsins um að gengið verði til samninga við fyrirtækið Íslensk fyrirtæki ehf. (EC-Web), um nýja veflausn fyrir Ísafjarðarbæ.

Bæjarráð samþykkir tillögu starfshóps um stefnumótun í tölvumálum Ísafjarðarbæjar um nýja veflausn fyrir Ísafjarðarbæ.
Lárus G. Valdimarsson, bæjarfulltrúi S-lista, óskaði bókaða hjásetu sína.

3. Bréf bæjarritara. - Frumvarp til laga um lágmarkslaun. 2005-02-0071.

Lag fram bréf bæjarritara dagsett 18. mars s.l., er varðar umsögn félagsmálanefndar á frumvarpi til laga um lágmarkslaun, þingskjal 334-306. mál. Bæjarráð óskaði eftir á 425. fundi sínum að fá umsögn nefndarinnar. Fram kemur að umsögn félagsmálanefndar er ekki önnur en sú, sem er í bókun nefndarinnar í 4. lið 246. fundargerðar.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að senda umsögn félagsmálanefndar til félagsmálanefndar Alþingis.

4. Minnisblað bæjarritara. - Reiðhöll á norðanverðum Vestfjörðum. 2005-03-0090.

Lagt fram minnisblað bæjarritara dagsett 18. mars s.l., þar sem lauslega er greint frá kynningarfundi er haldinn var þann 9. mars s.l., um reiðhöll á norðanverðum Vestfjörðum. Fundinn sótti f.h. Ísafjarðarbæjar Ragnar Ragnarsson, verkefnisstjóri á tæknideild og fylgir greinargerð hans um fundinn hér með.
Jafnframt er lagður fram tölvupóstur frá Héraðssambandi Vestfirðinga dagsettur 17. mars s.l., þar sem þess er óskað að Ísafjarðarbær tilnefni fulltrúa í nefnd til að vinna málinu framgang.

Bæjarráð óskar eftir að íþrótta- og æskulýðsnefnd tilnefni fulltrúa í nefndina.

5. Umsóknir um byggðakvóta. 2005-03-0042.

Ragnheiður Hákonardóttir vék af fundi við afgreiðslu þessa liðar.

Lagt fram yfirlit um þá aðila er sótt hafa um byggðakvóta þann er féll í hlut Ísafjarðarbæjar samkvæmt reglugerð nr. 960/2004. Alls bárust 27 umsóknir.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að láta vinna úr innkomnum umsóknum.

6. Bréf bæjarritara. - Reglur um auglýsingu og sölu gamalla húsa. 2005-01-0025.

Lagt fram bréf bæjarritara dagsett 17. mars s.l., er varðar reglur um auglýsingu og sölu/afhendingu gamalla húsa í eigu Ísafjarðarbæjar. Bréfinu fylgja drög að þessum reglum, en bæjarráð fól bæjarstjóra á 417. fundi sínu, að móta reglur um ráðstöfun verðlítilla húsa í eigu Ísafjarðarbæjar.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að ofangreindar reglur verði samþykktar.

7. Bréf bæjarritara. - Umsóknir um vínveitingaleyfi. 2005-03-0064.

Lagt fram bréf bæjarritara dagsett 18. mars s.l., er varðar umsóknir um vínveitingaleyfi vegna dansleiks í Félagsheimilinu í Hnífsdal 23.-24. mars n.k. Umsókn frá Gunnari Atla Gunnarssyni er lá fyrir 425. fundi bæjarráðs hefur verið afturkölluð, en fyrir liggur nú umsókn frá Einari Erni Jónssyni, Löngumýri 29, Garðabæ, um vínveitingaleyfi vegna dansleiks í Félagsheimilinu Hnífsdal sömu daga.
Lagt er til að ofangreint leyfi til Einars Arnar Jónssonar verði veitt, en jafnframt verði samþykkt svohljóðandi tillaga.
,, Bæjarráð Ísafjarðarbæjar felur bæjarstjóra að vinna drög að reglum Ísfjarðarbæjar um útgáfu vínveitingaleyfa til annarra en þeirra sem eru með veitingarekstur í Ísafjarðarbæ. Skoða skal vinnulag annarra sveitarfélaga á þessu sviði og huga sérstaklega að stöðu fyrirtækja í Ísafjarðarbæ sem eru með veitingarekstur og greiða þ.a.l. öll gjöld er varða slíkan rekstur.
Bæjarstjóra er jafnframt falið að athuga möguleika á að bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar setji sérstakar reglur vegna farandsölu."

Bæjarráð samþykkir ofangreinda umsókn Einars Arnar Jónssonar um vínveitingaleyfi í Félagsheimilinu í Hnífsdal 23.-24. mars n.k., með tilvísun til veitingaleyfis útgefnu af sýslumanni þann 15. mars s.l.
Bæjarráð samþykkir jafnframt ofangreinda tillögu þar sem bæjarráð felur bæjarstjóra að vinna drög að reglum o.s.fr.

Lárus G. Valdimarsson óskaði bókaða hjásetu sína við ofangreindar afgreiðslur.

8. Bréf Heilbrigðisstofnunarinnar Ísafjarðarbæ. - Samráðasfundur. 2005-03-0069.

Lagt fram bréf frá Heilbrigðisstofnuninni Ísafjarðarbæ dagsett 11. mars s.l., þar sem boðað er til samráðsfundar með sveitarstjórnum á starfssvæði stofnunarinnar þann 7. apríl n.k., í fundarhergergi stofnunarinnar á 1. hæð heilsugæslu á Ísafirði. Ísafjarðarbæ er boðið að senda tvo fulltrúa á fundinn.

Bæjarráð hefur tilnefnt þá Halldór Halldórsson, bæjarstjóra og Guðna G. Jóhannesson, formann bæjarráðs, til að mæta fyrir Ísafjarðarbæ á samráðsfundum með Heilbrigðisstofnuninni Ísafjarðarbæ.

Áheyrnarfulltrúi Magnús Reynir Guðmundsson óskar eftir því að bæjarstjóri fari þess á leit við framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunarinnar Ísafjarðarbæ, að fulltrúi frá minnihluta bæjarstjórnar verði gefinn kostur á að taka þátt í samráðsfundum.

9. Bréf Skipulagsstofnunar. - Sjóvarnir á Þingeyri. 2005-03-0068.

Lagt fram bréf Skipulagsstofnunar dagsett 11. mars s.l., varðandi sjóvarnir utan við höfnina og innan við smábátahöfnin á Þingeyri. Í bréfinu er með tilvísun til laga óskað álits Ísafjarðarbæjar á því hvort ofangreindar framkvæmdir skuli háðar mati á umhverfisáhrifum. Álit óskast sent eigi síðar en 30. mars 2005.

Bæjarráð vísar erindinu til umhverfisnefndar og hafnarstjórnar.

10. Bréf Ellen T'Joen. - Fjarðargata 5, Þingeyri. 2005-03-0070.

Lagt fram bréf frá Ellen T'Joen, Bakkavegi 23, Hnífsdal, dagsett 10. mars s.l., þar sem bréfritari óskar eftir að kaupa húseignina að Fjarðargötu 5 á Þingeyri.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við bréfritara.

11. Bréf Húsafriðunarnefndar ríkisins. - Faktorshús í Neðstakaupstað. 2005-03-0081.

Lagt fram bréf frá Húsafriðunarnefnd ríkisins dagsett 14. mars s.l., þar sem tilkynntur er veittur styrkur að upphæð kr. 500.000.- til endurbóta á Faktorshúsi í Neðstakaupstað á Ísafirði.

Lagt fram til kynningar í bæjarráði og sent menningarmálanefnd til kynningar.

12. Bréf bæjartæknifræðings. - Nýbygging og endurnýjun gatna í Ísafjarðarbæ. 2005-03-0073.

Lagt fram bréf frá Jóhanni Birki Helgasyni, bæjartæknifræðingi, dagsett 14. mars s.l., varðandi nýbyggingu og endurnýjun gatna í Ísafjarðarbæ 2005. Meðfylgjandi eru vinnugögn tæknideildar Ísafjarðarbæjar um nýbyggingu og endurnýjun gatna í Ísafjarðarbæ. Jóhann Birkir Helgason, bæjartæknifræðingur, er mættur á fund bæjarráðs undir þessum lið dagskrár.

Bréf bæjartæknifræðings er til kynningar í bæjarráði.

13. Bréf Samb. ísl. sveitarf. - Ólafsvíkuryfirlýsingin. 2005-03-0084.

Lagt fram bréf frá Samb. ísl. sveitarf. dagsett 16. mars s.l., er varðar Ólafsvíkur- yfirlýsinguna um sjálfbæra þróun. Stýrihópur Staðardagskrár 21 vill gjarnan afla upplýsinga um hvernig hafi gengið að fylgja yfirlýsingunni eftir og hvaða áhrif hún hafi haft á starf viðkomandi sveitarstjórnar á sjálfbærri þróun.

Bæjarráð vísar erindinu til Staðardagskrárnefndar.

14. Bréf Samb. ísl. sveitarf. - Ráðstefna um Staðardagskrá 21. 2005-03-0080.

Lagt fram bréf Samb. ísl. sveitarf. dagsett 15. mars s.l., er varðar ráðstefnu um Staðardagskrá 21, er haldin verður í Kópavogi föstudaginn 29. apríl n.k. Dagskrá ráðstefnunnar verður send út um næstu mánaðarmót.

Bæjarráð vísar erindinu til Staðardagskrárnefndar.

15. Bréf Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. - Framlög til jöfnunar á tekjutapi vegna fasteignaskatts 2005. 2005-03-0086.

Lagt fram bréf Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga dagsett 16. mars s.l., þar sem óskað er eftir upplýsingum vegna væntanlegra framlaga til jöfnunar tekjutapi sveitarfélaga vegna lækkunar tekna af fasteignaskatti 2005.

Lagt fram til kynningar.

16. Fornleifastofnun Íslands. - Skýrsla um fornleifauppgröft á Eyrartúni á Ísafirði. 2005-03-0051.

Lögð fram skýrsla Fornleifastofnunar Íslands um fornleifauppgröft og rannsóknir á Eyratúni á Ísafirði. Skýrslan er um helstu niðurstöður, en uppgröftur hófst á Eyrartúni sumarið 2003.

Lagt fram til kynningar.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:05

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Ragnheiður Hákonardóttir. Lárus G. Valdimarsson.

Magnús Reynir Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.