Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

424. fundur

Árið 2005, mánudaginn 7. mars kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði. Ragnheiður Hákonardóttir mætti til fundar bæjarráðs kl. 17:00

Þetta var gert:

1. Bæjartæknifræðingur og verkefnisstjóri tæknideildar koma til fundar við bæjarráð. - Forgangsröðun viðhalds og framkvæmda.

Til fundar við bæjarráð eru mættir þeir Jóhann Birkir Helgason, bæjartæknifræðingur og Ragnar Ragnarsson, verkefnisstjóri á tæknideild. Til viðræðna um forgangsröðun á viðhaldi eigna Ísafjarðarbæjar á árinu 2005 og framkvæmda á vegum tæknideildar 2005.

Tillaga að forgangsröðun í viðhaldi hjá eignarsjóði er samþykkt af bæjarráði, sem leggur áherslu á að útboðsleiðin verði farin þar sem kostur er.
Drög að framkvæmdaáætlun lögð fram og kynnt. Bæjarráð gerði nokkrar athugasemdir og fól bæjartæknifræðingi að vinna úr þeim og leggj drögin fyrir bæjarráð að nýju.

2. Fundargerðir nefnda.

Barnaverndarnefnd 2/3. 48. fundur.
Fundargerðin er í tveimur liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Íþrótta- og æskulýðsnefnd 3/3. 39. fundur.
Fundargerðin er í tveimur liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

3. Bréf tveggja starfsmanna Slökkviliðs Ísafjarðarbæjar. - Flutningur milli stéttarfélaga. 2005-03-0029.

Lag fram bréf tveggja starfsmanna Slökkviliðs Ísafjarðarbæjar dagsett 4. mars s.l., þar sem tilkynnt er að þeir hafa óskað flutnings úr Félagi opinberra starfsmanna á Vestfjörðum til Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna frá og með 1. apríl 2005. Þess er óskað að Ísafjarðarbær geri þennan flutning mögulegan með því að fela Launanefnd sveitarfélaga umboð f.h. Ísafjarðarbæjar til að semja við LSS.

Bæjarráð samþykkir að fela Launanefnd sveitarfélaga umboð Ísafjarðarbæjar til samninga við Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.

4. Bréf Náttúrustofu Vestfjarða. - Náttúra Vestfjarða og ferðamennska. 2005-03-0016

Lagt fram bréf frá Náttúrustofu Vestfjarða dagsett 1. mars s.l., þar sem greint er frá að áætlað sé að halda ráðstefnu á Ísafirði dagana 15. og 16. apríl n.k., sem ber yfirskriftina ,,Náttúra Vestfjarða og ferðamennska". Áætlaður kostnaður við slíka ráðstefnu getur verið á bilinu ein til tvær milljónir króna. Í bréfinu er óskað eftir styrk frá Ísafjarðarbæ til ráðstefnuhaldsins að upphæð kr. 150.000.-

Bæjarráð óskar umsagnar atvinnumálanefndar.

5. Bréf Orkubús Vestfjarða hf. - Svör við fyrirspurnum. 2005-03-0014.

Lagt fram bréf frá Orkubúi Vestfjarða hf., dagsett 1. mars s.l., þar sem Kristján Haraldsson, orkubússtjóri, svarar fyrirspurnum er lagðar voru fram á 175. fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar þann 3. febrúar s.l.

Lagt fram til kynningar í bæjarráði.

6. Bréf Orkubús Vestfjarða hf. - Vatnsveitustífla í Tungudal. 2005-03-0003.

Lagt fram bréf frá Orkubúi Vestfjarða hf., dagsett þann 28. febrúar s.l., þar sem OV óskar heimildar til að nýta vatnsveitustíflu í Tungudal í Skutulsfirði. Tilgangurinn með nýtingu stíflunnar er vegna vatnsöflunar Tungudalsvirkjunar.

Bæjarráð vísar erindinu til umsagnar umhverfisnefndar.

7. Bréf Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða. - Styrkbeiðni vegna kennslu svæðisleiðsagnar á Vestfjörðum og Snæfellsnesi. 2005-03-0019.

Lagt fram bréf frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða dagsett 1. mars s.l., þar sem Fræðslumiðstöðin óskar eftir styrk frá Ísafjarðarbæ vegna kennslu svæðisleiðsagnar á Vestfjörðum og Snæfellsnesi, sem kennd er af Fræðslumiðstöðinni í samvinnu við Símenntunarmiðstöðina á Vesturlandi. Upphæð styrks gæti t.d. numið kr. 25.000.- per þátttakanda úr sveitarfélaginu, sem eru nú alls átta frá Ísafjarðarbæ.

Bæjarráð telur sér ekki fært að verða við erindinu.

8. Bréf sjávarútvegsráðuneytis. - Reglur Ísafjarðarbæjar um úthlutun byggðakvóta 2005. 2004-09-0006.

Þessi liður dagskrár var tekinn til afgreiðslu í upphafi fundar.

Lagt fram bréf frá sjávarútvegsráðuneytinu dagsett 2. mars s.l., varðandi reglur Ísafjarðarbæjar er gilda skulu um úthlutun aflaheimilda, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 960, 6. desember 2004, um úthlutun á 3.200 þorskígildislestum til stuðnings byggðarlögum. Í bréfinu kemur fram að ráðuneytið hefur fallist á tillögu Ísafjarðarbæjar um úthlutunarreglur og sent þær til birtingar eins og kveðið er á um í 4. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 960/2004.

Bæjarráð samþykkir reglur og auglýsingu Ísafjarðarbæjar um úthlutun byggðakvóta 2005.

9. Bréf Tönsberg kommune. - Nordisk Elevtreff 2005. 2005-03-0021.

Lagt fram bréf Tönsberg kommune, vinabæ Ísafjarðarbæjar í Noregi, dagsett 24. febrúar s.l., þar sem boðið er til Nordisk elevtreff í Tönsberg 27. ágúst til 2. september n.k. Boðið er fimm stúlkum og fimm drengjum.

Bæjarráð vísar erindinu til menningarmálanefndar.

10. Bréf Neyðarhjálpar úr norðri. - Þakkarbréf. 2005-03-0015.

Lagt fram bréf frá Neyðarhjálp úr norðri dagsett 28. febrúar s.l., þar sem þakkað er fyrir framlag til landsöfnunarinnar ,,Neyðarhjálp úr norðri" sem fram fór dagana 11.- 16. janúar s.l. Alls söfnuðust ríflega 110 milljónir króna.

Lagt fram til kynningar.

11. Bréf Samb. ísl. sveitarf. - Kynnisferð til Brussel. 2005-03-0020.

Lagt fram bréf frá Samb. ísl. sveitarf. dagsett 1. mars s.l., er varðar kynnisferð fyrir sveitarstjórnarmenn til Brussel dagana 17.-20. apríl n.k., er sambandið stendur fyrir.

Lagt fram til kynningar.

12. Fjórðungssamband Vestfirðinga. - Byggðaáætlun 2006-2009. 2005-03-0040.

Lagt fram bréf frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga dagsett 1. mars 2005, sem fjallar um Byggðaáætlun 2006-2009, sem iðnaðarráðuneytið hefur falið Byggðastonun að halda utan um gerð á. Í bréfinu er greint frá fundi er Byggðastofnun í samstarfi við iðnaðarráðuneytið hélt þann 18. febrúar s.l., um væntanlega byggðaáætlun.

Bæjarráð óskar umsagnar atvinnumálanefndar.

13. Samb. ísl. sveitarf. - Fundargerð 722. stjórnarfundar. 2002-02-0044.

Lögð fram fundargerð stjórnar Samb. ísl. sveitarf. frá 722. fundi er haldinn var þann 18. febrúar s.l., að Borgartúni 30, Reykjavík.

Lagt fram til kynningar.

14. Bréf Lánasjóðs sveitarfélaga. - Ársfundur 2005. 2005-03-0030.

Lagt fram bréf frá Lánasjóði sveitarfélaga dagsett 3. mars 2005, þar sem boðað er til fyrsta ársfundar Lánasjóðs sveitarfélaga þann 18. mars n.k., er haldinn verður á Nordica Hotel í Reykjavík og hefst kl. 15:00 Fundurinn er boðaður með dagskrá.

Lagt fram til kynningar.

15. Bréf leikskólastjóra Ísafjarðarbæjar. - Mötuneyti leikskóla. 2005-01-0029.

Lagt fram bréf frá leikskólastjórum Ísafjarðarbæjar dagsett 3. mars s.l., þar sem þeir árétta afstöðu sína gagnvart rekstri eldhúsa í leikskólum Ísafjarðarbæjar og þeirra tillagna sem fjármálastjóri Ísafjarðarbæjar hefur nú lagt fram. Það er eindreginn vilji leikskólastjóra Ísafjarðarbæjar, að eldhúsin verði áfram innan leikskólanna og vega þar fyrst og fremst fagleg sjónarmið. Í lok bréfsins er því beint til bæjarráðs að farið verði eftir tillögum VST, enda sé sú skýrsla ítarleg og vel unnin að þeirra mati.

Bæjarráð bendir á að málefni mötuneyta grunn- og leikskóla Ísafjarðarbæjar sé nú í vinnslu hjá bæjarstjóra.

16. Háskólasetur Vestfjarða. - Skipulagsskrá -Viðskiptaáætlun. - Stofnfundur þann 12. mars 2005. 2005-01-0027.

Á fundi bæjarráðs lagði Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, fram drög að skipulagsskrá og viðskiptaáætlun fyrir Háskólasetur Vestfjarða, sem er frá starfshópi um Þekkingarsetur. Fyrirhugað er að halda stofnfund laugardaginn 12. mars n.k. Menntamálaráðuneytið hefur óskað eftir því að Ísafjarðarbær standi fyrir stofnfundinum, sem væntanlegur stofnaðili. Bæjarstjóri leggur til við bæjarráð, að orðið verði við þeirri beiðni og Ísafjarðarbær gerist stofnaðili og tilnefni fulltrúa sinn í stjórn Háskólaseturs.

Bæjarráð samþykkir að standa fyrir stofnfundinum, að beiðni menntamálaráðuneytis og gerast stofnaðili. Jafnframt tilnefnir bæjarráð Halldór Halldórsson, bæjarstjóra, fulltrúa Ísafjarðarbæjar í stjórn Háskólaseturs Vestfjarða og verði Lárus G. Valdimarson varamaður hans.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 20:10

Þorleifur Pálsson, ritari.

Ragnheiður Hákonardóttir, formaður bæjarráðs.

Svanlaug Guðnadóttir. Lárus G. Valdimarsson.

Magnús Reynir Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.