Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

416. fundur

Árið 2004, miðvikudaginn 29. desember kl. 15:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Starfshópur um skipulagsmál á hafnarsvæði Ísafjarðar 27/12. 3. fundur.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Staðardagskrárnefnd 16/12. 21. fundur.
Fundargerðin er í tveimur liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Bréf félagsmálaráðuneytis. – Jöfnunarsjóður sveitarfélaga. 2004-02-0055.

Lagt fram bréf frá félagsmálaráðuneyti dagsett 17. desember s.l., er varðar setningu fjáraukalaga fyrir árið 2004 og markaðar viðbótartekjur til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna uppreiknings á framlagi sjóðsins úr ríkissjóði fyrir árið 2004. Með tilvísun til þessa samþykkti ráðgjafanefnd Jöfnunarsjóðsins, að leggja til hækkun á úthlutun útgjaldajöfnunarframlaga og framlaga til jöfnunar á tekjutapi sveitarfélaga vegna lækkunar tekna af fasteignaskatti.

Lagt fram til kynningar. Bréfinu vísað til fjármálastjóra.

3. Bréf Gámaþjónustu Vestfjarða. – Lýsing í hesthúsahverfi og við starfsstöð Gámaþjónustunnar í Engidal. 2004-12-0042.

Lagt fram bréf Gámaþjónustu Vestfjarða ehf., Ísafirði, dagsett 21. desember s.l., er varðar ljósastaura í hesthúsahverfi og starfsstöð Gámaþjónustu Vestfjarða í Engidal. Í bréfinu óskar fyrirtækið eftir að það fái svipaða þjónustu hvað varðar lýsingu á svæðinu, eins og áhugamannafélag, sem er að koma sér fyrir á þessu svæði.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við bréfritara.

4. Bréf Lýðheilsustöðvar. – Kynningarbæklingur. 2004-12-0062.

Lagt fram bréf Lýðheilsustöðvar dagsett 6. desember s.l., ásamt kynningar-bæklingi um verkefnið er ber heitið ,,Allt hefur áhrif, einkum við sjálf". Bréfinu er ætlað að vekja athygli sveitarstjórna á verkefninu, en frekara samstarf er hins vegar háð ákvörðun sveitarstjórna á hverjum stað.

Bæjarráð vísar erindinu til íþrótta- og æskulýðsnefndar.

5. Bréf Siglingastofnunar. – Yfirlitsskýrsla um sjóvarnir. 2004-12-0063.

Lagt fram bréf frá Siglingastofnun dagsett 16. desember s.l., ásamt endurskoðaðri skýrslu um sjóvarnir. Skýrslan byggir á yfirlitsskýrsku um sjóvarnir sem var gefin út árið 2002. Inngangskafli og sérkafli um einstök sveitarfélög, er sendur öllum sveitarfélögum sem fjallað er um í skýrslunni.

Bæjarráð vísar bréfinu til hafnarstjórnar og umhverfisnefndar.

6. Bréf Félags skipstjórnarmanna. – Umboð til kjarasamningsgerðar. 2004-12-0038.

Lagt fram bréf frá Félagi skipstjórnarmanna dagsett 13. desember s.l., þar sem félagið óskar eftir því að Ísafjarðarbær viðurkenni samningsrétt þess í komandi kjarasamningum við sveitarfélögin, gagnvart þeim félagsmönnum sínum, sem starfa hjá Ísafjarðarbæ í störfum við hafnsögu, stjórn hafnrekinna báta og við önnur störf hafna, þar sem skipstjórnarmenntunar er krafist.

Bæjarráð tekur ekki afstöðu til erindisins, þar sem enginn starfsmaður Ísafjarðarbæjar er í ofangreindu félagi. Ekki hefur borist beiðni frá starfsmönnum Ísafjarðarbæjar um inngöngu í Félag skipstjórnarmanna.

7. Bréf Landeigendafélags Sléttu- og Grunnavíkurhrepps. – Ferðir á Hornstrandir frá Ísafirði næsta sumar. 2004-12-0055.

Lagt fram bréf frá Landeigendafélagi Sléttu- og Grunnavíkurhrepps dagsett 22. desember s.l., varðandi ferðir frá Ísafirði til Hornstranda næsta sumar. Í bréfinu er óskað eftir viðræðum við Ísafjarðarbæ, um það ástand er skapast við að Hornstrandir ehf. hafa lagt niður áætlunarferðir til Hornstranda á komandi sumri.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við fulltrúa félagsins.

8. Bréf Skipulagsstofnunar. – Byggingarfulltrúar. 2004-12-0053.

Lagt fram bréf frá Skipulagsstofnun dagsett 21. desember s.l., er varðar skipan byggingarfulltrúa sveitarfélaga og tilkynningu um skipan þeirra til Skipulagsstofnunar.

Bæjarráð vísar bréfinu til bæjartæknifræðings.

9. Bréf Bensínorku ehf. – Lóðamál á Skeiði, Skutulsfirði. 2004-11-0027.

Lagt fram bréf frá Bensínorku ehf., Reykjavík, dagsett 20. desember s.l., þar sem félagið lýsir vilja sínum til að standa straum af kostnaði við nauðsynlegar breytingar á skipulagi svo og framkvæmdum þeim sem því kunna að fylgja, svo heimild fáist til að setja upp sjálfsafgreiðslustöð Bensínorku ehf., á lóðinni Skeiði 1, Ísafirði.

Bæjarráð tekur jákvætt í erindið og felur bæjarstjóra að ræða við bréfritara.

10. Skíðasvæði Ísafjarðarbæjar. – Tillaga að gjaldskrá 2005. 2003-12-0065.

Lögð fram tillaga að gjaldskrá fyrir skíðasvæði Ísafjarðarbæjar í Tungudal og Seljalandsdal tímabilið 1. janúar – 15. maí 2005. Tillöguna undirrita Björn Helgason, íþrótta- og æskulýðsfulltrúi og Jóhann Torfason, forstöðumaður skíðasvæðis.

Bæjarráð vísar tillögunni til íþrótta- og æskulýðsnefndar til umfjöllunar.

11. Bréf Náttúrustofu Vestfjarða. – Skýrsla um starfsemi og framtíðarstefnu. 2004-12-0051.

Lagt fram bréf frá Náttúrustofu Vestfjarða dagsett 17. desember s.l., ásamt skýrslu um starfsemi stofunnar, hvað hefur áunnist og hvað mætti betur fara. Jafnframt má finna í skýrslunni tillögur að framtíðarstefnu stofunnar.

Allar athugasemdir og ábendingar eru vel þegnar svo stofnunin geti vaxið og dafnað og sinnt hlutverki sínu betur í þjónustu við almenning og sveitarfélög á starfsvæði sínu, sem eru allir Vestfirði.

Lagt fram til kynningar.

12. Byggðakvóti. – Bréf bæjarstjóra, tölvubréf ráðuneytisstjóra. - Tillögur að breytingu. 2004-09-0006.

Lagt fram bréf Halldórs Halldórssonar bæjarstjóra, dagsett 28. desember s.l., er varðar úthlutun byggðakvóta og samþykkt bæjarráðs frá 415. fundi 20. desember s.l., sem og tillögu til breytingar. Tillaga bæjarstjóra ásamt rökstuðningi er svohljóðandi.
,,Tillagan er sú að 120 tonnin skiptist jafnt milli Flateyrar og Suðureyrar, þ.e. 60 tonn komi í hlut hvers byggðarlags og verði úthlutað til fiskvinnslu hvors staðar. Kambur á Flateyri fái 60 tonn og Íslandssaga á Suðureyri fái 60 tonn. Skilyrði er að aflanum sé landað til vinnslu á staðnum og viðkomandi leggi jafnmikið á móti, þ.e. tvöfaldi byggðakvótann.
Þessi tillaga er í samræmi við samþykkt bæjarstjórnar um að úthluta byggðakvóta Byggðastofnunar fyrir yfirstandandi fiskveiðiár til Suðureyrar, Flateyrar og Þingeyrar. Byggðastofnun kaus að úthluta öllum kvótanum til Þingeyrar engu að síður. Þessi tillaga er einnig í samræmi við þá ákvörðun bæjarstjórnar á sínum tíma að úthluta byggðakvóta Byggðastofnunar til einnar vinnslu á Þingeyri gegn því að kvótinn væri tvöfaldaður.
Undirritaður sér ekki ástæðu til að gera sérstaka tillögu varðandi Þingeyri og Hnífsdal enda engar nýjar upplýsingar komið fram varðandi úthlutun á þeim tveimur stöðum, því hlýtur ákvörðun bæjarráðs frá 20. desember að standa varðandi þá staði. Hins vegar er rétt að leggja áherslu á að ekki sé úthlutað til báta sem hugsanlega hafa verið seldir í burtu á tímabilinu þó þeir séu skráðir í viðkomandi byggðarlagi 1. september sl. og að aflanum sé landað til vinnslu í viðkomandi byggðarlagi og byggðakvótinn tvöfaldaður af viðkomandi.
Eins og fyrr segir eru upplýsingar frá ráðuneytisstjóra komnar fram eftir fund bæjarráðs þann 20. desember sl. Á þeim fundi var undirritaður með þær upplýsingar að 120 tonnin væru hugsuð til Flateyrar og Suðureyrar en hafði ekki staðfestingu ráðuneytisins á þeim upplýsingum. Þar sem þær liggja fyrir er eðlilegt að taka málið til endurskoðunar í bæjarráði enda er fresturinn til að gera tillögu að úthlutunarreglum til ráðuneytisins ekki ennþá liðinn."

Jafnframt er lagt fram tölvubréf Vilhjálms Egilssonar, ráðuneytisstjóra, er varðar úthlutun byggðakvótans frá sjávarútvegsráðuneytinu.

Magnús Reynir Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi, lagði fram svohljóðandi bókun.
,,Tel ekki þörf á að Fjölnir á Þingeyri og Hraðfrystihúsið Gunnvör fái úthlutun af þeim 210 þorskígildistonnum, sem bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar er ætlað að gera tillögur um að þessu sinni. Fyrrnefnd fyrirtæki hafa fengið sérstaka úthlutun áður og eru ekki í jafn mikilli þörf fyrir aðstoð í formi byggðakvóta eins og ýmsir smærri aðilar í bæjarfélaginu."

Bæjarráð komst að þeirri niðurstöðu að bæjarstjórn þurfi að taka ákvörðun í málinu og vísar því til fundar bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar er haldinn verður þann 30. desember n.k. kl. 12:00

Lárus G. Valdimarsson, bæjarráðsmaður, lagði fram svohljóðandi bókun.
,,Bókun við tillögu bæjarstjóra við 12. lið fundargerðar bæjarráðs. Undirritaður fulltrúi Samfylkingar í bæjarráði telur að sú tillaga sem meirihluti bæjarráðs leggur fram um úthlutun 120 tonna ,,uppbótakvóta" til tveggja nafngreindra fiskvinnslufyrirtækja sérkennilega með hliðsjón af forsögu þessa máls í heild sinni. Fram kemur í greinagerð og gögnum að það hafi ávallt verið skilningur ráðuneytisins að þessum kvóta yrði úthlutað, af bæjarstjórn, til tveggja byggðarkjarna í jöfnum hlutföllum. Spurningin er því sú hvers vegna ráðuneytið úthlutaði ekki þessum kvóta beint með þeim hætti í stað þess að leggja fyrir bæjarstjórn Ísafjarðaræbjar með hvaða hætti tillögur hennar væru ráðuneytinu þóknanlegar ! Hvenær mun skrípaleiknum í kringum ,,kvótapotta" linna ?! Fátt lýsir betur þeim ömurleika sem fylgt hefur núverandi aflamarkskerfi betur en þessi málatilbúnaður allur. Undirritaður getur ekki tekið þátt í þessum skrípaleik með stjórnvöldum og hafnar því alfarið að bæjaryfirvöld einstakra byggðarlaga séu dregin inn í ákvörðunartöku af þessu tagi." Undirritað af Lárusi G. Valdimarssyni.

13. Bréf bæjarstjóra. – Brekkuhúsið í Hnífsdal. 2004-11-0042.

Lagt fram bréf Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 28. desember s.l., er varðar kauptilboð Lindu Jónsdóttur í Hnífsdal í svokallað Brekkuhús í Hnífsdal. Bréfi bæjarstjóra fylgir afrit bréfs Lindu Jónsdóttur frá 9. desember s.l., greinargerð um fyrirætlan hennar við endurbætur og rekstur á Brekkuhúsi.

Bæjarráð frestar afgreiðslu erindisins að sinni.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 16:50

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Ingi Þór Ágústsson. Lárus G. Valdimarsson.

Magnús Reynir Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.