Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

414. fundur

Árið 2004, mánudaginn 13. desember kl. 15:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2005.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, lagði fram drög að fjárhagsáætlun bæjarsjóðs Ísafjarðarbæjar og stofnana hans fyrir árið 2005. Þórir Sveinsson, fjármálastjóri, mætti á fund bæjarráðs undir þessum lið.

Bæjarráð vísar frumvarpi að fjárhagsáætlun bæjarsjóðs Ísafjarðarbæjar og stofnana hans fyrir árið 2005, til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar þann 16. desember n.k.

Magnús Reynir Guðmundsson lét bóka, að hann áskilur sér rétt til að leggja fram og eða fylgja breytingartillögum, er fram kunna að koma, við umfjöllun frumvarpsins.

2. Fundargerðir nefnda.

Atvinnumálanefnd 9/12. 50. fundur.
Fundargerðin er í fjórum liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Barnaverndarnefnd 8/12. 41. fundur.
Fundargerðin er í tveimur liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Félagsmálanefnd 7/12. 240. fundur.
Fundargerðin er í fimm liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Menningarmálanefnd 7/12. 108. fundur.
Fundargerðin er í fjórum liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Umhverfisnefnd 8/12. 199. fundur.
Fundargerðin er í sex liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Þróunar- og starfsmenntunarsjóður Ísafjarðarbæjar 6/12. 14. fundur.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

3. Viðræður formanns bæjarráðs og bæjarstjóra við ráðherra vegna framtíðar Orkubús Vestfjarða. 2004-12-0016.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs og Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, gerðu grein fyrir viðræðum sínum við forsætisráðherra, fjármálaráðherra, iðnaðarráðherra og samgönguráðherra, um framtíð og horfur hvað varðar Orkubú Vestfjarða og hugmyndir um sameiningu Landsvirkjunar, Rariks og Orkubúsins.

4. Bréf bæjarstjóra. – Tillögur frá bæjarstjórum í sjávarbyggðum. 2004-12-0017.

Lagt fram bréf Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, til bæjarráðs dagsett 9. desember s.l., er varðar tillögur frá bæjarstjórum í sjávarbyggðum, um aðgerðir vegna tekjuþróunar sem þarf að leiðrétta. Tillögurnar ganga út á að rétta af hag sjávarbyggða með breytingum á lögum um stjórn fiskveiða og lögum um félagslegar íbúðir. Með bréfinu fylgja ofangreindar tillögur.

Lagt fram til kynningar.

5. Bréf Samb. ísl. sveitarf. – Álagningsprósenta útsvars. 2003-12-0025.

Lagt fram bréf frá Samb. ísl. sveitarf. dagsett 3. desember s.l., er varðar álagnings- prósentu útsvars fyrir tekjuárið 2005 og ákvarðanir sveitarfélaga um prósentuhlutfall úrsvars í hverju sveitarfélagi. Hámarks útsvar er 13,03% en lágmark 11,24%
Tilkynna verður fjármálaráðuneyti eigi síðar en 15. desember n.k. um ákvörðun hvers sveitarfélags.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að tilkynna álagningsprósentu Ísafjarðarbæjar 13,03%, til fjármálaráðuneytis.

6. Bréf nefndar um sameiningu sveitarfélaga. – Umsagnarfrestur um sameiningartillögur. 2004-01-0103.

Lagt fram bréf frá nefnd um sameiningu sveitarfélaga dagsett 3. desember s.l., þar sem þau sveitarfélög er ekki hafa sent umsagnir um sameiningartillögur, eru hvött til að gera það nú þegar. Enn fremur kemur fram í bréfinu að þann 1. desember s.l., var haldinn fundur Verkefnisstjórnar átaks um eflingu sveitarstjórnarstigsins, sameininganefndar og tekjustofnanefndar. Þar kom fram eindreginn vilji og einhugur meðal fulltrúa ríkis og sveitarfélaga, til þess að halda vinnu við sameiningartillögur áfram samkvæmt fyrirliggjandi áætlun.

Lagt fram til kynningar.

7. Afrit bréfs bæjarlögmanns til lögmanns Bensínorku ehf. 2002-12-0046.

Lagt fram afrit bréfs Andra Árnasonar hrl., bæjarlögmanns, til Einars Þ. Sverrissonar hdl., lögmanns Bensínorku ehf., dagsett 2. desember s.l. Bréfið varðar fyrirspurn lögmanns Bensínorku ehf., varðandi ákvörðun Ísafjarðarbæjar um lóðaúthlutanir fyrir sjálfsafgreiðslustöðvar með bensín og díselolíu á Ísafirði.

Lagt fram til kynningar.

8. Bréf bæjarstjóra Bolungarvíkurkaupstaðar. – Fundur um sameiginleg hagsmunamál. 2002-08-0058.

Lagt fram bréf frá Einari Péturssyni, bæjarstjóra Bolungarvíkurkaupstaðar, dagsett 6. desember s.l., þar sem hann svarar jákvætt bréfi Ísafjarðarbæjar, um sameiginlegann fund sveitarfélaga á norðanverðum Vestfjörðum, um samgöngumál og önnur sameiginleg hagsmunamál sveitarfélaganna.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að koma á fundi sveitarfélaganna sem fyrst.

9. Afrit bréfs Ríkiskaupa til fjármálaráðuneytis. – Grunnskólinn á Núpi. 2004-05-0004.

Lagt fram afrit bréfs Ríkiskaupa til fjármálaráðuneytis dagsett 30. nóvember s.l., þar sem gerð er grein fyrir kauptilboði er borist hefur í grunnskólahúsnæðið á Núpi í Dýrafirði, frá Rnes ehf., að fjárhæð kr. 1.700.000.-

Bæjarráð leggur til fyrir sitt leiti að ofangreindu kauptilboði verði hafnað. Jafnframt óskar bæjarráð skýringar á því hvers vegna eignin var auglýst að nýju og hvort rætt hafi verið við fyrri tilboðsgjafa.

10. Bréf sjávarútvegsráðuneytis. – Úthlutun 3.200 þorskígildistonnum. 2004-09-0006.

Lagt fram bréf frá sjávarútvegsráðuneytinu dagsett 6. desember s.l., þar sem ráðuneytið tilkynnir að gefin hafi verið út reglugerð um úthlutun á 3.200 þorskígildistonnum til stuðnings byggðarlögum og fylgir bréfinu ljósrit af reglugerðinni.
Samkvæmt þeim forsendum sem lagðar eru til grundvallar í reglugerðinni, til skiptingar þessara 3.200 þorskígildistonna, koma 210 þorskígildistonn samtals í hlut Ísafjarðarbæjar á yfirstandandi fiskveiðiári og skiptast þannig:
Ísafjarðarbær 120 þorskígildist. Hnífsdalur 30 þorskígildist. Þingeyri 60 þorskígildist.
Tillögur sveitarfélagsins um reglur er gildi um úthlutun aflaheimilda til einstakra skipa, á þeim 210 þorskígildistonnum er komu í hlut Ísafjarðarbæjar alls, skulu hafa borist ráðuneytinu fyrir 1. janúar n.k.

Ragnheiður Hákonardóttir óskaði bókað, að hún taki ekki þátt í umræðum né ákvarðanatöku vegna þessa liðar.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að vinna tillögur Ísafjarðarbæjar að skiptingu ofangreindra aflaheimilda og leggja fyrir bæjarráð.

11. Bréf fjármálastjóra. – Mánaðarskýrsla, rekstur og fjárfestingar fyrir mánuðina janúar – október 2005. 2004-08-0046.

Lagt fram bréf Þóris Sveinssonar, fjármálastjóra, dagsett 9. desember s.l., mánaðarskýrsla um rekstur og fjárfestingar tímabilið janúar – október 2004.

Lagt fram til kynningar.

12. Bréf Golfklúbbs Ísafjarðar. – Ársreikningur 1. október 2003 – 30. september 2004 og ársskýrslur. 2004-12-0005.

Lagt fram bréf Golfklúbbs Ísafjarðar dagsett 7. desember s.l., ásamt ársreikningi Golfklúbbsins fyrir tímabilið 1. október 2003 til 30. september 2004. Jafnframt fylgja ársskýrslur stjórnar, vallarnefndar og mótanefndar.

Lagt fram til kynningar.

13. Bréf Samb. ísl. sveitarf. – Staðardagskrá 21 á Norðurheimskautssvæðinu. 2004-12-0006.

Lagt fram bréf Samb. ísl. sveitarf. dagsett 3. desember s.l., ásamt skýrslu um helstu verkefni og niðurstöður, um Staðardagskrá 21 á Norðurheimskautssvæðinu, en verkefnið var kostað af Norrænu ráðherranefndinni. Á árunum 2000-2003 tók Ísafjarðarbær þátt í verkefninu auk Sisimiut á Grænlandi og Longyerbyen á Svalbarða.

Lagt fram til kynningar í bæjarráði. Sent Staðardagskrárnefnd til kynningar.

14. Trúnaðarmál.

Lagt fram trúnaðarmál og fært til bókar í trúnaðarmálabók bæjarráðs.

15. Bréf Hvetjanda hf. eignarhaldsfélags. – Boðun hluthafafundar með dagskrá. 2004-12-0018.

Lagt fram bréf frá Hvetjanda hf. eignarhaldsfélagi, dagsett 13. desember 2004, þar sem boðað er til hluthafafundar í félaginu þann 28. desember n.k. kl. 13:00 á Hótel Ísafirði. Fundurinn er boðaður með dagskrá.

Bæjarráð samþykkir að bæjarstjóri sæki fundinn fyrir hönd Ísafjarðarbæjar og fari með atkvæðisrétt bæjarins á fundinum. Bæjarfulltrúar hafi heimild til að sækja fundinn.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:38

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Ragnheiður Hákonardóttir. Lárus G. Valdimarsson.

Magnús Reynir Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.