Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

407. fundur

Árið 2004, mánudaginn 18. október kl. 8:00 árdegis kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Barnaverndarnefndar 13/10. 37. fundur.
Fundargerðin er í tveimur liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Fræðslunefnd 12/10. 203. fundur.
Fundargerðin er í þrettán liðum.
2. liður. Bæjarráð vísar þessum lið til gerðar fjárhagsáætlunar ársins 2005.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Hafnarstjórn 12/10 95. fundur.
Fundargerðin er í níu liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Umhverfisnefnd 13/10. 195. fundur.
Fundargerðin er í átta liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Bréf íþrótta- og æskulýðsfulltrúa. - Púttvöllur við Fjórðungssjúkrahúsið á Ísafirði. 2004-10-0033.

Lagt fram bréf Björns Helgasonar, íþrótta- og æskulýðsfulltrúa, dagsett 14. október s.l., varðandi púttvöll við Fjórðungssjúkrahúsið á Ísafirði. Bréfinu fylgir afrit af reikningi frá Golfklúbbi Ísafjarðar vegna kostnaðar við að koma púttvellinum upp og umhirðu. Íþrótta- og æskulýðsfulltrúi óskar heimildar bæjarráðs á greiðslu viðkomandi reiknings, þar sem kostnaður við gerð púttvallar er ekki á fjárhagsáætlun ársins 2004.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við aðila og ganga frá málinu.

3. Bréf Fjórðungssambands Vestfirðinga. - Fundir stjórnar með sveitarstjórnarmönnum. 2004-10-0034.

Lagt fram bréf frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga dagsett 8. október s.l., þar sem boðað er til fundar sveitarstjórnarmanna með stjórn FV samkvæmt dagskrá. Fundur stjórnar með bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar verður mánudaginn 18. október 2004 í fundarsal bæjarstjórnar og hefst kl. 15:15

Lagt fram til kynningar.

4. Bréf Vegagerðarinnar. - Lækkun hámarkshraða á Djúpvegi frá Ísafjarðarflugvelli að Hafrafellshálsi. 2004-09-0072.

Lagt fram bréf frá Vegagerðinni dagsett 13. október s.l., varðandi beiðni Ísafjarðarbæjar um lækkun hámarkshraða á Djúpvegi frá Ísafjarðarflugvelli að Hafrafellshálsi í Skutulsfirði samkvæmt bréfi dagsettu 20. september s.l.
Vegagerðin telur ekki rétt að svo komnu að leggja til að hámarkshraði á ofangreindum vegi verði lækkaður úr 90 km/klst. í 60 km/klst.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við forsvarsmenn Vegagerðarinnar um málið á grundvelli samþykktar bæjarstjórnar frá 166. fundi þann 16. september s.l.

5. Drög að samningi um rekstur félagsstarfs aldraðra á Flateyri. 2004-09-0045.

Lögð fram að nýju drög að samningi milli Ísafjarðarbæjar og Sigríðar Magnús- dóttur, um rekstur félagsstarfs aldraðra á Flateyri. Drögum að samningi hafði áður verið vísað af bæjarstjórn til umsagnar félagsmálanefndar og hefur samningsdrögum verið breytt vegna umsagnar nefndarinnar.

Bæjarráð samþykkir samningurinn með þeim breytingum að 5. grein falli niður og 6. grein verði 5. grein o.s.fv.

6. Bréf félagsmálaráðuneytis. - Hækkun hámarkslána Íbúðalánasjóðs. 2004-10-0035.

Lagt fram bréf félagsmálaráðuneytis dagsett 12. október s.l., er fjallar um hækkun hámarkslána Íbúðalánasjóðs vegna kaupa á notuðum íbúðum og nýbygginga. Jafnframt kemur fram í bréfinu að félagsmálaráðherra mun á næstu dögum leggja fram frumvarp til laga um breytingar á lögum um húsnæðismál nr. 44/1998 þar sem lagt er til að lánshlutfall almennra íbúðalána hækki í 90% af kaupverði íbúða. Við þær breytingar fellur niður greiðsla sveitarfélaga á ábyrgðargjaldi vegna viðbótarlána svo og umsýsla með lánveitingum til einstaklinga.

Lagt fram til kynningar.

7. Bréf félagsmálaráðuneytis. - Ráðgjafanefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. 2004-05-0021.

Lagt fram bréf frá félagsmálaráðuneyti dagsett 8. október s.l., þar sem tilkynnt er að ráðgjafanefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hafi samþykkt á fundi sínum þann 29. september s.l., tillögu að heildarúthlutun framlags vegna jöfnunar á tekjutapi sveitarfélaga vegna lækkunar tekna af fasteignaskatti skv. reglugerð nr. 80/2001 með síðari breytingum. Félagsmálaráðherra hefur samþykkt tillögu ráðgjafanefndarinnar. Framlag vegna jöfnunar á tekjutapi sveitarfélaga í kjölfar breytinga á álagningarstofni fasteignaskatta nemi alls á árinu 2004 1.588 milljónum króna. Endanlegt framlag til Ísafjarðarbæjar er kr. 85.105.534.-

Jafnframt er lagt fram bréf frá félagsmálaráðuneyti dagsett 8. október s.l., þar sem greint er frá staðfestingu ráðherra á tillögu ráðgjafanefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga að tekjujöfnunarframlagi til sveitarfélaga á árinu 2004. Samkvæmt útreikningi er fylgir á sér blaði með bréfi félagsmálaráðuneytis, kemur í ljós að ekkert tekjujöfnunarframlag kemur í hlut Ísafjarðarbæjar.

Lagt fram til kynningar.

8. Bréf Björns Baldurssonar. - Ábending um breytingar á reglugerð um vinnumarkaðsaðgerðir. 2004-10-0036.

Lagt fram bréf Björns Baldurssonar, ótiltekið heimilisfang, dagsett 14. október s.l., er varðar ábendingar um breytingu á reglugerð nr. 670/1998 um vinnumarkaðsaðgerðir, en ábendingunni verður beint til félagsmálaráðuneytis á næstunni. Bréfinu fylgir ofangreind ábending.

Lagt fram til kynningar.

9. Bréf Hestamannafélagsins Hendingar. - Aðstaða í Engidal, reiðvöllur. - Lýsing við hesthúsabyggð í Engidal. 2002-10-0054.

Lögð fram tvö bréf frá Hestamannafélaginu Hendingu á Ísafirði dagsett þann 14. október s.l. Annað bréfið varðar aðstöðu í Engidal þar sem félagið sækir um styrk til framkvæmda við reiðvöll. Áætlaður kostnaður er á bilinu 15-17 milljónir króna. Í hinu bréfinu er þess óskað að lokið verði við framkvæmdir við lýsingu við hesthúsabyggð í Engidal, en framkvæmdir eru nú þegar vel á veg komnar, en þarf að ljúka sem fyrst þar sem hér er um mikilvægt öryggismál að ræða.

Bæjarráð vísar báðum erindum Hestamannafélagsins Hendingar til íþrótta- og æskulýðsnefndar. Bæjarráð óskar eftir að afrit af samningi Ísafjarðarbæjar við Hendingu fylgi með ofangreindum bréfum til íþrótta- og æskulýðsnefndar.

10. Bréf Aurora Experience. - Boð um þátttöku í nýstárlegu ferðaþjónustuverkefni. 2004-10-0025.

Lagt fram ódagsett bréf frá Aurora Experience undirritað af Jóhanni Ísberg, þar sem Ísafjarðarbæ er boðin þátttaka í verkefnahópi um skipulagningu ferðaþjónustu tengda norðurljósaskoðun. Farið er fram á að tilnefndur verði fulltrúi í verkefnahópinn auk veitts stuðnings að upphæð kr. 100.000.- til undirbúnings. Jafnframt lagt fram bréf Rúnars Óla Karlssonar, ferðamálafulltrúa, varðandi málið.

Bæjarráð vísar erindinu til atvinnumálanefndar.

11. Trúnaðarmál.

Trúnaðarmál rætt og fært til bókar í trúnaðarmálabók bæjarráðs.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 9:55

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Ragnheiður Hákonardóttir. Kolbrún Sverrisdóttir.

Magnús Reynir Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.