Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

403. fundur

Árið 2004, mánudaginn 20. september kl.17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Byggingarnefnd íþróttahúss á Suðureyri 6/9 10. fundur.
Fundargerðin er í tveimur liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Fræðslunefnd 14/9. 200. fundur.
Fundargerðin er í átta liðum.
1. liður. Bæjarráð ræddi stöðu mála varðandi ný hafið verkfall kennara í grunnskólum.
7. liður. Vegna fjárhagsáætlunarvinnu, sem framundan er, felur bæjarráð bæjarstjóra að taka saman greinargerð um stöðu mála hjá leikskólum Ísafjarðarbæjar og leggja fyrir bæjarráð.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Íþrótta- og æskulýðsnefnd 15/9. 30. fundur.
Fundargerðin er í sex liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Starfskjaranefnd 13/9.
Fundargerðin er í einum lið.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Tillaga S-lista um úthlutun lóðar undir sjálfsafgreiðslustöð, vísað frá bæjarstjórn til bæjarráðs. 2002-12-0046.

Lögð fram tillaga S-lista ásamt greinargerð, er borin var fram á fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar þann 16. september s.l. undir 2. lið 193. fundargerðar umhverfisnefndar og vísað var til bæjarráðs. Tillagan er svohljóðandi. ,,Með vísan til 5. liðar fundargerðar bæjarráðs frá 16. ágúst sl., þar sem fram kemur umsókn Atlantsolíu ehf., Kópavogi, um lóð undir sjálfsafgreiðslustöð fyrir bensín og díselolíu, samþykkir bæjarstjórn að Atlandsolíu verði gefinn kostur á lóð sem þeir sækja um á Skeiði í Skutulsfirði."

Bæjarráð frestar afgreiðslu tillögunnar þar til fyrir liggur álit bæjarlögmanns vegna úthlutana lóða til allra þeirra aðila er sótt hafa um aðstöðu fyrir sjálfsafgreiðslustöðvar.

3. Bréf Veðurstofu Íslands. - Gliðnun sprungu í Óshyrnu. 2004-09-0017.

Lagt fram minnisblað frá Veðurstofu Íslands dagsett 31. ágúst s.l., er varðar gliðnun sprungu efst í Óshyrnu ofan Óshlíðarvegar. Minnisblaðið er eftir Esther Hlíðar Jensen og Jóhann Hannibalsson.

Lagt fram til kynningar. Bæjarráð tekur undir með skýrsluhöfundum um að eftirlit verði virkt með þessari gliðnun.

4. Bréf Héraðssambands Vestfirðinga. - Skíðheimar á Seljalandsdal.

Lagt fram bréf frá stjórn Héraðssambands Vestfirðinga dagsett 16. september s.l., þar sem óskað er eftir að ákvæði um niðurrif Skíðheima á Seljalandsdal, samkvæmt samningi frá 24. mars 2004, verði fellt niður. Ástæðan er sú að einstaklingur hefur sýnt áhuga á að halda húsinu við á sinn kostnað.

Bæjarráð hafnar beiðni HSV og telur að málinu hafi verið að fullu lokið við gerð samnings aðila frá 24. mars 2004.

5. Bréf Samb. ísl. sveitarf. - Minnisblað um boðað verkfall kennara í grunnskólum. 2004-09-0057.

Lagt fram bréf frá Samb. ísl. sveitarf. dagsett 7. september s.l. og undirritað af Sigurði Óla Kolbeinssyni, þar sem fram kemur að hann hafi tekið saman meðfylgjandi minnisblað um boðað verkfall kennara í grunnskólum.

Bæjarráð vísar bréfinu ásamt minnisblaði til Skóla- og fjölskylduskrifstofu til kynningar.

6. Drög að vinnuferli við fjárhagsáætlun 2005. 2004-04-0071.

Lögð fram drög að vinnuferli við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2005. Í ofangreindum drögum kemur fram að undirbúningur að fjárhagsáætlun 2005 sé nú þegar hafinn og stefnt er að samþykkt fjárhagsáætlun ársins 2005 á fyrri fundi bæjarstjórnar í desember n.k.

Bæjarráð samþykkir drög að vinnuferli við fjárhagsáætlun 2005.

7. Bréf Kristjáns Kristjánssonar. - Fremri-Hnífsdalur, vegamál ofl. 2004-09-0056.

Lagt fram bréf frá Kristjáni Kristjánssyni, Bakkavegi 15, Hnífsdal, dagsett 14. september s.l., ásamt yfirlýsingu undirritaðri af Kristjáni og bæjarstjóra Ísafjarðarkaupstaðar dagsettri 30. september 1991. Í yfirlýsingunni er kveðið á um vegabætur fram í Fremri-Hnífsdal, þannig að vegurinn verði öllum bílum greiðfær. Kristján heldur því fram að á þeim árum sem liðið hafa frá undirritun yfirlýsingarinnar hafa engar vegabætur átt sér stað og óskar efnda.

Bæjarráð óskar umsagnar bæjartæknifræðings um erindið.

8. Bréf Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða. - Fundargerð heilbrigðisnefndar. -  Starfsskýrsla Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða 2003. 2002-01-0184. 2004-09-0024.

Lagt fram bréf Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða dagsett 13. september s.l., ásamt 44. fundargerð heilbrigðisnefndar Vestfjarða frá 10. september s.l. Bréfinu fylgir jafnframt starfsskýrsla Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða fyrir árið 2003, er lögð var fram á fundinum.

Lagt fram til kynningar.

9. Greinargerð vinnuhóps um öryggismál Djúpvegar milli Súðavíkur og Bolungarvíkur.

Lagt fram bréf Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 17. september s.l., ásamt greinargerð vinnuhóps um öryggismál Djúpvegar milli Súðavíkur og Bolungarvíkur. Í vinnuhópnum voru Ólafur Kristjánsson, Friðgerður Baldvinsdóttir, Gísli Eiríksson og Jón Helgason. Greinargerðin er frá því í nóvember 2002.

Bæjarráð tekur undir orð bæjarstjóra í ofangreindu bréfi og leggur áherslu á, að full ástæða er fyrir sveitarfélögin á þessu svæði, að knýja á um að jarðgöng eru eini raunhæfi valkosturinn m.t.t. öryggis í samgöngumálum hér á milli byggðarlaga. Sveitarfélögin eiga að taka saman höndum um að setja jarðgöng milli Ísafjarðar og Súðavíkur annars vegar og Ísafjarðar og Bolungarvíkur hins vegar á svæðisskipulag. Bættar og öruggar samgöngur styrkja Ísafjörð sem byggðakjarna fyrir Vestfirði.

Bæjarráð óskar eftir fundi með Bolungarvíkurkaupstað og Súðavíkurhreppi vegna samgöngumála og annara sameiginlegra hagsmunamála.

10. Bréf Nýsis. - Byggðakvóti fiskveiðiárið 2004/2005. 2002-09-0106.

Lagt fram bréf frá Stefáni Þórarinssyni, ráðgjafa hjá Nýsi, dagsett 1. september s.l., þar sem fram kemur byggðakvóti er Byggðastofnun hefur til ráðstöfunar á yfirstandandi fiskveiðiári 2004/2005. Í hlut Ísafjarðarbæjar munu koma á þessu fiskveiðiári alls 193 þorskígildistonn og hyggst Byggðastofnun ráðstafa honum til Þingeyrar eins og undanfarin ár, með tilvísun til samkomulags Fiskvinnslunnar Fjölnis hf., Vísis hf., Ísafjarðarbæjar og Byggðastofnunar dagsettu 14. ágúst 1999. Í bréfinu er óskað eftir því að Ísafjarðarbær láti í ljós álit sitt á því hvort skilyrði fyrrgreinds samnings og afleiddra samninga hafi verið efnd á síðasta fiskveiðiári og hvort forsendur séu fyrir því að úthluta aftur á grundvelli þeirra til sömu aðila.

Bæjarráð tekur að sinni ekki afstöðu til fyrirspurnarinnar og felur bæjarstjóra að óska eftir því við bréfritara, að úthlutun fari ekki fram án tillagna Ísafjarðarbæjar, þar sem ofangreindur samningur frá 14. ágúst 1999 er útrunninn.

Bæjarstjóri upplýsti í tengslum við þetta mál að hann hafi nú hafið undirbúning Ísafjarðarbæjar að umsókn um byggðakvóta er sjávarútvegsráðuneytið úthlutar eftir 1.október n.k. Gögn í málinu verða lögð fyrir næsta fund bæjarráðs.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:40

Þorleifur Pálsson, ritari.

Ragnheiður Hákonardóttir, formaður bæjarráðs.

Svanlaug Guðnadóttir. Lárus G. Valdimarsson.

Magnús Reynir Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.