Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

402. fundur

Árið 2004, mánudaginn 13. september kl.17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Félagsmálanefnd 7/9 233. fundur.
Fundargerðin er í fjórum liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Fræðslunefnd 30/8. 199. fundur.
Fundargerðin er í tólf liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Hafnarstjórn 8/9. 94. fundur.
Fundargerðin er í tveimur liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Starfskjaranefnd 7/9.
Fundargerðin er í þremur liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Umhverfisnefnd 8/9. 193. fundur.
Fundargerðin er í sex liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Skipan fulltrúa í starfshóp um byggingu hjúkrunarheimilis á Ísafirði. 2002-12-0030.

Lagt fram bréf frá Heilbrigðisstofnuninni Ísafjarðarbæ dagsett 1. september s.l., þar sem tilkynnt er að stofnunin hafi tilnefnt Þröst Óskarsson, framkvæmdastjóra, fulltrúa sinn í starfshóp um byggingu hjúkrunarheimilis.
Jafnframt er lagt fram bréf frá stjórn eldri borgara á Ísafirði, dagsett 3. september s.l., þar sem tilkynnt er að Jón Fanndal Þórðarson sé fulltrúi félags eldri borgara á Ísafirði í starfshópi um byggingu hjúkrunarheimilis.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, upplýsti að Helga Sigurjónsdóttir hefur verið tilnefnd sem fulltrúi Súðavíkurhrepps í starfshópi um byggingu hjúkrunarheimilis.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn, að Kolbrún Sverrisdóttir, varabæjarfulltrúi, Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs og Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, verði fulltrúar Ísafjarðarbæjar í starfshópi um byggingu hjúkrunarheimilis.

3. Bréf Samb. ísl. sveitarf. - Starfsemi meindýraeyða. 2004-09-0042.

Lagðar fram bréf Samb. ísl. sveitarf. dagsett 2. september s.l., er varðar svar sambandsins við erindi Félags meindýraeyða frá 29. júní 2004. Í framangreindu bréfi félagsins kemur fram að aðilar án réttinda annist garðaúðun og meindýraeyðingu þrátt fyrir að hafa ekki til þess tilskilin leyfi og jafnframt að heilbrigðisnefndir sveitarfélaga hafi ekki beitt sér nægilega gegn slíkri ólögmætri háttsemi.

Bæjarráð vísar erindinu til umhverfisnefndar.

4. Bréf Jarðanefndar N-Ísafjarðarsýslu. - Nes í Grunnavík, sala jarðarhluta. 2004-06-0005.

Lagt fram bréf frá Aðalsteini Valdimarssyni, Strandseljum, formanni Jarðanefndar N-Ísafjarðarsýslu, ritað á Lárentíusarmessu 2004. Bréfið er svar nefndarinnar við fyrirspurn um hvort gerð sé athugasemd við sölu jarðarhluta úr Nesi í Grunnavík. Jarðanefndin gerir ekki athugasemd við sölu jarðarhlutans.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að forkaupsrétti að jarðarhlutanum úr Nesi í Grunnavík verði hafnað.

5. Bréf Samb. ísl. sveitarf. - Fjármálaráðstefna sveitarfélaga 2004. 2004-09-0031.

Lagt fram bréf frá Samb. ísl. sveitarf. dagsett 3. september s.l., þar sem tilkynnt er að fjármálaráðstefna sveitarfélaga verður haldin á Nordica Hótel í Reykjavík mánudaginn 1. og þriðjudaginn 2. nóvember n.k.

Bæjarráð ásamt bæjarstjóra og fjármálastjóra munu sækja ráðstefnuna fyrir hönd Ísafjarðarbæjar.

6. Bréf Fasteigna Ísafjarðarbæjar ehf. - Aðalfundur 2004. 2004-09-0043.

Lagt fram bréf Fasteigna Ísafjarðarbæjar ehf., dagsett 7. september s.l., þar sem boðað er til aðalfundar félagsins fyrir starfsárið 2003, þann 27. september n.k. kl. 15:00 á 4. hæð í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði. Dagskrá samkvæmt samþykktum félagsins og önnur mál sem löglega eru upp borin.

Bæjarráð bendir á að bæjarfulltrúar eiga seturétt á fundinum.

7. Bréf Boltafélags Ísafjarðar. - Rekstur íþróttasvæðis á Torfnesi. 2004-09-0044.

Lagt fram bréf frá Boltafélagi Ísafjarðar dagsett 8. september s.l., þar sem greint er frá að rekstrarsamningur á milli Ísafjarðarbæjar og BÍ um rekstur á íþróttasvæðinu á Torfnesi á Ísafirði sé laus til endurskoðunar. Óskað er eftir endurnýjun á rekstrarsamningnum. Bréfinu fylgir rekstraryfirlit um íþróttasvæðið á Torfnesi tímabilið október 2003 - september 2004.

Bæjarráð felur bæjarstjóra, í samstarfi við íþrótta- og æskulýðsnefnd, að ganga til viðræðna við HSV og BÍ, um rekstur íþróttasvæðisins á Torfnesi, Ísafirði.

8. Undirskriftarlisti. - Strætisvagnaskýli við Pollgötu og Seljalandsveg. 2004-09-0024.

Lagður fram undirskriftarlisti frá nokkrum íbúum Ísafjarðarbæjar móttekinn þann 7. september s.l., þar sem óskað er eftir að Ísafjarðarbær komi upp skýlum við stoppistöðvar strætisvagna í Ísafjarðarbæ við Pollgötu og á Seljalandsvegi á Ísafirði.

Bæjarráð vísar til samþykktar sinnar frá 24. maí s.l., þar sem bæjarráð fól tæknideild að koma upp biðskýli við Pollgötu á Ísafirði.
Bæjarráð felur tæknideild að gera kostnaðaráætlun fyrir uppsetningu biðskýla þar sem þeirra er þörf í Ísafjarðarbæ.

9. Félagsstarf aldraðra á Flateyri. - Drög að samningi um rekstur. 2004-09-0045.

Lagt fram minnisblað Þóris Sveinssonar, fjármálastjóra, ásamt drögum að samningi Ísafjarðarbæjar og Sigríðar Magnúsdóttur, Kirkjubóli í Valþjófsdal, Önundarfirði, um rekstur á félagsstarfi aldraðra á Flateyri.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að samningurinn verði samþykktur.

10. Bréf menntamálaráðuneytis. - Upplýsingamiðlun í fjölmenningarsamfélagi. 2004-09-0005.

Lagt fram bréf frá menntamálaráðuneyti dagsett 27. ágúst s.l., svar við erindi Ísafjarðarbæjar o.fl., varðandi beiðni um styrk til þróunarverkefnis um gagnvirka miðlun upplýsinga í fjölmenningarlegu samfélagi. Menntamálaráðuneytið hefur ákveðið að veita styrk í verkefnið að fjárhæð kr. 500.000.-
Bréfinu fylgir minnisblað um verkefnið dagsett 2. júlí s.l., er sent var heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti.

Bæjarráð lýsir ánægju sinni með þróunarverkefnið um gagnvirka miðlun upplýsinga í fjölmenningarlegu samfélagi.

11. Fundur fjárlaganefndar Alþingis með sveitarstjórnarmönnum. 2004-09-0021.

Lögð fram tilkynning frá fjárlaganefnd Alþingis dagsett 4. september s.l., til sveitarstjórnarmanna, þar sem fram kemur að sveitarstjórnarmönnum er gefin kostur á að eiga fund með nefndinni vegna fjárlagaársins 2005 dagana 27. og 28. september n.k.

Bæjarstjóri upplýsti að formaður bæjarráðs og bæjarstjóri munu mæta á fund nefndarinnar 28. september n.k.

12. Bænaskjal. - Ástand götu og vatnslagna á Hlíðarvegi, Ísafirði. 2004-09-0046.

Lagt fram bænaskjal frá íbúum við Hlíðarveg á Ísafirði, móttekið þann 9. september s.l., þar sem náðarsamlegast er farið á leit við bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, að nú þegar verði brugðist við því ófremdar ástandi Hlíðarvegar, sem íbúarnir verða að búa við.

Bæjarráð vísar erindinu til vinnu við gerðar fjárhagsáætlunar fyrir árið 2005 og felur tæknideild að vinna verk- og kostnaðaráætlun vegna nauðsynlegra endurbóta á Hlíðarvegi á Ísafirði.

13. Önnur mál utan boðaðrar dagskrár.

Lækkun hámarkshraða á vegi milli vegamóta við Ísafjarðarflugvöll að Hafrafellshálsi.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að óskað verði eftir við Vegagerðina, að hámarkshraði frá vegamótum við Ísafjarðarflugvöll að Hafrafellshálsi, sem í dag er 90 km, verði lækkaður í 60 km.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:55

Þorleifur Pálsson, ritari.

Ragnheiður Hákonardóttir, formaður bæjarráðs.

Svanlaug Guðnadóttir. Lárus G. Valdimarsson.

Magnús Reynir Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.