Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

374. fundur

Árið 2004, mánudaginn 26. janúar kl.17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Á fund bæjarráðs mættu rektor Viðskiptaháskólans á Bifröst ásamt fylgdarliði svo og nefnd um Háskólamál á Vestfjörðum.

Á fund bæjarráðs er mættur að eigin ósk Runólfur Ágústsson, rektor Viðskiptaháskólans á Bifröst, ásamt Ásu Björk Stefánsdóttur, verkefnisstjóra fjar- og meistaranáms og Hólmfríði Sveinsdóttur, verkefnisstjóra rannsókna og upplýsingamála, sem einnig eru frá Viðskiptaháskólanum. Jafnframt eru nefndarmenn í nefnd um háskólamál á Vestfjörðum, þau Smári Haraldsson, Aðalsteinn Óskarsson og Guðrún Stella Gissurardóttir mætt á fundinn. Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, á jafnframt sæti í nefnd um háskólamál á Vestfjörðum.

Runólfur Ágústsson, rektor, kynnti uppbyggingu og starfsemi Viðskiptaháskólans á Bifröst og möguleika hans til að styrkja háskólastarf á landsbyggðinni.

2. Fundargerðir nefnda.

Barnaverndarnefnd 21/1. 23. fundur.
Fundargerðin er í tveimur liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Félagsmálanefnd 20/1. 219. fundur.
Fundargerðin er í fimm liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Fræðslunefnd 20/1. 184. fundur.
Fundargerðin er í átta liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Menningarmálanefnd 20/1. 98. fundur.
Fundargerðin er í þremur liðum.
1. liður. Tillaga menningarmálanefndar um sögusýningu samþykkt.
1. liður. Tillaga menningarmálanefndar um málþing samþykkt.
3. liður. Tillaga menningarmálanefndar samþykkt.
Aðrir liðir lagðir fram til kynningar.

3. Bréf Skóla- og fjölskylduskrifstofu. - Trúnaðarmál. 2003-06-0018.

Lagt fram bréfi frá Skóla- og fjölskylduskrifstofu dagsett 19. janúar s.l., sem farið er með sem trúnaðarmál í bæjarráði að ósk bréfritara.

Bæjarráð samþykkir erindi Skóla- og fjölskylduskrifstofu.

4. Bréf bæjarstjóra. - Snjóflóðavörn við Funa.

Lagt fram bréf Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 22. janúar s.l., er varðar snjóflóðavörn við Funa og snjóflóð er féll á hana nú fyrir skömmu. Í bréfi bæjarstjóra er lýsing Tómasar Jóhannessonar hjá Veðurstofu Íslands á flóðinu og því hversu vel snjóflóðavörnin hefur virkað.

Lagt fram til kynningar.

5. Bréf bæjarstjóra. - Gjaldskrá vegna kattahalds í Ísafjarðarbæ. 2002-12-0011.

Lagt fram bréf Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 22. janúar s.l., þar sem bæjarstjóri gerir tillögu til bæjarráðs að gjaldskrá vegna samþykktar um kattahald í Ísafjarðarbæ, er samþykkt var á fundi bæjarstjórnar þann 23. október 2003 og staðfest af umhverfisráðuneyti þann 8. desember 2003. Lagt er til að gjaldið verði kr. 1.500.- á ári og innifelur ábyrgðartryggingu, kostnað við merkingu og umsýslukostnað.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að tillaga bæjarstjóra að gjaldskrá verði samþykkt.

6. Bréf bæjarstjóra. - Skákfélagið Hrókurinn.

Lagt fram bréf Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 23. janúar s.l., þar sem hann gerir grein fyrir heimsókn Hrafns Jökulssonar, Skákfélaginu Hróknum. Hrókurinn og bókaútgáfan Edda hafa gefið öllum nemendum í þriðja bekk í grunnskólum Ísafjarðarbæjar bókina ,,Skák og mát" og er þetta annað árið sem þessir aðilar gefa öllum nemendum í þriðja bekk þessa bók. Hrafn Jökulsson óskar eftir samstarfi við Ísafjarðarbæ um að vinna að framgangi skákíþróttarinnar.

Bæjarráð lýsir yfir vilja til samstarfs og vísar bréfinu til Skóla- og fjölskylduskrifstofu og atvinnu- og ferðamálafulltrúa.

7. Bréf Sparisjóðs Vestfirðinga. 2004-01-0034.

Lagt var fram tölvubréf frá Sparisjóði Vestfirðinga dagsett 21. janúar s.l., undirritað af Eiríki Finni Greipssyni, þar sem stuðningur Ísafjarðarbæjar við sparisjóðina í landinu er þakkaður.
Ennfremur óskar bréfritari eftir formlegum viðræðum við bæjarstjóra um samskipti sjóðsins við bæjarsjóðs og undirfyrirtækja bæjarins.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að fara í þessar viðræður.

8. Bréf Sólrisunefndar MÍ. - Styrkbeiðni. 2004-01-0064.

Lagt fram bréf Sólrisunefndar MÍ dagsett 12. janúar s.l., þar sem m.a. er greint frá að Sólrisuhátíð Menntaskólans á Ísafirði, sem nú verður haldin er sú þrítugasta í röðinni. Sólrisunefnd óskar eftir styrk frá Ísafjarðarbæ til að halda hátíðina, styrk er samsvari kostnaði við leigu á íþróttahúsinu á Torfnesi, Ísafirði, áætlaður kostnaður kr. 200 þúsund.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að Sólrisunefnd verði veittur umbeðinn styrkur.

9. Bréf félagsmálaráðuneytis. - Starfshópur um þjónustu við innflytjendur á Íslandi. 2004-01-0060.

Lagt fram bréf félagsmálaráðuneytis dagsett 21. janúar s.l., þar sem greint er frá skipan starfshóps á vegum ráðuneytisins er fjalla á um þjónustu við innflytjendur á Íslandi. Hópinn skipa Ásta S. Helgadóttir,sem er formaður, Árni Gunnarsson, Hákon Gunnarsson, Elsa Arnardóttir og Kristrún Kristinsdóttir. Boðað er til fundar hópsins mánudaginn 26. janúar 2004 kl. 13:00 og var Halldóri Halldórssyni, bæjarstjóra, boðið að sitja þann fund. Vegna anna bæjarstjóra mætir Einar Kristinn Guðfinnsson, alþingismaður, á fundinn að beiðni bæjarstjóra.

Lagt fram til kynningar.

10. Bréf Siglingastofnunar. - Sjóvarnaframkvæmdir 2004. 2004-01-0051.

Lagt fram bréf Siglingastofnunar dagsett 17. janúar s.l., er varða sjóvarna- framkvæmdir 2004. Á árinu eru á fjárlögum kr. 74,7 milljónir til sjóvarna og það sem kemur í hlut Ísafjarðarbæjar af þeirri fjárhæð eru kr. 6,3 milljónir, sem áætlaðar eru til framkvæmda við sjóvarnir á Flateyri. Mótframlag Ísafjarðarbæjar er kr. 0,8 milljónir.

Bæjarráð vísar bréfinu til hafnarstjórnar.

11. Afrit bréfs bæjarstjóra til Skeljungs, afrit Olíudreifing. - Lóðamál olíufélaganna á Ísafirði. 2002-08-0027.

Lagt fram afrit af bréfi Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, til Skeljungs og Olíudreifingar, dagsett 22. janúar 2004, varðandi lóðamál olíufélaganna á Ísafirði. Í bréfi bæjarstjóra kemur fram að sótt hafi verið um lóð á Suðurtanga, lóð sem gert er ráð fyrir í gildandi deiliskipulagi að sé undir olíubirgðastöð. Í bréfinu fer bæjarstjóri fram á að hætt verði við olíubirgðarstöð á þessari lóð, en hugað verði frekar að staðsetningu olíubirgðarstöðvar við Sundahöfn. Bæjarstjóri óskar eftir svari olíufélaganna innan 14 daga frá dagsetningu bréfsins.

Lagt fram til kynningar.

12. Afrit bréfs byggingarfulltrúa til Verkfrst. Sig Thoroddsen hf. - Leki á þaki sundlaugar á Flateyri.

Lagt fram afrit af bréfi Stefáns Brynjólfssonar, byggingarfulltrúa, til Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen hf., Ísafirði, dagsett 22. janúar s.l. og varðar leka í og við þak á sundlaug Flateyrar. Í bréfinu fer byggingarfulltrúi fram á að leitað verði skýringa hönnuðar verksins, byggingarstjóra og eftirlitsmanna á hugsanlegum ástæðum fyrir þaklekanum og jafnframt fá fram tillögur um leiðir til úrbóta. Tekið er fram í bréfi byggingarfulltrúa að Ísafjarðarbær áskilur sér allan rétt til bóta.

Lagt fram til kynningar.

13. Afrit bréfa Siglingastofnunar til Hornstranda ehf. og Ferðaþjónustu Grunnavíkur ehf. - Styrkir til lendingarbóta. 2004-01-0049.

Lögð fram afrit af bréfum Siglingastofnunar til Hornstranda ehf. og Ferðaþjónustu Grunnavíkur ehf. dagsett 12. janúar s.l., þar sem gerð er grein fyrir heildarstyrkjum til lendingarbóta á fjárlögum 2004 og fyrr og þeim fjárhæðum er fallið hafa í hluta ofangreindra aðila.

Lagt fram til kynningar.

14. Bréf frá Ungmennafélagi Íslands. - Tillögur frá sambandsþingi. Þakkir til Ísafjarðarbæjar. 2004-01-0048

Lagt fram bréf frá Ungmennafélagi Íslands dagsett 12. janúar s.l., þar sem fram koma tvær tillögur er samþykktar voru á sambandsþingi UMFÍ er haldið var á Sauðár- króki 18. og 19. október 2003.
Önnur tillagan fjallar um að tryggja öldruðum aðstöðu til íþróttaiðkunar. Hin tillagan fjallar um að hvetja sveitarfélög, ungmenna- og íþróttafélög til að vinna markvisst að því að fegra umhverfi við íþróttavelli og önnur íþróttamannvirki.
Jafnframt er lagt fram bréf frá Ungmennafélagi Íslands dagsett 12. janúar s.l., þar sem greint er frá svohljóðandi samþykktri tillögu á sambandsþingiu. ,,43. sambandsþing UMFÍ haldið 18.-19. október 2003 á Sauðárkrókki þakkar bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar fyrir góðar móttökur á 6. Unglingalandsmóti UMFÍ sem haldið var 1.-3. ágúst 2003 og fagnar þeirri miklu uppbyggingu sem hefur orðið á íþróttamvnnvirkjum á svæðinu."

Bæjarráð vísar ofangreindum bréfum til íþrótta- og æskulýðsnefndar.

15. Bréf Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða. - Eftirlit í fyrirtækjum. 2004-01-0050.

Lagt fram bréf Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða dagsett 16. janúar s.l., ásamt lista yfir fyrirtæki sem fengið hafa eftirlit frá HV. Um er að ræða viðbót við áður sendann lista yfir fyrirtæki, lista sem sendur var eftir fund heilbrigðisnefndar þann 26. september 2003.

Bæjarráð vísar bréfinu til fjármálastjóra.

16. Fjórðungssamband Vestfirðinga. - Kynningarfundur um eflingu sveitarstjórnarstigsins.

Lögð fram tilkynning frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga, um kynningarfund fyrir sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum, um eflingu sveitarstjórnarstigsins. Fundurinn verður haldinn á Hótel Ísafirði fimmtudaginn 29. janúar n.k. og hefst kl. 20:00

Bæjarráð felur bæjarritara að senda bréf til bæjarfulltrúa, aðal- og varamanna.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:05

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Birna Lárusdóttir. Bryndís G. Friðgeirsdóttir.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.

Magnús Reynir Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi.