Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

368. fundur

Árið 2003, mánudaginn 15. desember kl.17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Atvinnumálanefnd 12/12. 38. fundur.
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að kosin verði þriggja manna stjórn fyrir nýtt eignarhaldsfélag, með tilvísun til samþykktar bæjarstjórnar frá 151. fundi þann 3. desember s.l.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Menningarmálanefnd 11/12. 95. fundur.
Fundargerðin er í fimm liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Umhverfisnefnd 10/12. 177. fundur.
Fundargerðin er í þrettán liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Bréf Svæðisvinnumiðlunar Vestfjarða. - Atvinnuleysisskráningar.  2003-12-0031.

Lagt fram bréf frá Svæðisvinnumiðlun Vestfjarða dagsett 3. desember s.l., ásamt samningi um atvinnuleysisskráningar fyrir tímabilið 1. janúar 2004 til 31. desember 2005. Samningurinn nær til skráninga á Suðureyri og Þingeyri. Í bréfinu kemur fram að það er von Svæðisvinnumiðlunar að Ísafjarðarbær sjái sér fært að endurnýja núgildandi samning um atvinnuleysisskráningar.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við bréfritara.

3. Bréf Héraðssambands Vestfirðinga. - Samningur við BÍ. 2002-04-0032.

Lagt fram afrit af bréfi Héraðssambands Vestfirðinga dagsett 8. desember s.l., til íþrótta- og æskulýðsnefndar Ísafjarðarbæjar, þar sem stjórn HSV lýsir yfir ánægju með samning Boltafélags Ísafjarðar við Ísafjarðarbæ um rekstur íþróttasvæðisins á Torfnesi. Í bréfinu gagnrýnir stjórn HSV vinnuferil við gerð samningsins og telur að HSV, sem aðila að þessum þríhliða samningi, eigi skilyrðislaust að fá samninginn til umfjöllunar um leið og aðrir aðilar samningsins á öllum stigum málsins.

Bæjarráð óskar eftir fundi með formanni íþrótta- og æskulýðsnefndar, formanni og framkvæmdastjóra HSV og íþrótta- og æskulýðsfulltrúa.

4. Bréf Götusmiðjunnar. - Beiðni um framlag til rekstrar. 2003-12-0028.

Lagt fram bréf frá Götusmiðjunni í Reykjavík dagsett í nóvember 2003, þar sem sótt er um framlag til rekstrar meðferðarheimilis, sem er með starfsemi sína að Árvöllum á Kjalarnesi.

Bæjarráð vísar erindinu til Skóla- og fjölskylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar.

5. Flugmálastjórn Íslands. - Fyrirhuguð flugslysaæfing. 2003-12-0029.

Lagt fram afrit bréfs Flugmálastjórnar Íslands til sýslumannsins á Ísafirði dagsett 8. desember s.l., er varðar fyrirhugaða flugslysaæfingu er halda á í maí 2004 hér á Ísafirði.

Lagt fram til kynningar.

6. Bréf Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða. - Fundargerð heilbrigðisnefndar. 2002-01-0184.

Lagt fram bréf frá Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða dagsett 8. desember s.l., ásamt fundargerð heilbrigðisnefndar frá 40. fundi er haldinn var þann 5. desember s.l.

Lagt fram til kynningar.

7. Bréf Valgerðar Jónsdóttur. - Forkaupsréttur Skóga og Horns í Arnarfirði. 2003-12-0036.

Lagt fram bréf frá Valgerði Jónsdóttur, Kórsölum 3, Kópavogi, dagsett 5. desember s.l., þar sem hún spyrst fyrir um hvort Ísafjarðarbær muni neyta forkaupsréttar vegna sölu jarða sinna Skóga og Horns í Mosdal í Arnarfirði, en Valgerður er að selja jarðirnar til barna sinna. Bréfinu fylgir afrit af afsali svo og samhljóða bréfi þessu afrit af bréfi til Jarðanefndar V-Ísafjarðarsýslu.

Bæjarráð frestar erindinu þar til umsögn jarðanefndar V-Ísafjarðarsýslu liggur fyrir.

8. Bréf umhverfisráðuneytis. - Samþykkt um kattahald í Ísafjarðarbæ. 2003-03-0034.

Lagt fram bréf frá umhverfisráðuneyti dagsett 9. desember s.l., ásamt samþykkt um kattahald í Ísafjarðarbæ, sem ráðuneytið hefur staðfest samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998.

Lagt fram til kynningar.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:00

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Birna Lárusdóttir. Bryndís G. Friðgeirsdóttir.

Magnús Reynir Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi.