Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

365. fundur

Árið 2003, mánudaginn 24. nóvember kl.13:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal á 4. hæð í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fjárhagsáætlun 2004. - Sviðsstjórar komu til fundar við bæjarráð.

Lögð fram gögn vegna vinnu við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2004. Halldór Halldórsson, bæjarstjóri og Þórir Sveinsson, fjármálastjóri, fóru yfir gögnin með fulltrúum í bæjarráði.

Til fundar við bæjarráð kom kl. 14:00 Ingibjörg María Guðmundsdóttir, forstöðumaður Skóla- og fjölskylduskrifstofu og var farið sérstaklega yfir þann hluta fjárhagsáætlunar er tilheyrir Skóla- og fjölskylduskrifstofu.
Kl. 15:00 kom til fundar við bæjarráð Sigurður Mar Óskarsson, bæjartæknifræðingur og yfirmaður umhverfissviðs. Farið var yfir þann þátt fjárhagsáætlunar er tengist umhverfissviði.
Á fund bæjarráðs kl. 16:00 kom Guðmundur M. Kristjánsson, hafnarstjóri og var farið yfir þátt hafnarsviðs í fjárhagsáætlanagerðinni fyrir árið 2004.

2. Fundargerðir nefnda.

Umhverfisnefnd 19/11. 176. fundur.
Fundargerðin er í tíu liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

3. Bréf Fasteignamats ríkisins. - Endurmat á Sundstræti 36, Ísafirði. 2003-06-0072.

Lagt fram bréf frá Fasteignamati ríkisins dagsett 19. nóvember s.l., þar sem fram kemur rökstuðningur við lækkun fasteignamats á húseigninni Sundstræti 36, Ísafirði, samanber úrskurð stofnunarinnar frá 23. júní 2003. Ísafjarðarbær hafði óskað eftir ofangreindum rökstuðningi í bréfi þann 3. júlí 2003.

Bæjarráð felur byggingarfulltrúa að kæra matið til yfirfasteignamatsnefndar.

4. Listaskóli Rögnvaldar Ólafssonar. - Rekstrarstyrkur 2004. 2003-11-0063.

Lagt fram bréf frá Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar, Ísafirði, dagsett 18. nóvember s.l., þar sem lítillega er greint frá rekstri skólans og fjölda nemenda. Í bréfinu er óskað eftir hækkun á rekstrarstyrk frá Ísafjarðarbæ til skólans á árinu 2004.
Fram kemur í bréfinu að þann 5. desember n.k. eru liðin tíu ár frá formlegri stofnun skólans.

Bæjarráð samþykkir að farið verði í endurskoðun á aðkomu Ísafjarðarbæjar að tónlistarnámi og öðru listnámi í bæjarfélaginu. Bæjarráð felur bæjarstjóra og fræðslunefnd að hefja endurskoðun.

Lárus G. Valdimarsson lagði fram svohljóðandi bókun við 4. lið 365. fundar bæjarráðs. ,,Undirritaður fulltrúi Samfylkingar, telur mikilvægt að bæjaryfirvöld sýni í verki stuðning sinn við sjálfstætt starfandi menningarstarfsemi eins og kostur er hverju sinni. Menningarmiðstöðin Edinborg er ein af skrautfjöðrum hinna þriggja menningarhúsa og því verður að tryggja að þar verði starfrækt öflug menningarstarfsemi. Menningarhús án menningar stendur aldrei undir nafni. Listaskóli Rögnvaldar Ólafssonar er ein af meginstoðum þeirrar menningarstarfsemi sem fram fer í Edinborgarhúsinu og ber því að skoða fyrirliggjandi erindi í því ljósi."

5. Bréf Jónasar Inga Árnasonar. - Sala fasteignarinnar Sundstræti 14, 2h norðurendi, Ísafirði. 2003-11-0072.

Lagt fram bréf frá Jónasi Inga Árnasyni, Sundstræti 14, Ísafirði, dagsett þann 19. nóvember s.l., þar sem þess er óskað að Ísafjarðarbær skoði það hvort bærinn muni kaupa íbúð bréfritara að Sundstræti 14, Ísafirði, en íbúðin er til sölu hjá Lögfræðiskrifstofu Tryggva Guðmundssonar á Ísafirði.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við bréfritara.

6. Bréf bæjarritara. - Samþykkt menningarmálanefndar vegna fjárhagsáætlunar 2004.

Lagt fram bréf bæjarritara dagsett 19. nóvember s.l., þar sem hann gerir grein fyrir tillögu menningarmálanefndar til fjárhagsáætlunar ársins 2004. Í tillögunni kemur fram að menningarmálanefnd leggur til að ráðinn verði menningar- og upplýsingafulltrúi í 50% starf. Auk þess að sinna þeim málaflokkum fyrir bæjarfélagið, sæi þessi starfsmaður um vinnslu allra umsókna um styrki til ríkisins svo og stofnana og sjóða hérlendis sem og erlendis.

Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2004 leggur bæjarráð ekki til að umbeðið stöðugildi verði veitt, heldur verði leitað annarra leiða með nýtingu núverandi starfsmanna til verksins.

7. Bréf allsherjarnefndar Alþingis. - Frumvarp til laga um sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf. 2003-11-0055.

Lagt fram bréf frá allsherjarnefnd Alþingis dagsett 13. nóvember s.l., ásamt frumvarpi til laga um sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf., 191. mál, meðferð hlutafjár. Æskir nefndin þess að svar berist eigi síðar en 28. nóvember n.k.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að svara erindinu.

Lárus G. Valdimarsson lagði fram svohljóðandi bókun við 7. lið 365. fundar bæjarráðs. ,,Undirritaður fulltrúi Samfylkingar telur, að ástæða sé til þess að hafa meiri áhyggjur af skorti á uppbyggingu og bættum öryggisþáttum dreifikerfis Landssímans, í hinum dreifðu byggðum landsins, en hvor ráðherranna fer með hlutabréf ríkisins í fyrirtækinu. Rétt er að benda á að í tillögu að orkulögum sem liggja fyrir er sérstaklega lögð áhersla á aðskilnað dreifikerfis raforku frá öðrum þáttum rekstrar orkufyrirtækja. Það er því hrópandi ósamræmi sem lagt er til við fyrirhugaða sölu Landssímans, að selja skuli dreifikerfi símans með öðrum rekstrareiningum þess fyrirtækis. Ekki er líklegt að sú ráðstöfun sé til heilla fyrir hinar dreifðu byggðir eins og gert er að ofan né er líklegt að slíkt leiði til eðlilegs samkeppnisumhverfis í komandi framtíð."

8. Bæjarstjóri gerir grein fyrir málefnum Sindrabergs ehf., Ísafirði. 2002-05-0032.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, gerði bæjarráði grein fyrir því er gerst hefur í málefnum Sindrabergs ehf., Ísafirði og Ísafjarðarbæjar frá síðasta fundi bæjarráðs þann 17. nóvember s.l.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 17:35

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Birna Lárusdóttir. Lárus G. Valdimarsson.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.

Magnús Reynir Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi.