Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

360. fundur

Árið 2003, mánudaginn 20. október kl.17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Félagsmálanefnd 14/10. 213. fundur.
Fundargerðin er í þrettán liðurm.
11. liður. Bæjarráð óskar eftir að bæjarstjóri leggi fram upplýsingar á næsta bæjarstjórnarfundi í samræmi við umræður á fundinum.
13. liður. Bæjarráð lýsir yfir ánægju sína með mjög vel heppnað málþing félagsmálanefndar er haldið var þann 18. október s.l., undir heitinu ,,Ísafjarðarbær, bær ungra Íslendinga". Bæjarráð hvetur til þess að framhald verði á formlegum skoðanaskiptum ungs fólks og bæjaryfirvalda.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Fræðslunefnd 14/10. 179. fundur.
Fundargerðin er í tíu liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Hafnarstjórn 13/10. 82. fundur.
Fundargerðin er í þremur liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Umhverfisnefnd 15/10. 174. fundur.
Fundargerðin er í fimm liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Endurskoðun fjárhagsáætlunar ársins 2003.

Fyrir var tekin endurskoðun á fjárhagsáætlun ársins 2003 og farið yfir vinnugögn frá Þóri Sveinssyni, fjármálastjóra.

3. Bréf Rekstrarstjórnar Stjórnsýsluhúss. - Hækkun rekstrarframlaga. 2003-10-0042.

Lagt fram bréf frá Rekstrarstjórn Stjórnsýsluhúss á Ísafirði dagsett 16. október s.l., er varðar hækkun rekstrarframlaga og leiguverðs á fundarsal á 4. hæð Stjórnsýsluhúss. Í bréfinu kemur fram að á fundi rekstrarstjórnar þann 14. október s.l., var samþykkt að hækka rekstrarframlög um 6% frá 1. janúar 2004. Hækkunin er vegna hækkunar verðlags á s.l. tveimur árum. Jafnframt var samþykkt að hækka leiguverð á fundarsölum um sömu prósentutölu.

Bæjarráð vísar bréfinu til gerðar fjárhagsáætlunar 2004.

4. Bréf Þorvaldar Pálssonar. - Lóðaleigusamn. á Flateyrarodda. 2003-10-0043.

Lagt fram bréf Þorvaldar Pálssonar, Flateyri, dagsett 15. október s.l., varðandi lóðaleigusamning fyrir skúr í eigu Olíudreifingar ehf. á Flateyrarodda. Í bréfinu kemur fram að Olíudreifing er tilbúin að selja Þorvaldi skúrinn og leitar hann eftir svörum bæjarráðs um hvort gera mætti nýjan lóðaleigusamning fyrir greindan skúr.

Bæjarráð samþykkir erindið og felur tæknideild framkvæmd þess.

5. Bréf Einars Ólafssonar, arkitekts. - Vinningstillögur að Grunnskólanum á Ísafirði. 2002-11-0049.

Lagt fram bréf frá Einari Ólafssyni, arkitekt, dagsett 10. október s.l., þar sem hann tilkynnir að gert hafi verið samkomulag milli hans og Arnar Þórs Halldórssonar, um að Örn afsalar sér að fullu höfundarrétti að vinningstillögu að Grunnskólanum á Ísafirði. Bréfinu fylgir afrit af samningi milli ofangreindra aðila um þetta mál.
Lagt fram til kynningar.

6. Bréf Eignarhaldsfélags Brunabótafélags Íslands. - Styrkveitingar. 2003-05-0088.

Lagt fram bréf frá Eignarhaldsfélagi Brunabótarfélags Íslands dagsett 13. október s.l., varðandi úthlutun úr Styrktarsjóði EBÍ 2003. Í bréfinu kemur fram að styrkumsókn Ísafjarðarbæjar hlaut ekki úthlutun í þetta sinn.
Lagt fram til kynningar.

7. Bréf Úrvinnslusjóðs. - Skipulag við söfnun og förgun hjólbarða. 2003-02-0054.

Lagt fram bréf frá Úrvinnslusjóði dagsett 14. október s.l., varðandi skipulag við söfnun og förgun hjólbarða.
Lagt fram til kynningar.

8. Bréf Varasjóðs húsnæðismála. - Staða framlaga vegna félagslegra íbúða. Lækkun framlaga í varasjóð vegna viðbótarlána. 2003-04-0068.

Lagt fram bréf frá Varasjóði húsnæðismála dagsett 15. október s.l, er varðar stöðu framlaga vegna sölu félagslegra íbúða og lækkun framlaga sveitarfélaga vegna viðbótarlána.
Í bréfinu kemur fram að fjárveiting til niðurgreiðslu félagslegra íbúða á þessu ári hefur að fullu verið ráðstafað og miðað við samþykkt kauptilboð og kauptilboð er reiknuð hafa verið út vantar um kr. 22 milljónir á þessu ári.
Jafnframt er í bréfinu tilkynnt um að framlög sveitarfélaga í Varasjóð húsnæðismála vegna viðbótarlána hafa verið lækkuð úr 5% af samþykktu láni í 4%.
Lagt fram til kynningar.

9. Afrit bréfs Leiðar ehf., til Hólmavíkurhrepps og Reykhólahrepps. 2003-10-0031.

Lagt fram afrit af bréfi Leiðar ehf., Bolungarvík, til Hólmavíkurhrepps og Reykhólahrepps dagsett 9. október s.l., vegna hugsanlegrar einkafjármögnunar á lagningu vegar milli Hólmavíkur og Gilsfjarðar um Arnkötludal og Gautsdal.
Lagt fram til kynningar.

10. Undirskriftalistar. - Mótmæli við úthlutun lóðar milli Sólgötu og Hrannargötu, Ísafirði. 2003-10-0045.

Lagðir fram undirskriftarlistar frá íbúum og þeim er starfa við eða í nágrenni við Sólgötu og Hrannargötu á Ísafirði, þar sem mótmælt er að auðu svæði milli þessara gatna hafi verið úthlutað sem byggingarlóð undir íbúðarhúsnæði.

Bæjarráð vísar til samþykkts deiliskipulags frá 1997, en ekki bárust athugasemdir við þá ráðstöfun í því skipulagi, að vera með eina byggingarhæfa lóð við Sólgötu (lóð Templarahússins gamla).

11. Bréf sjávarútvegsráðuneytis. - Úthlutun 1.500 þorskígildistonna milli sveitarfélaga. 2003-08-0023.

Lagt fram bréf frá sjávarútvegsráðuneyti dagsett 14. október s.l., þar sem ráðuneytið gerir grein fyrir að það hafi lokið úthlutun á 1.500 þorskígildistonnum milli sveitarfélaga, sem ætlað er til stuðnings sjávarbyggðum, sbr. reglugerð nr. 596, 8. ágúst 2003. Niðurstaða úthlutunar er m.a. að í hlut Ísafjarðarbæjar koma 118,9 þorskígildistonn.
Í bréfinu kemur fram að sveitarfélagi er gefinn kostur á að gera tillögur um úthlutun þeirra aflaheimilda, sem í hlut þess kemur, áður en ráðherra grípur til úthlutunar á grundvelli 3. gr. reglugerðar nr. 596/2003.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að Ísafjarðarbær komi ekki að úthlutunum á þeim 118,9 þorskígildistonnum er komu í hlut Ísafjarðarbæjar. Sú úthlutun verði í höndum ráðherra samkvæmt 3. gr. reglurgerðar nr. 596/2003.

Bryndís G. Friðgeirsdóttir lagði fram svohljóðandi bókun undir þessum lið dagskrár. ,,Sú dúsa sem átti að nota til að þagga niður í óánægjuröddum sem gagnrýna gjafakvótann er nú orðin að myllusteini um háls ríkisvaldsins. Nú hefur þeim myllusteini verið smeygt um háls sveitastjórnarmanna, sem hafa nú rétt til að benda stjórnvöldum á hverjir eiga skilið að fá byggðakvóta úthlutað til sín ókeypis. Sá ágreiningur sem ríkir meðal manna um stjórn fiskveiða er stöðugt að harðna þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi gert það að kosningaloforði að "skapa sátt um stjórn fiskveiða." Sífellt eru stjórnvöld að færa hungurlús til og frá og beina með því sjónum fólks frá þeim grundvallarbreytingum sem fólk vill sjá í stjórnun fiskveiða. Það næst aldrei sátt um stjórn fiskveiða fyrr en gjafakvótakerfið hefur verið afnumið."

12. Bréf Alnæmissamtakanna á Íslandi. - Beiðni um fjárstuðning. 2003-10-0036.

Lagt fram bréf frá Alnæmissamtökunum á Íslandi dagsett 9. október s.l., sent bæjar- og sveitarstjórnum. Í bréfinu er leitað eftir fjárstuðningi fyrir næsta starfsár, til þess að gera samtökunum kleift að sinna brýnum verkefnum, svo sem fræðslu og forvörnum og útgáfu á efni því tengdu í máli og myndum.

Bæjarráð telur sér ekki fært að verða við erindinu.

13. Fundargerðir Skólanefndar Tónlistarskóla Ísafjarðar. 2002-08-0069.

Lagðar fram fundargerðir Skólanefndar Tónlistarskóla Ísafjarðar frá 30. júní og 19. ágúst 2003.
Lagt fram til kynningar.

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:00

Þorleifur Pálsson, ritari.

Birna Lárusdóttir, formaður bæjarráðs.

Svanlaug Guðnadóttir. Bryndís G. Friðgeirsdóttir.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.

Magnús Reynir Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi.